Wednesday, December 29, 2010

þá er það skjalfest! (a.k.a. ég játa)

Hola lovers,

Það er þá einsog mig hefur lengi grunað. Konur eru konum verstar.

Mig hefur nefnilega lengi grunað þetta, en ekki fengið staðfest fyrr en nú. Að konur hefðu komið glerþakinu fyrir, konur berjist í laumi fyrir launamun kynjanna og fáum konum í stjórnunarstöðum og síðast en ekki síst að það eru í raun konur sem setja strangar útlitskröfur sem oft á tíðum eru gerðar til kvenna, því einsog greinin sýnir með óyggjandi hætti fram á þá eru „margar konur [...] einfaldlega að reyna að standast kröfur sem gerðar eru til þeirra. Og hver gerir þessar kröfur? Jú - aðrar konur“.

Alveg grunaði mig þetta, lovers. Það hlýtur að vera af þessum sökum sem að ljótar konur komast aldrei langt á vinnumarkaði eða í pólitík, því það eru aðrar konur sem stjórna því hverjar vinna sig upp og hverjar ekki, og þessar konur setja strangar útlitskröfur. Þessvegna höfum við, líkt og greinarhöfundur þessarar kennslugreinar um karlmennsku „heyrt talað um kynþokkafullar bissness konur sem klifra upp metorðastigann af hreint út sagt útsmognum kvenleika“.

[Innskot: Ég vil nota tækifærið og gleðjast svolítið yfir því að á vefritinu Bleikt.is - Vefur fyrir drottningar, sé hugað að báðum kynjum, en ekki bara konum einsog áður hafði verið lofað, þarsem af yfirlýsingum ritstjóra mátti skilja sem svo að á vefnum ætti eingöngu að vera efni sem allar konur jarðar hafa áhuga á. Mikið er ég fegin að þar virðist alvöru jafnréttisstefna ríkja á ritstjórninni, en ekki femínismi (kvenremba), því einsog ég hef skrifað hér áður þá finnst mér að femínistar ættu frekar að einbeita sér svolítið að því að berjast fyrir réttindum karla ef þær ætla að gera tilkall til þess að vilja jafnrétti. Það er því sannkallað gleðiefni að kvenkyns lesendum Bleikt.is sé þar falið það verkefni að aðstoða menn sína við að verða karlmannlegri.]

Konur eru konum verstar.
Og ég játa að ég er sek um það sem greinin sakar mig um. Ég geri miklar útlitskröfur til vinkvenna minna og þeirra kvenmanna sem ég umgengst. Svo miklar reyndar að ég hætti að tala við mömmu mína þegar hún varð gráhærð (það eru að verða komin fimm ár núna, en ég sakna þess ekki að umgangast hana, því hver vill eiga það á hættu að sjást með henni og láta það fréttast að maður eigi gráhærða og ljóta mömmu?). Ömmu  mína hef ég ekki séð í ein sautján ár (mér ofbuðu hrukkurnar), og það eru a.m.k. fimm vinkonur sem ég losaði mig við afþví þær voru of feitar fyrir minn félagsskap, ein fékk að róa afþví að hún fékk ítrekað frunsur og önnur afþví hún fékk leghálskrabbamein og missti allt hárið í lyfjameðferðinni.

Og ég get ekki þrætt fyrir það að stingandi augnaráðið sem greinarhöfundur hefur mætt, augnaráðið sem mældi hana út frá toppi til táar þegar hún var í sínu fínasta pússi og nokkuð ánægð með sjálfa sig hefur að öllum líkindum verið mitt.

En þið hljótið að skilja að ég hef orðspor að vernda. Ég er kyndilberi fegurðar, megrana og tísku á Íslandi og ég þarf að hegða mér í samræmi við það. Það þýðir að ég get ekki leyft ófríðu kvenfólki að valsa um í návist minni.

En þessar feitu og ófríðu mega gjarnan verða vinkonur kærasta míns, enda stendur mér engin ógn af þeim, einsog ég nefndi í þessari færslu (gefið að þær séu með BMI-stuðul yfir 30), og kærastinn hefur raunar verið nokkuð duglegur að hirða afskorningana úr vinahóp mínum, enda með eindæmum aumingjagóður (einsog vitgrannir eru oft á tíðum).

Ég játa því að ég er konum verst, enda er ég kona.

En mér til varnar vil ég benda á að það eru til margar konur sem eru miklu, miklu verri við konur en ég.

Því einsog þið vitið eflaust þá eru það að stærstum hluta konur sem nauðga öðrum konum (og nota jafnvel kerfisbundnar nauðganir sem vopn í stríðum sem þær heyja), beita konur kynferðisofbeldi, selja þær mansali, hlutgera og niðurlægja í klámmyndum og beita þær heimilisofbeldi svo árum skiptir.

Og af því, lesendur góðir, er ég enn saklaus.

xoxo
-h

áramóta-detox-drykkur Tískubloggsins

Hola lovers,

Nokkrir eldheitir aðdáendur Tískubloggsins hafa haft samband og sagt mér að þeir hafi fallið í freistni um jólin og ekki haldið sig við mataræðið sem ég mælti með, sem er náttúrulega fullkomlega óásættanlegt, en ég er skynsöm, fluggáfuð og yfirveguð mannvera, og ég veit að maður byrgir ekki brunninn eftir að barnið er fallið í hann. Neinei, þá þýðir ekkert annað en að setja á sig uppþvottahanskana, sækja prik með beittum króki á öðrum endanum og fiska krakkann uppúr.

Og þannig skuluð þið, sem skortir alla sjálfsstjórn og eruð með svarta samvisku (þið (og ég) vitið hver þið eruð), líta á þennan áramóta-detox-drykk sem uppþvottahanska sem þvær líkama ykkar af syndinni.

Áramóta-detox-drykkur Tískubloggsins

Innihald:

12 ml kalt vatn
11,5 ml hlandvolgt vatn
7,2 ml vatn við stofuhita
3 ferkantaðir ísmolar
4,7 g af skeljasandi
1,35 teskeið af kalkdufti
2 msk aspartam
3 msk grænn matarlitur

Aðferð:

Hellið kalda vatninu í blandara ásamt aspartami og matarlit og setjið kalkið útí og hrærið létt með pískara úr bronsi. Bætið hlandvolga vatninu og skeljasandinum samanvið og hrærið aðeins betur. Látið svo standa í 4 klst. á meðan þið leyfið blöndunni að jafna sig. Bætið þá vatninu við stofuhita við, ásamt ísmolum, blandið þangað til drykkurinn verður þykkur og mjúkur, berið fram í háu glasi, neytið og ég get lofað því að þið munuð bókstaflega finna líkamann hreinsast.

Ykkur er velkomið að setja svona grænt skraut á glasið einsog sést á meðfylgjandi mynd, en munið bara að þið megið ekki borða það, því samkvæmt megrunar- og lífstílsreglum Tískubloggsins er að sjálfsögðu allt sem er náttúrulega grænt harðbannað.

Ég mæli svo með því að þið takið ykkur litla stund í amstri dagsins og þakkið vísindunum í hljóði fyrir að hafa uppgötvað grænan gervimatarlit.

xoxo
-h

Monday, December 27, 2010

gúggl

Hola lovers,

Mér finnst alltaf gaman að sjá hvað fólk gúgglar til að lenda á síðunni minni, og mér datt í hug að ykkur þætti það gaman líka.

Ef ekki, skuluð þið endilega senda mér haturspóst.

xoxo
-h

Smellið til að stækka.

Sunday, December 26, 2010

átfitt dagsins, flutningar og kennitöluflakk

Hola lovers,

Hér kemur átfitt dagsins. Þetta verður síðasta átfittið úr núverandi húsnæði Tískubloggsins, því ritstjórnin hefur ákveðið að flytja sig um set. Frá og með næstu viku verða höfuðstöðvar Tískubloggsins því fluttar, og það gæti orðið einhver bið á átfittpóstum þartil ritstjórn hefur komið sér fyrir, og einnig er alls óvíst hvernig aðstæður til átfittmynda verða á nýjum og betri stað.

Það er ef til vill réttast að árétta að einhverjir hnökrar kunna að verða á flutningi tengingar við alnetið, og því skuluð þið ekki láta ykkur bregða mikið ef að það verður lítið um að vera á síðunni það sem lifir af þessu ári og fyrstu dagana á því nýja.

En ekki örvænta, aðdáendur góðir. Flestar breytingar eru til góðs, og það er gott að hrista uppí hlutunum af og til. Því hefur Tískubloggið ákveðið að nýta tækifærið og skipta um kennitölu um leið og húsnæði, enda er kennitöluflakk mjög í tísku þessa dagana.

En hér koma síðustu átfittmyndirnar í bili. Þið skuluð reyna að hunsa kassana og draslið sem óhjákvæmilega fylgir öllum flutningum.



Bolur: Keyptur í Bangkok.

Buxur: Keyptar á útsölu.

Sokkar: Jólagjöf frá tengdamóður.

Köttur: Á iði.

xoxo
-h

Monday, December 20, 2010

Tískubloggið kíkir í skápinn hjá xxxxxxxxx xxxxxxxxxxx

Hola lovers,

Þið munið eflaust öll eftir því þegar ég fékk að kíkja í skápinn hjá kynlífsbloggaranum og stórstjörnunni Fanneyju Mango. Það tókst með endemum vel og því ákvað ég að endurtaka leikinn og fékk að kíkja í skápinn hjá landsþekktum manni, honum  xxxxxxxxx xxxxxxxxxxx (en hann kaus að halda nafni sínu leyndu, í ljósi atburða þeirra sem hér á eftir fara).

Svona lítur týpískur hommi út skv. google.
Ég fór heim til hans vopnuð myndavél, tilbúin til að taka myndir af fallegum flíkum, bindum, sokkum, ermahnöppum og öðru skarti. En sú varð nú aldeilis ekki raunin, því hvað haldiði að hafi leynst í skápnum lovers?

Hommi!

Mér brá að sjálfsögðu töluvert, og honum  xxxxxxxxx xxxxxxxxxxx líka, enda hefur hann löngum verið talinn álitlegur piparsveinn og verið bendlaður við ýmsar íðilfagrar konur í gegnum tíðina. Skápahomminn harðneitaði að koma útúr skápnum, og hann vildi eðli málsins samkvæmt heldur ekki sitja fyrir á mynd.

Ég myndagúgglaði því homma á útlensku og læt fyrstu myndina sem birtist fylgja hér með.

Svona getur lífið komið manni á óvart lovers.

Og þegar maður opnar skáp þá veit maður aldrei hvað inní honum kann að leynast.

xoxo
-h

Sunday, December 19, 2010

átfitt dagsins


Bolur: Bangkok (sést ekki á mynd).

Peysa: Gefins.

Buxur: Gefins, girtar ofaní sokka.

Sokkar: Næstum því samstæðir.

xoxo
-h

Saturday, December 18, 2010

lesið á milli línanna

Hola lovers,

Það kennir ýmissa grasa á vefritinu Bleikt.is, en einsog ég nefndi hér í fyrri færslu þá eru greinakornin þar svo djúphugsuð og tyrfin að ég hef átt erfitt með að lesa mig í gegnum þau. Ég las grein sem heitir "Ég veit hvað þið eruð að hugsa" eftir Sævar Poetrix nú fyrr í vikunni, og þar er ekkert léttmeti á ferð. Ég hef verið að melta greinina í nokkra daga og mér varð ekki mikið ágengt, því höfundur virðist oft vera í mikilli mótsögn við sjálfan sig. Hann kemur með ýmsar fullyrðingar og neitar þeim svo í næstu andrá. Ég mátaði ýmis textafræðileg tæki við hana, einsog nýrýni, afbyggingu og freudískan lestur, en það var ekki fyrren ég prófaði díalektískan lestur í anda Hegels að merking greinarinnar varð mér ljós.

Í díalektík sinni reynir Hegel að skilja og útskýra hvernig hugmyndir (og jafnvel menning) þróast. Viðtekin venja eða tesa, er ríkjandi. Svo kemur fram gagnrýni á tesuna, sem er í beinni mótsögn við hana og kallast antitesa. Tesa og antitesa eru ósamrýmanlegar og af þeim sprettur einhver millivegur, eða niðurstaða, kölluð syntesa. Syntesa verður svo að viðtekinni venju, eða tesu, þangað til ný antitesa kemur fram, og ferlið endurtekur sig.

Skýringarmynd 1.

Sævar nýtir sér greinilega þessa hugmyndafræði Hegels og setur fram bæði tesur og antitesur, en það kemur í hlut lesandans að lesa á milli línanna og finna syntesuna.

Með Hegel að vopni gerði ég því aðra atlögu að grein Sævars og hér á eftir fer díalektískur lestur minn á henni.

Tesa: Konur eru með hlutfall á milli mjaðma og mittis sem hríðlækkar greindarvísitölu karla.
Antitesa: Konur vilja láta 25 ára svarta, myndarlega rappara refsa sér fyrir að vera óþekkar.
Syntesa: Á Íslandi eru fáir 25 ára svartir, myndarlegir rapparar með lága greindarvísitölu og því komast margar íslenskar konur upp með óþekkt án refsinga, sem getur varla verið þjóðhagslega hagkvæmt.

Tesa: Höfundur leggst ekki svo lágt að hlutgera konur með því að gefa þeim einkunn.
Antitesa: Höfundur gefur öllum konum sem hann hefur verið með einkunnina 8,5-10.
Syntesa: Höfundur uppgötvaði tilgang lífsins þegar fagrar konur gengu inní herbergi og brostu einsog þær væru ekki næstum því jafn dramatískar og þær í raun eru. Tilgangur lífsins sýnist mér vera að gefa konum einkunn byggða á líkamsvexti.

Tesa: Höfundur hefur einungis verið með konum sem fá einkunnina 8,5-10.
Antitesa: Höfundur hefur raunar verið með þremur konum sem myndu ekki fá einkunnina 8,5-10.
Syntesa: Höfundur er ekki hræddur við tilraunastarfsemi. Hann er óhræddur við að fara nýjar leiðir, og því hafinn yfir alhæfingar.

Tesa: Höfundi finnst konur sem eru yfir 55 kg að þyngd vera ofbeldi og sjónmengun. (Kemur raunar ekki fram í grein, en ég sá þetta haft eftir honum á öðrum vettvangi)
Antitesa: Höfundur elskar konur af öllum stærðum og gerðum fyrir það sem þær eru því hann er alinn upp ásamt fjórum systrum af öllum (fjórum) gerðum.
Syntesa: Konur sem eru yfir 55 kg geta farið í megrun.

Tesa: Þú þarft að semja ræðu fyrir augnablikið þegar að þú tekur á móti verðlaununum fyrir bestu frammistöðu í sjálfsvorkunn innanhúss á árshátíð kynsveltra, einmana og biturra einhleypinga.
Antitesa: Þú þarft ekki að kaupa klósettpappír næsta árið.
Syntesa: Verðlaunin fyrir bestu frammistöðuna í sjálfsvorkunn innanhúss á árshátíð kynsveltra, einmana og biturra einhleypinga eru ársbirgðir af klósettpappír.

Tesa: Það er ekki nógu mikið pláss á internetinu.
Antitesa: Afmæli stúlkna eru fuglabjörg.
Syntesa: Það er ekki pláss fyrir fuglabjörg á internetinu.

Tesa: Konur fá kosningarétt.
Antitesa: Gufusoðinn kúrbítur er borinn fram á jólunum.
Syntesa: Bókin He´s Just Not That Into You kemur út.

Tesa: Sannleikurinn liggur sjálfdauður í vegakanti.
Antitesa: Það er fátækt í heiminum.
Syntesa: Einhver með algjöran skort á hæfileikum þarf að skammast sín.

Tesa: Þennan með algjöran skort á hæfileikum vantar aukapening.
Antitesa: Þú munt klúðra málunum næst.
Syntesa: Babysteps, my  love, babysteps.

Verði ykkur að góðu.

xoxo
-h

Tuesday, December 14, 2010

beikonsushi fyrir byrjendur (og lengra komna)

Hola lovers,

Einsog allir með snefil af tískuviti þekkja, þá er fjúsjon-matargerð heitasta heitt.

Aðdáandi Tískubloggsins sendi mér rétt í þessu dásamlegt myndband sem kennir manni m.a. hvernig er hægt að gera hrísgrjónalaust beikonsushi. Það kalla ég sko fjúsjon í lagi.

Þetta er miklu, miklu meira töff en úldinn fiskur og sojasósa.



xoxo
-h

konur, hamingjusamir menn og falleg heimili

Hola lovers,

Einsog þið eflaust vitið er komin nýr vefur í loftið sem þjónar hagsmunum og áhugasviði ykkar, nefnilega Bleikt.is - Vefur fyrir drottningar. (Þið munið kannski að ég stakk raunar uppá því við ritstjórann að hún nefndi vefinn frekar beislitað.is eða gratt.is, til að koma í veg fyrir að hann yrði bendlaður við kvenrembu (feminísma), en því miður tók hún þær ábendingar mínar ekki til greina, og ég efa ekki að vefurinn væri mun farsælli ef hún hefði gert það. En það þýðir ekki að gráta það, þarsem þetta er hennar missir, ekki minn, þó mér þyki þetta að sjálfsögu miður, aðdáendur kærir.)

Það er þó nokkuð mikið af efni inni á þessum vef og ég verð að játa að ég hef ekki getað kynnt mér það allt til hlítar, þar sem ég á svolítið erfitt með að lesa svona bleika heimasíðu (hugrenningatengslin við kvenremburnar, þið vitið) og að auki eru þau greinarkorn sem ég hef rekist á þarna svo meitluð, hárbeitt og þungmelt að ég á hreinlega í erfiðleikum með að krafsa mig í gegnum þau.

En þó eru tvær greinar sem ég las og líkaði vel.

Önnur þeirra er eftir hana Hlín mína og heitir „6 ráð handa þreyttum, útivinnandi konum“ og hin er viðtal við kvennaljómann Svein Andra.

Í báðum greinum er tæpt á konum og skyldu þeirra við heimilið og heimilisstörfin.

Hlín kemur með góðar ráðleggingar til giftra, útivinnandi mæðra, og bendir réttilega á að flestar þeirra eigi í erfiðleikum með að halda fullkomið heimili og vinna úti. Hún biður konur að gleyma ekki hvers vegna þær eru á annað borð útivinnandi:
„Rannsóknir sýna að konur fara til vinnu af sömu ástæðum og menn. Það snýst ekki bara um fjárhagslegt sjálfstæði eða að nauðsynlegt er að vera í launaðri vinnu til þess að geta sett mat á borðið. Konur fara til vinnu til þess að vera persónulega fullnægðar, það að vinna veldur því að þær finna til sjálfstæðis, auk þess sem það gefur þeim ákveðna stöðu í samfélaginu og tækifæri til þess að umgangast annað fólk. Konur finna tilgang, áskoranir og möguleika í að þróa starfsferill sinn veldur því að þeim líður vel með sjálfar sig.“

Hún nefnir einnig að flestar þeirra hafi óskað þess að eiga „eiginkonu, eða töfrabarnfóstru sem myndi taka til, ganga frá þvottinum, fá börnin til þess að hætta að rífast, versla í matinn, borga reikningana og undirbúa kvöldmat, allt án þess að blása úr nös.“
Og ég verð að viðurkenna að ég hef oft horft á kærastann og óhreyft uppvaskið í vaskinum og óskað þess að fjölkvæni væri löglegt á Íslandi, því þá væri líf mitt mikið auðveldara og skemmtilegra og ég gæti annaðhvort einbeitt mér að vinnunni eða þrifum.

Því gleður það mig að sjónarmið mitt og Pjattrófanna um að karlmönnum sé einfaldega ekki eðlislægt að þrífa, þvo þvott, elda matinn og sjá um börnin, fái nú frekari hljómgrunn á einni af vinsælustu síðum landsins, og rennir þessi pistill Hlínar enn frekari stoðum undir þá kenningu mína að allar mæður séu í raun einstæðar, því þegar kemur að því að halda heimili og ala upp börn eru karlmenn sannarlega verri en enginn. Ef skoðanir okkar hljóta nægilegan hljómgrunn, þá hlýtur það að vera tímaspursmál hvenær stjórnvöld átta sig á því að það er heillavænlegast fyrir alla að leyfa fjölkvæni hér á landi. Það yrðu allir hamingjusamari, og heimili landans hreinni.

Það er mikilvægt að halda heimili og hafa það fallegt og einsog Hlín segir: „Við vitum allar að dagur (sic) húsmóður er aldrei lokið“. Hlín biður konur þó að setja sig í spor eiginmanna sinna og gleyma ekki að sinna þeim, þó heimilisamstrið kalli, því „bæði börnin þín og maður myndu taka hamingjusama mömmu í óskipulögðu heimili fram yfir óánægða mömmu í heimili sem gæti ekki verið fullkomnara.“

Sveinn Andri tekur í sama streng og biður þrifa- og puntóðar konur vinsamlegast um að taka tillit til karlmanna. Hann segir: „Margt í fari kvenna getur verið bæði kostur og ókostur. Auðvitað er það kostur hversu umhugað þeim er að hafa heimilið fínt og börnin vel til höfð, en að sama skapi er það ókostur að þurfa alltaf að vera að blanda karlmanninum inn í þetta.“

Þannig að kæru konur, vinsamlegast sýnið mönnum ykkar þá tillitsemi að halda heimilinu hreinu án þess að vera alltaf að þrífa. Eða, ef þið ráðið hreinlega ekki við þrifnaðarþörfina þá skuluð þið sýna þeim þá lágmarkskurteisi að standa ekki í því þegar þeir sjá til. Þið getið gert það á nóttunni eða þegar karlmaðurinn bregður sér af bæ til að gera einhverja merkilegri hluti.

Að auki ættu allar konur/kærustur með sjálfsvirðingu að fara reglulega naktar með bjór og samloku til manna sinna til að tilkynna að leikurinn í enska boltanum sé byrjaður og spyrja þá hvað þá langar að gera í leikhléi.

Sveinn Andri veit hvað hann syngur. Það er engin tilviljun að hann er ógiftur og eftirsóttasti piparsveinn landsins.

xoxo
-h

Sunday, December 12, 2010

inspirational kvót dagsins

„Ef ég er með varalitinn allann daginn þarf ég að bæta á hann um það bil einu sinni. Góð ending að mínu mati en það er þá háð þeim skilyrðum að þú fáir þér ekki að borða á meðan.“

-Pjattrófa

xoxo
-h

átfitt dagsins


Bolur: Útlönd.

Buxur: Af kærasta.

Sokkar: Útlönd.

Hár: Safnaði því sjálf.

xoxo
-h

Saturday, December 11, 2010

beikoninspiration dagsins í boði eldheitra aðdáenda Tískubloggsins

Hola lovers,

Ég vil byrja á því að þakka ykkur kærlega stuðninginn við Tískubloggið á þessum erfiðu tímum. Aðdáendur mínir eru traustir og tryggir og duglegir að lesa bloggið, sem eykur einmitt til muna líkurnar á því að ég geti selt hér auglýsingar og grætt peninga, fengið sent frítt drasl og verið boðið á hundatískusýningar í New York, París og Mílanó.

En aðdáendur Tískubloggsins eru ekki bara duglegir að heimsækja síðuna, heldur eru þeir einnig duglegir að benda mér á sniðugar útfærslur af beikontengdum hlutum. Það yljar mér um hjartarætur og ég vil að allir lesendur fái að njóta þessa. Ég hef því tekið ábendingarnar saman og birti hér.

Takk fyrir allt.

Njótið.











xoxo
-h

átfitt dagsins


Bolur: Keyptur á útsölu í Smáralind.

Buxur: Keyptar á útsölu.

Peysa: Keyptar á útsölu.

Sokkar: H&M í útlöndum.

xoxo
-h

Thursday, December 9, 2010

sjóðheitar Pin-up stelpur sýna allt

Hola lovers,

Einsog allir alvöru tískuunnendur, þá elska ég Pin-up stílinn.

Og það er óhætt að segja að dömurnar á þessum myndum skilji lítið eftir handa ímyndunaraflinu.

Njótið!












xoxo
-h