Þið vitið auðvitað að ekkert er minna sexí en að fylgjast með þjóðfélagsumræðu og hafa skoðanir á málefnum sem varða hagsmuni þjóðarinnar á einhvern hátt. Ég veit að lesendum mínum er öllum afar umhugað um að vera eins sexí og mögulegt er og þessvegna vitið þið væntanlega ekki að það verður kosið um næsta forseta lýðveldisins í næsta mánuði. (Ég fylgist með þessu með öðru (og minna sexí) auganu, svo þið þurfið þess ekki, lovers (þið megið þakka mér seinna)).
En hingað til hefur nákvæmlega ekkert markvert átt sér stað í umræðunni sem kemur okkur tískumeðvitaða fólkinu við, fyrr en nú!
Því núna hefur kollegi minn hún Marta María á Smartlandinu LOKSINS komið með vinkil sem vantaði tilfinnanlega í umræðuna: Dóm um útlit og líkamsvöxt forsetaframbjóðanda. Hún skrifaði greinina Átti hún barn fyrir 10 dögum?, birtir þar mynd af Þóru Arnórsdóttur í kjól sem hún kallar "alveg aðsniðinn, sýndi vel línurnar", og kunnum við henni góðar þakkir fyrir innleggið.
Mörgum forsetaframbjóðendum hefur verið mikið í mun að fjölmiðlar gæti sanngirni í umfjöllun um þá í aðdraganda kosninganna og séu vakandi fyrir því að einn frambjóðandi fái ekki meiri umfjöllun en aðrir. Ég skil það vel og hef samúð með því sjónarmiði og því vildi ég rétta hlut sitjandi forseta (og helsta keppinautar Þóru) í umræðunni.
***
ÁTTI HANN BARN FYRIR 37 ÁRUM?
Ólafur Ragnar Grímsson opnaði nýverið kosningaskrifstofu sína að viðstöddu fjölmenni. Það vakti athygli að það mátti ekki með nokkru móti sjá að Ólafur hefði eignast tvíbura fyrir aðeins 37 árum, eða árið 1975.
Ólafur klæddist gráum jakkafötum, ljósblárri skyrtu og var með gult bindi. Jakkafötin, sem voru alveg aðsniðin, sýndu vel línurnar.
Af myndunum að dæma má sjá að Ólafur Ragnar slær stjörnum á borð við Rod Stewart og David Bowie við, því þær voru mun lengur að ná fyrra formi eftir barneignir.
xoxo
-h
Takk takk takk!
ReplyDeleteMarta
Hahahah!
ReplyDeleteSpot on!
ReplyDeletehahaha, Takk fyrir þetta, mjög gott innlegg.
ReplyDelete