Einsog dyggir aðdáendur Tískubloggsins vita þá hlaut ég ritstjórastöðu á Eyjunni í haust (sjá hér), einungis til að vera svipt henni fyrirvaralaust kvöldið áður en áætlað var að ég tæki til starfa (sjá hér).
Ég var að sjálfsögðu afar ósátt við þessa framkomu Eyjufólks í minn garð og sendi þeim harðort bréf (sjá hér). Allt fór þó vel að lokum, og lyktir þessa máls urðu þær að sá sem hafði sölsað undir sig ritstjórastól minn viðurkenndi ótvíræða yfirburði mína og ég fékk aðdáunarbréf frá uppáhalds Pjattrófunni minni.
Ég tók því vefritið Eyjuna nokkurn veginn í sátt, þó vissulega hafi mér sárnað svolítið framkoma þeirra.
Þegar tilkynnt var um eigendaskipti hennar nýverið sperrti ég eyrun, því auðvitað gat enginn annar en ég sjálf komið til greina sem ritstjóri hennar, fyrst valdaræninginn hafði tekið pokann sinn. En nýir eigendur virtust þó hafa aðrar hugmyndir, sem hlýtur að skýrast af því að þeir hafa einfaldlega aldrei lesið Tískubloggið og því ekki kynnst óbrigðulu tískuviti mínu, innsæi mínu í hug smáborgarans, kyngimagnaðrar hugsunar minnar og næmlegri framsetningu.
Ég skrifaði þessi mistök því á vanþekkingu þeirra og ákvað að taka þetta ekki svo nærri mér, því ég hefði hvorteðer hafnað tilboði þeirra um ritstjórastöðuna, þar eð ég er einfaldlega of hæf í stöðuna, auk þess sem Tískubloggið hyggst færa út kvíarnar og vera ekki eingöngu vefrit, heldur einnig sjónvarpsstöð, og hér munu skemmtilegri og meira spennandi hlutir eiga sér stað en munu nokkurntímann birtast á Eyjunni. Það hefði þó engu að síður verið gaman að vera boðin staðan, en ég ákvað að kæra mig kollótta og hélt áfram að vera dyggur lesandi Eyjunnar.
En þegar ég svo sá síðla kvölds í gær að þeir höfðu úthýst Pjattrófunum, uppáhaldsbloggi mínu, þá rann mér blóðið til skyldunnar og ég hafði afráðið að hafa samband við þær og bjóða þeim afnot af lögfræðiteymi mínu og bjóðast jafnvel til að senda einsog eitt harðort bréf fyrir þeirra hönd til nýs ritstjóra. Því Pjattrófurnar er ekki bara uppáhaldsheimasíðan mín, heldur hafa þær að mörgu leyti verið mér fyrirmynd og hvatning, auk þess sem þær hafa stutt dyggilega við Tískubloggið í gegnum tíðina. Og ég gæti best trúað að þær beri ekki síður hlýjar tilfinningar í minn garð, og ég efa ekki að þær horfa á mig með stolti kennarans sem fylgist með nemanda sínum taka honum sjálfum fram og ná hærra en kennarinn sjálfur hafði nokkru sinni möguleika á, eða hæfileika til.
Af framansögðu má vera ljóst að mér var vefritið Eyjan þegar hugleikin þegar mér barst svo aðsendi pistillinn sem birtist hér að neðan. Hann rímaði þó engan veginn við þær skoðanir sem ég hafði myndað mér á málinu, en það góða við önnur sjónarmið er að þau fá mann oft til að endurskoða sín eigin.
Í aðsenda pistlinum er bent á að nýir eigendur Eyjunnar séu í raun að gera metnaðarfulla tilraun til að útiloka kvenrembur (femínista) frá síðu sinni, og ég get ekki annað en lýst yfir ánægju minni með þá þróun. Þið vitið öll hvað mér finnst um þessar loðnu, ljótu, óánægðu og leiðinlegu konur.
Þegar fólk fer í krabbameinsmeðferð þá fer það oft á lyf sem drepur ekki bara veikar frumur, heldur allar frumur, þær heilbrigðu líka. Þar sem betri lyf eru því miður ekki í boði verða heilbrigðu frumurnar einfaldlega ásættanlegur (en engu síður sár) fórnarkostnaður við útrýmingu meinsins.
Nýir aðstandendur vefritsins Eyjunnar búa bersýnilega ekki yfir fínlegri meðölum til að útrýma krabbameininu sem kvenrembur (femínistar) eru, og grípa því til þess ráðs að fjarlægja allar konur af vefsíðu sinni. Ég styð þá heilshugar í því átaki, þó vissulega sé hægt að rífast um aðferðafræðina.
Úthýsing Pjattrófanna er því sár, en ásættanlegur, fórnarkostnaður við útrýmingu femínista (kvenremba) af internetinu.
Ég þakka ykkur samfylgdina Pjattrófur.
Það var gott á meðan varði.
Og gef ég nú Snæ, aðdáanda Tískubloggsins, orðið.
xoxo
-h
***
Birni Inga sendar baráttukveðjur
Nú hefur Björn Ingi yfirtekið Eyjuna og strax sjást merki þess að hann tekur alvarlega það hlutverk sitt að greina á milli áhugasviða kynjanna. Hann hefur lokað á Láru Hönnu sem fastan bloggara, enda hefur hún ekki sýnt konum tilhlýðilega virðingu í gegnum tíðina. Hún hefur mokað yfir alþjóð leiðindum um umhverfisvernd og stjórnsýslu sem allir vita að konur hafa hvorki vit né áhuga á. Í stað hennar eru komnir Eiríkur Jónsson og Jakob Bjarnar, sá fyrrnefndi er með fremstu blaðamönnum landsins eins og allir vita, og sá síðarnefndi hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á því hvað karlrembur (femínistar) eru mikið þjóðfélagsmein. Jakob Bjarnar hefur oft lýst þeirri athugulu skoðun að það beri að leggja Jafnréttisstofu niður, enda ekkert nema peningaaustur sem er varla réttlætanlegt á aðhaldstímum.
Fyrir áhugafólk um að hið rétta eðli kynjanna fái notið sín eru þetta góðar fréttir og eru Birni Inga sendar allar góðar kveðjur og þakklæti fyrir framlag sitt til fjölmiðlunar á Íslandi.
Snær
Ég er hætt að vera femínisti ef Björn Ingi vill leyfa mér að blogga áfram. Ég skal meira að segja kjósa framsókn, hoppa á ríkisstjórninni og sprengja upp Alþingishúsið.
ReplyDeleteJaja.
Jenný Anna Baldursdóttir, kafloðin og geðvondur femínisti.
Hann á skilið að fá fálkaorðuna og allskonar.
ReplyDeletejá, björn ingi og karl th. standa sig heldur betur vel í þessu öllu saman. Ég hvet þig til að senda þeim línu og benda þeim á hvað þeir eru duglegir við þetta.
ReplyDelete