Enn heldur Smartlandið áfram að upplýsa þjóðina um það sem skiptir mestu máli í lýðræðislegri kosningabaráttu; útlit frambjóðenda og maka þeirra.
Í fréttinni Dorrit mætti í bleikum sokkum kemur fram að eiginkona sitjandi forseta hafi, þótt ótrúlegt megi virðast, klæðst (samstæðum!) sokkum þegar þau heimsóttu nýverið veitingastað á landsbyggðinni.
Og hvernig haldiði að þeir hafi verið á litinn? Bleikir.
Það er ljóst að þetta sokkapar mun hafa afgerandi áhrif á úrslit komandi kosninga.
Tískublogginu er sem fyrr umhugað um að allrar sanngirni sé gætt í umfjöllun um forsetaframbjóðendur og því býður það lesendum sínum umfjöllun um sokka Hrafns Malmquist, en hann er maki Andreu Ólafsdóttur, meðframbjóðanda Ólafs Ragnars Grímssonar.
***
HRAFN MÆTTI Í GRÆNUM SOKKUM
Hrafn Malmquist og Andrea Ólafsdóttir mættu nýverið í myndatöku fyrir DV. Þótt hjónin séu í kosningabaráttu sló Hrafn ekkert af þegar kom að folagangi.
Hann klæddist jakkafötum og grárri, röndóttri skyrtu og var ekki með stór sólgleraugu. Það sem toppaði hinsvegar allt voru grænu sokkarnir sem hann klæddist í myndatökunni.
Íslenskir folar mættu alveg leika þetta eftir og splæsa á sig grænum sokkum til þess að vera örlítið sumarlegri.
Vinsamlegast athugið að sokkarnir sjást ekki á meðfylgjandi mynd.
xoxo
-h
No comments:
Post a Comment