Hér fyrir neðan er játning sem ég sendi Bleikt.is og bað þær um að birta nafnlaust, því ég vildi ekki að kærastinn minn kæmist að því hvað fram fór á milli mín og nágranna míns.
En einhverra hluta vegna hefur ritstjórn Bleikt.is ákveðið að birta ekki bréf mín, og ég sé mér því miður ekki annað fært í stöðunni en að gera það sjálf, ef ske kynni að ég einn daginn ætti ég ekki afturkvæmt.
****
frá: tiskublogg@gmail.com
til: jatningar@bleikt.is
dagsetning: 27. júlí 2011 kl. 10:42
titill: játning mín
Kæra ritstjórn,
Hér er játning mín.
Ég treysti því að þið haldið nafni mínu leyndu þegar þið birtið hana. Ég vil nefnilega síður að kærasti minn komist að þessu.
xoxo
-h
******
Játning: Ég og nágranni minn
Ég á nágranna. Hann er myndarlegur, einhleypur og vel stæður. Þegar ég er andvaka fer ég stundum út á svalir og horfi á hann sofa. Þaðan er nefnilega prýðilegt útsýni inn í svefnherbergið hans, sérstaklega ef ég stend uppi á kolli og teygi fram álkuna. Hann er fallegur þegar hann sefur.
Vandamálið er bara að ég á kærasta.
Það kom samt ekki í veg fyrir að ég byði honum inn í síðustu viku.
Það var alveg óvart. Kærastinn var í veiðiferð, ég var nýkomin úr brasilísku vaxi og hafði komið við á leiðinni heim og keypt mér hvítvín, ostrur, humar og franska súkkulaðiköku. Og þegar ég var rétt búin að híma frammi á stigapalli fyrir utan íbúðina hans í tæpan klukkutíma þá rakst ég óvænt á hann. Ég missti töskuna mína og út úr henni datt lítil flaska af unaðsolíu. Við beygðum okkur bæði til að taka hana upp. Hendur okkar snertust. Ég brosti til hans undan hárinu og hann hnerraði. Síðan spurði ég hann hvort hann gæti ekki hjálpað mér að bera unaðsolíuna inn. Hann varð ráðvilltur á svipinn af losta, ræskti sig nokkrum sinnum og kinkaði svo kolli. Þegar við komum inn sagði ég honum að hann gæti lagt unaðsolíuna frá sér inni í svefnherbergi. Hann gerði það og lét einsog hann sæi ekki bleiku handjárnin sem ég hafði óvart skilið eftir á satínkoddanum.
Þegar hann kom fram var ég búin að opna hvítvínsflöskuna og af gömlum vana hafði ég óvart hellt í tvö glös. Ég vildi síður að þetta fína vín færi til spillis svo ég spurði hvort hann vildi ekki bara drekka það með mér. Hann var ógurlega kurteis og hristi fyrst höfuðið og afþakkaði, þó ég sæi vel að hann langaði ekkert meira en að þiggja hvítsvínsglasið og eiga stund með mér. Ég ítrekaði því boðið og það þurfti ekki mikið til að sannfæra hann um að segja já; það tók ekki nema nokkrar mínútur. Ég settist við eldhúsborðið, hann kaus frekar að standa, og hann hlýtur að hafa verið mjög óöruggur og spenntur í nærveru minni, því hann drakk vínið mjög hratt og kláraði úr glasinu í u.þ.b. þremur sopum. Hann leit staðfastur í augun á mér, lagði glasið á borðið og þakkaði fyrir sig. Rödd hans var full af þrá. Ég kom auga á blett á buxunum hans efst á lærinu, rétt undir nára. Ég er áhugamanneskja um þvottaefni, svo ég lagði höndina á blettinn, nuddaði hann og sagði honum að ef hann vildi gæti hann farið úr buxunum og ég gæti lagt þær í bleyti fyrir hann og fjarlægt blettinn.
Hann kipptist við og bakkaði frá mér, einsog hann væri hræddur um að lostinn myndi bera hann ofurliði þá þegar. Svo opnaði hann munninn og virtist í þann mund að segja eitthvað fallegt þegar við heyrðum skerandi hávaða, glugginn opnaðist og eldhúsið fylltist af blindandi ljósi.
Ég veit ekki hvað gerðist síðan. Við rönkuðum við okkur mörgum klukkutímum seinna þarsem við lágum bæði á eldhúsgólfinu. Hvítvínið var orðið hlandvolgt og það var komin skrýtin lykt af ostrunum. Nágranni minn settist upp, leit ringlaður í kringum sig og svo fékk hann fossandi blóðnasir. Ég rétti honum eldhúsrúllublað, en hann sló á hönd mína og hljóp svo fram. Stuttu síðar heyrði ég hann skella hurðinni inn til sín.
Nú eru fjórir dagar síðan þetta gerðist. Kærastinn minn kemur heim úr veiðiferðinni á morgun. Ég get ekki sofið, því mig dreymir í sífellu að ég liggi nakin á köldum bekk, umkringd blindandi ljósum. Hávaðinn er ærandi, en hvernig sem ég reyni get ég hvorki hreyft legg né lið. Ég get heldur ekki litið til hliðanna og þessvegna get ég ekki séð þá sem eru á hreyfingu í kringum mig. Þeir eru samt þarna, rétt utan við sjónsvið mitt og líkjast helst skuggum af litlum börnum. Ég öskra þegar þeir stinga mig, en einhverra hluta vegna kemur ekkert hljóð.
Nágranni minn getur heldur ekki sofið. Ég hef eytt undanförnum nóttum úti á svölum og horft á hann bylta sér.
---------
frá: tiskublogg@gmail.com
til: jatningar@bleikt.is
dagsetning: 28. júlí 2011 kl. 11:47
titill: Re: játning mín – framhald
Játning: Ég og nágranni minn (framhald)
Ég er fegin því að þið skuluð ekki hafa birt játninguna sem ég sendi ykkur í gær, því ég hef nú nokkru við hana að bæta.
Eftir að ég sendi ykkur póstinn í gærmorgun þá fékk ég heiftarlegan höfuðverk. Ég reyndi að hringja í mömmu mína og biðja hana að keyra mig upp á spítala, en þegar ég tók upp gemsann kom bara skrýtið suð og svo birtust undarleg tákn á skjánum. Ég tók upp heimasímann og hann virkaði ekki heldur. Ég endaði því á að skjögra út á götu, stöðva þar bíl og biðja ökumanninn að keyra mig upp á bráðamóttöku. Læknarnir þar óttuðust að um heilablæðingu væri að ræða svo ég var send rakleiðis í sneiðmyndatöku.
Og þið eigið aldrei eftir að trúa því hvað þar kom í ljós.
Svo virðist vera sem ég sé með litla málmplötu í höfuðkúpunni. Hún er staðsett á enninu, rétt við hársvörðinn, en læknarnir gátu ekki almennilega séð hversu stór hún er eða úr hverskonar málmi, því hún sendir frá sér einhverskonar segulmagnaðar bylgjur sem höfðu áhrif á tækið og bjöguðu myndina.
Ég heyrði af þögn læknanna að þeir hafa aldrei séð neitt þessu líkt áður. Þeir kröfðust þess að ég tæki allskonar próf til að athuga hvort að platan hefði áhrif á heilastarfsemi mína, en fundu ekkert óeðlilegt, fyrir utan niðurstöður persónuleikaprófs sem voru í hæsta máti undarlegar. Læknarnir fullyrtu nefnilega að niðurstöðurnar bæru vott um mikilmennskubrjálæði og skort á hæfileikanum til þess að setja sig í spor annarra. En hvert heilvita mannsbarn hlýtur að sjá að þær niðurstöður hafa ekki við nein rök að styðjast í mínu tilfelli. Þeir ætluðu ekki að hleypa mér heim, en þarsem höfuðverkurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu og ég virðist ekki vera í lífshættu þá krafðist ég þess að fá að fara, og þeir gátu ekki haldið mér.
Þegar ég kom heim bankaði ég lengi á dyrnar hjá nágranna mínum. Hann kom ekki til dyra. Ég veit samt að hann var heima, því ég fór út á svalir og kíkti inn í svefnherbergi til hans, og þar sat hann á rúmbríkinni á nærbrókinni einni fata, studdi olnbogum á hné og hélt um höfuðið á sér einsog hann væri sárkvalinn. Ég skrifaði honum miða um málmplötuna og stakk undir hurðina hjá honum. Það eru 18 klukkutímar síðan, en hann hefur ekki enn haft samband.
Ég svaf ekkert í nótt. Kærastinn er væntanlegur úr veiðiferðinni á hverri stundu. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta fyrir honum og ég efast um að hann eigi eftir að trúa mér.
En kannski trúir hann mér ef hann strýkur yfir ennið á mér.
Ég finn nefnilega fyrir málmplötunni. Hún er þarna undir húðinni, sporöskjulaga og á stærð við tíkall. Og þegar ég strýk yfir hana get ég ekki losnað við þá tilfinningu að frá henni stafi hiti.
----------
frá: tiskublogg@gmail.com
til: jatningar@bleikt.is
dagsetning: 29. júlí 2011 kl. 13:25
titill: Re: játning mín – framhald
Játning: Ég og nágranni minn (framhald af framhaldinu)
Það gerðist aftur í nótt. Ég lá uppi í rúmi og kærastinn svaf við hlið mér þegar ég heyrði hljóðið. Ég þekkti það samstundis. Örskömmu síðar fylltist herbergið af blindandi ljósi.
Þegar ég rankaði við mér var orðið bjart úti. Kærastinn svaf enn. Ég vakti hann og spurði hvað hefði gerst, hvort hann hefði heyrt eitthvað eða séð, en hann hló bara að mér og sagði að mig hefði verið að dreyma.
En ég veit að mig var ekki að dreyma.
Eftir að hann fór í vinnuna bankaði ég hjá nágrannanum. Hann kom ekki til dyra. Ég kíkti inn í svefnherbergið hans en hann var ekki þar.
Ég held að hann hafi verið þarna í nótt, í ljósinu þegar ég var tekin. Ég man það ekki beinlínis, þetta er frekar tilfinning sem ég hef. Svipuð því og þegar maður er viss um hafa dreymt einhvern en getur ómögulega rifjað upp drauminn.
Höfuðverkurinn er orðinn verri. Hvað á ég að taka til bragðs?
--------
frá: tiskublogg@gmail.com
til: jatningar@bleikt.is
dagsetning: 30. júlí 2011 kl. 11:57
titill: Re: játning mín – framhald
Játning: Ég og nágranni minn (framhald af framhaldinu af framhaldinu)
Nágranni minn er horfinn. Lögreglan bankaði uppá í gær og sagði að hann hefði ekki komið í vinnuna síðan daginn sem ég bauð honum inn. Hann hafði ekki svarað í símann og það hafði enginn heyrt í honum. Lögreglan spurði hvort ég hefði séð til hans. Ég sagði þeim ekki neitt. Þeir brutu upp hurðina að íbúðinni hans en hann var ekki þar.
Bíllinn hans stendur ennþá hér fyrir utan og ég býst við því að það verði lýst eftir honum í fréttunum í kvöld. Það er verið að slæða höfnina núna, en ég veit að þeir finna hann ekki þar.
Hann hefur verið tekinn, en honum hefur ekki verið skilað aftur.
Ég óttast nú mjög um eigið öryggi.
Þessvegna bið ég ykkur um að birta játningar mínar, svo einhver viti sannleikann, ef allt fer á versta veg.
xoxo
-h