Sunday, August 21, 2011

það sem við höfum alltaf vitað; varalitur eyðir femínisma (og blómatími íslenskra kvenna; árið 1981)

Hola lovers,

Ég mæli með því að þið hlustið öll á viðtalið við hana Tobbu hér. Þar bendir Tobba réttilega á að gagnrýni sem hún hefur fengið á fyrirhugaðan sjónvarpsþátt sinn frá meintum femínista falli kylliflöt um sjálfa sig, því sést hafi til meinta femínistans með varalit. En allir vita að femínistar eru ljótar, loðnar og leiðinlegar konur sem hugsa ekkert um útlitið og af því leiðir þá að konan getur ekki verið femínisti og gagnrýni hennar því með öllu ómarktæk.

Þetta er nokkuð sem ég hef lengi vitað; að snyrtivörur núlla út alla feminíska tilburði kvenna. Því allir vita að sætar konur þurfa ekki að vera teknar alvarlega, vera metnar að verðleikum, fá sanngjörn laun eða stjórnunarstöður. Aukinheldur benda rannsóknir til þess að konur eyði að meðaltali þremur árum lífs síns í að hugsa um útlitið, mála sig, klæða sig, greiða sér, raka á sér lappirnar, o.fl., og snyrtileg kona með varalit getur því varla haft tíma til að hafa áhyggjur af stöðu kvenna eða tíma til að mynda sér skoðanir sem mark er takandi á.

Tobba stærir sig af því að hafa fært réttindabaráttu kvenna aftur til ársins 1981 og heimtar einkennisbúning fyrir (ætti maður að líta á þetta sem áskorun, lovers? lógósamkeppnin sýndi svo sannarlega hversu liðtæk við erum í hönnun, einn einkennisbúningur ætti nú að vera lítið mál), en með því held ég að hún hljóti að vísa til þess hve mjög hún hefur lagt sitt af mörkum til þess að hefta útbreiðslu femínisma meðal kvenna – einmitt með því að halda að þeim sjónvarpsþáttum og bókum um varaliti.

Varalitur: Besta vopnið í baráttunni gegn femínisma.
(Og allir í þættinum eru reyndar alveg sammála um að það sé bara hið besta mál að færa kvenréttindabaráttuna aftur til ársins 1981, því þá hafi verið svo fínt að vera kona. Þó ég hafi ekki verið fædd það ár, þá held ég að þetta sé hárrétt hjá þeim, því ég sé ekki betur en árið 1981 hafi einmitt verið blómatími íslenskra kvenna. Þá var atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi 65% og á tímabilinu 1979-1981 voru laun kvenna í fullu starfi að jafnaði 71% af launum karlmanna, sem ég tel að endurspegli u.þ.b. muninn á virði þeirra sem manneskjur. Árið 1978 voru aukinheldur 5% þeirra sem kosnir voru til fjögurra ára setu á Alþingi konur, þar var enginn kvenkyns ráðherra, og árið 1986 var hlutfall kvenna í sveitarstjórnum 24,6%. Var þetta ekki bara ídeal, lovers?)

xoxo
-h

11 comments:

  1. 1981 var klárlega blómatími íslenskra kvenna enda hef ég lengi velt vöngum yfir því hvers vegna Kvennaframboðið varð til 1981/2. Þær hljóta bara að hafa verið í einhverjum hormónatilfinningarússíbana þegar sú hugmynd kom upp!

    ReplyDelete
  2. Ég meina þessar kerlingar ættu að gefa henni breik. Þetta verður greinilega ógeðslega flottur þáttur. Það á að tala um sorglega hluti og allt.

    ReplyDelete
  3. Ég held að Tobba muni rústa þessu. Hún er svo sannarlega með puttann á púlsinum, veit hvað konur vilja í alvörunni tala um, snyrtivörur og kynlíf. Ég hef engan áhuga á neinu öðru. Áfram tobba!

    ReplyDelete
  4. Það hefur að sjálfsögðu aldrei verið búinn til þáttur um konur, varaliti, kynlíf. Aldrei.
    Ég hlakka til.

    ReplyDelete
  5. Hvílík tilviljun að hér skuli kommenta fjórir einstaklingar sem allir heita Anonymous og beita fyrir sig sams konar kaldhæðni og greinarhöfundur.

    Pant vera memm.

    ReplyDelete
  6. þú mátt það alveg Kalli

    ReplyDelete
  7. æ hvað þetta er þreytandi, geta konur ekki bara staðið saman í stað þess að vera í þessum skotgrafarhernaði gegn týpum sem eru þeim ekki þóknanlegar

    ReplyDelete
  8. svo kallar þetta sig feminista þegar skotmörkin virðast í meirihluta tilfella vera aðrar konur, hvers konar feminismi er það?

    ReplyDelete
  9. Vá, hvernig nenniru að væla um þetta?!

    ReplyDelete
  10. Þessi anonymous er bara eitthvað skitsó!
    Hvernig væri bara að koma öllum sjónarmiðunum sínum fyrir í einu kommenti heldur en að dreifa því í endalaust margar setningar.

    - Kv. Anonymous.

    ReplyDelete