Wednesday, June 22, 2011

opið bréf til útvarpsstjóra

Hola lovers,

Ég var búin að segja ykkur á Facebook-síðu minni að Sokkabandið á Rás 2 er ógeðslegasti útvarpsþáttur í heimi. Ég bannaði ykkur jafnframt að hlusta á hann og ég ætla rétt að vona að þið hafið hlýtt mér í blindni.

Hann hóf göngu sína síðastliðinn mánudag og hann er skelfilegur, svo miklu, miklu skelfilegri en ég hafði getað ímyndað mér að útvarpsþáttur gæti verið.

Ég veit ekki betur en hann sé kominn til að vera í útvarpi allra landsmanna og því sé ég mér ekki annað fært en að taka tafarlaust í taumana og koma í veg fyrir að peningum skattpíndra aðdáenda Tískubloggsins sé eytt í þetta ógeð.

Ég skrifaði útvarpsstjóra því opið bréf.

***

Opið bréf til útvarpsstjóra

Útvarpsstjóri,

Þú ættir að skammast þín.

Sokkabandið, sem er nýr „útvarpsþáttur“, er almenningi ekki boðlegur og ég krefst þess að hann verði tafarlaust tekinn af dagskrá. Þessi þáttur gefur sig út fyrir að ræða við „framtakssamar“ stelpur, en í fyrsta þættinum var ekki rætt við eina einustu fegurðardrottningu og enginn af viðmælendunum hefur verið Séð & heyrt stúlka. Kallar þú þetta metnað, útvarpsstjóri?

Og það er ekki nóg með að þáttastjórnendurnir, Kristín og Þóra Tómasdætur, séu greinilega fullkomlega vanhæfar í vali á viðmælendum, heldur kusu þær að bjóða erkióvini mínum (sem ég kýs að nefna ekki á nafn af augljósum ástæðum) í þátt sinn og gleyptu bullið í henni hrátt. Hvað á það að þýða að bjóða lygara í drottningarviðtal og spyrja síðan bara þægilegra spurninga?

Þær hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum í þeirri grófu sögufölsun sem hefur átt sér stað í samfélaginu undanfarið, sem gengur út á það að grafa sannleikann um það hver það er sem raunverulega ritar Tískubloggið. Sokkabandið, útvarpsþáttur sem þú berð ábyrgð á, tekur þannig þátt í víðtæku samsæri spilltra íslenskra fjölmiðla.

Heldur útvarpsstjóri að það sé tilviljun að Kristín og Þóra Tómasdætur vegi svo gróflega að Tískublogginu nú örfáum mánuðum áður en lífstílsbók mín kemur út? Telur útvarpsstjóri það vera tilviljun að þær séu sjálfar að fara að gefa út einhverskonar stúlknafræðara, sem á víst að heita framhald á bleðlinum sem þær gáfu út fyrir síðustu jól og kölluðu bók, einsog fram kemur í þessari frétt? Getur það verið að þær óttist samkeppnina við bók mína sem kemur út um svipað leyti, því þær vita að þar mun kvenþjóðin fá svör við öllum mögulegum spurningum sínum og því muni enginn kaupa bókina þeirra og þær kjósi því þessa lúalegu aðferð til að níða af mér skóinn í veikri tilraun til að bola samkeppnisaðila sínum burt? Getur það verið að þær geri sér grein fyrir óvéfengjanlegum yfirburðum mínum og grípi því til örþrifaráða?

Útvarpsstjóri veit að Þóra Tómasdóttir hefur starfað á hinum ýmsu fjölmiðlum og hefur því ágæt tengsl við fjölmiðlaheiminn. Hún þekkir gagnrýnendur og hefur unnið með þeim. Ég leyfi mér því að fullyrða að ef lífstílsbók Tískubloggsins hlýtur slæma umfjöllun eða dóma þegar hún kemur út, þá mun það vera Þóru Tómasdóttur að kenna.

En hún getur togað í alla þá spotta sem hún vill.

Ég og þú vitum sannleikann, útvarpsstjóri.

Rektu þær núna.

xoxo
-h

4 comments:

  1. En þú getur tekið gleði þína á ný þar sem nú býðst ungum stúlkum að læra um fágaða framkomu og litafræði, allt í þínum anda:) Það er enginn hætta á ferðum því Kristín og Þóra hafa greinilega aldrei farið á svona námskeið auk þess sem þær tilheira bráðum úreldri kynslóð.

    ReplyDelete
  2. Sheeeeet bitra gella xD

    ReplyDelete
  3. Hahah.. Þóru að kenna? Elsku besta, þér að kenna.. Ekki myndi ég kaupa bókina þína.

    ReplyDelete
  4. Sar, þú myndir ekki einusinni fá leyfi til að kaupa bókina mína. Hún er bara fyrir kúl fólk.

    ReplyDelete