Thursday, March 22, 2012

sögur af andláti mínu eru stórlega ýktar

Hola lovers,

Ég ætla ekki að biðja ykkur afsökunar á fjarveru minni, en ég skal útskýra hana.

Eftir allt fjölmiðlafárið sem fylgdi útkomu lífstílsbókar minnar þá var ég orðin fullkomlega úrvinda. Þið getið auðvitað ekki ímyndað ykkar hvað það er slítandi að fara í viðtöl í öllum helstu fjölmiðlum álfunnar, fá tonn af aðdáendabréfum, mæta á endalausa upplestra, árita þúsundir (ef ekki milljónir) eintaka, heiðra aðdáendur með nærveru minni og líta jafnframt óaðfinnanlega út.

Í janúar ákvað ég því að nota brotabrot af ágóða sölu bókarinnar og fara í tveggja mánaða dítox-spa-búðir við strendur Dauðahafsins.

Dauðahafið.
Það var endurnærandi að komast í annað umhverfi þar sem enginn vissi hver ég var. Engir ljósmyndarar eltu mig á röndum, enginn vildi fá mig til að árita neinar bækur og engir blaðamenn að hringja til að biðja mig að koma í viðtöl (ég skildi símann eftir heima).

Í dítox-spa-búðunum var notalegt og gott andrúmsloft. Þarna var andlega þenkjandi og fallegt fólk á borð við mig sjálfa. Það var sérstaklega einn sem ég náði góðu sambandi við, soldán nokkur að nafni Said. Ég tók strax eftir honum fyrsta daginn. Hann er með hunangslita húð og svo hvítar tennur að þær lýsa upp andlitið á honum þegar hann brosir. Indverskur fakír elti hann á röndum og það var ekki fyrr en undir lok dvalar minnar sem ég komst að því að fakírinn er í raun lífvörður hans. Og Said er jórdanskur olíufursti og einn af ríkustu mönnum veraldar.

Einhvernveginn æxluðust hlutirnir þannig að ég og Said vorum í flestum meðferðum á sama tíma og á milli okkar mynduðust fljótt órjúfanleg bönd. Það er ef til vill erfitt fyrir ófríða að ímynda sér hversu náið samband myndast á milli tveggja einstaklinga sem dítoxa saman, fasta og skola út. Og hvernig maður deilir ósjálfrátt innstu leyndarmálum sínum, löngunum og þrám þegar maður liggur í grænni vin í skugga frá eyðimerkursólinni og bíður eftir því að andlitsmaskinn þorni og hreinsi um leið svitaholurnar á t-svæðinu.

Said hefur sjálfur lýst sambandi okkar sem stokkhóms-syndrómi, en ég sagði honum að ekkert skandinavískt orð gæti fyllilega lýst hita þeirra tilfinninga sem kviknuðu á milli okkar þarna í eyðimörkinni.

Þegar dítox-búðunum lauk bauð hann mér að fylgja honum í höll sína. Ég þáði auðvitað boðið og þar er ég nú. Lífið er ljúft, ég er búin að missa heil 8 kíló, svitaholur mínar eru hreinari en þær hafa nokkurntímann verið og ég hef fengið fullt af innblástri fyrir næstu lífstílsbók. Og það allra besta er að hinar konurnar í höllinni eru huldar frá toppi til táar, og því er ég óumdeilanlega fallegasta konan á svæðinu, því samkeppnin er engin.

Því miður get ég hvorki sýnt ykkur myndir af Said né höllinni eða einhverjum af fjölmörgum lystigörðum hennar, því fakírinn (sem er víst ekki bara lífvörður heldur yfirmaður allrar öryggisgæslu í höllinni) bannar mér að taka myndir og hann braut meira að segja myndavélina mína þegar ég var að taka átfittpóst fyrir þessa færslu.

P.S. kærasti, ef þú ert að lesa þetta, þá segi ég þér upp.

xoxo
-h

No comments:

Post a Comment