Tuesday, November 30, 2010

harðlega vegið að Tískublogginu

Hola lovers,

Það hafa illir andar blásið um Tískubloggið undanfarið.
Sérstaklega hefur einn einstaklingur ráðist gegn Tískublogginu af þvílíku offorsi, að ég verð að játa að mér flaug í hug að leggja upp laupana, bugta mig fyrir mótlætinu og hætta að blogga.

Því þessi einstaklingur virðist hafa það eina markmið að níða af mér skóinn og snúa lesendum mínum gegn mér. Ummæli hennar eru ekki eftir hafandi og því hlífi ég ykkur við að lesa þau, aðdáendur kærir.

Þessi rætni einstaklingur segist heita Hildur Knútsdóttir, og hún hefur undanfarið birst í tveimur fjölmiðlum og lýst því yfir að hún standi á bakvið Tískubloggið. Þetta eru náttúrulega fáránlegar og upplognar fréttir, því einsog þið vitið vel þá er það ég, h, sem hér skrifa.

Mér brá eðlilega töluvert þegar ég sá fréttirnar, en sem betur fer slógu vinkonur mínar á Pjattrófunum um mig skjaldborg og létu Hildi heyra það. Æðsta Pjattrófan (sem viðurkenndi nýverið aðdáun sína á mér og kallaði mig meira að segja krúsípúsí, sælla minninga) tileinkaði henni meira að segja heila færslu á sínu prívat bloggi, þar sem hún setti ofaní við hana af rökfestu og yfirvegun svo mannorð þessa pósers er nú rústir einar. Því má með sanni segja að Æðsta Pjattrófan hafi sýnt Hildi (og mömmu hennar) hvar Davíð keypti ölið.

Ég vil því nota tækifærið og þakka Pjattrófunni innilega fyrir færsluna. Það er sannarlega ómetanlegt að hún hafi tekið upp hanskann fyrir mig á þessum umbrotsömu tímum í lífi mínu þegar svo hart er að mér vegið úr óvæntri átt.

En einsog ég hef áður nefnt þá lærði ég á sjálfstyrkingarnámskeiði að maður á aldrei að taka árásum þegjandi, og því ákvað ég að hafa uppá þessari „Hildi“ og senda henni línu.

Frá: tiskublogg@gmail.com

Til: hildurk@gmail.com

Titill: Þú ert póser

Dagsetning: 30. nóvember 2010 12:58

Sæl „Hildur“ (ef það er í raun þitt rétta nafn).

Ég skrifa þér vegna þess að þú hefur ítrekað brotið gróflega gegn mér og Tískubloggi mínu. Ætli það sé tilviljun að um leið og ég er búin að finna (nær) gulltryggða leið til að lauma auglýsingum að lesendum mínum og eygi loks langþráðan möguleika á því að hagnast á síðunni, þá stígur þú fram og reynir að eigna þér heiðurinn af bloggi mínu? Það er greinilegt að það eina sem vakir fyrir þér er að sölsa undir þig þær ómældu auglýsingatekjur sem ég mun hafa af síðunni í framtíðinni.

En ég skal sko segja þér að það mun ekki takast, því það sjá allir í gegnum þig.

Það sér hver sem vill að við erum nákvæmlega ekkert líkar. Ég er miklu hávaxnari og mjórri en þú, og ég er líka með miklu stærri brjóst og með miklu síðara hár, sem auk þess glansar meira. Aukinheldur hefur þú ömurlegan fatasmekk og ég myndi ekki einusinni láta leggja mig til hinstu hvílu í þessu lörfum sem þú klæðist.

Ef þú hyggst ná miklum frama í bloggheimum líkt og ég, þá ráðlegg ég þér að vinna fyrir honum sjálf.

Virðingarfyllst,

-h

Sönnunargagn 1. Smellið til að stækka.

Og það stóð ekki á svari frá glæpakvendinu.

Frá: hildurk@gmail.com

Til: tiskublogg@gmail.com

Titill: Re: Þú ert póser

Dagsetning: 30. nóvember 2010 15:31

Éttann sjálfur, asshól.

Sönnunargagn 2. Smellið til að stækka.

Ég held, aðdáendur kærir, að við getum öll verið sammála um að þetta er ekki svaravert.

xoxo
-h

Sunday, November 28, 2010

Tískubloggið kíkir í fataskápinn hjá kynlífsbloggaranum og stórstjörnunni Fanneyju Mango

Hola lovers,

Einsog sjóaðir lesendur tískublogga vita er í tísku að fá að kíkja í fataskápinn hjá hinni og þessari tískudrósinni. Tískubloggið vill að sjálfsögðu ekki vera eftirbátur annarra (og verri) tískublogga og því fékk Tískubloggið, eftir töluverðar fortölur þó, að kíkja í fataskápinn hjá kynlífsbloggaranum alræmda Fanneyju Mango. En hún heldur úti hispurslausri síðu: fanneymango.blogspot.com og hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir skrif sín.

Við gefum Fanneyju orðið.

***

Hæ, dúfurnar mínar.

H vildi endilega að ég myndi sýna ykkur inn í fataskápinn minn, enda margt merkilegt þar að sjá, en ég hafði mínar efasemdir um það. Ástæðan er sú að ég vil alls ekki að mitt raunverulega nafn (eða andlit) verði birt á netinu. Það er vegna þess að ýmislegt sem ég skrifa um gæti sært blygðunarkenndir vina eða fjölskyldu minnar. (Ókosturinn er samt sá að fjölskyldumeðlimir gætu lesið bloggið mitt og heillast af mér. Það kom einmitt fyrir frænda minn sem sendi mér nokkuð ósiðsamlega mynd um daginn). En það liggur meira fyrir. Ég er nefnilega ekki aðeins þjóðþekktur einstaklingur heldur er ég þekkt á heimsvísu! En, eftir nokkura umhugsun ákvað ég að sverta fyrir andlit mitt og leyfa h að kíkja í skápinn minn. Hér kemur það:

Hér er árituð mynd af mér og samstarfsfélaga mínum. Hún er líka algjör skvísa. Undirfötin eru keypt í La Senza og butt-beadsin í Rómantík.is.

Þessi mynd er nokkuð kasjúal og fellur vel inn í Tískubloggið. Ég saumaði þetta sjálf, brækurnar úr bol og bolinn úr brókum (fékk einn stóran næturgest til mín eina nóttina sem gleymdi nærbuxunum sínum, win/win).

Ég á japanska vinkonu sem gerði þennan oregamibol. Ég nota hann mikið á djamminu.

Bolur úr ekta samkynhneigðum sebrahesti.

Langalangalangaafi minn átti þennan fína hirðskáldabúning. Ég fer stundum í hann þegar mér líður illa, hressist öll við!

Neglurnar málaði ég alveg sjálf! En sokkabuxurnar ófu blindar kaþólskar nunnur í Sádi-Arabíu.

Rokkfest 2009. Ég, megahörð á því. Jakkinn er úr leðri en stígvélin úr latexi. Ég var að reyna að koma brækur-utan-yfir tískunni í gang en það hefur enn ekki gengið hjá mér.

Þetta föndraði ég fyrir Hrekkjavökuna 2008. Ég var slutty-predator.

Þennan gerði japanska vinkona mín eftir að hún byrjaði að nota spítt. Ég mæli ekki með því, átti enga skó sem pössuðu við.

Nágranni minn var að útskrifast úr hönnun og gerði svona fín föt fyrir mig og litla voffann minn. Hann elskar að vera í þessu.

Ég mátaði þetta sérstaklega fyrir Tískubloggið. Þetta verða jólafötin í ár. Keypt í Blómavali.

Það eru engin jól án vajazzle. Fór kannski yfir strikið, en engu að síður mjög fallegt.

Vonandi hef ég náð að fela andlit mitt nógu vel, en ef ekki vil ég biðja ykkur kæru lesendur um að halda þessu litla leyndarmáli út af fyrir ykkur.

Gangi ykkur annars vel að snyrta ykkur og klæða fyrir jólin!

Ást og kynlíf,
Fanney Mango

átfitt dagsins


Peysa: Keypt á útsölu.

Buxur: Af kærasta.

Nærsokkar: Hagkaup.

Utanyfirsokkar: Fengust gefins.

xoxo
-h

Saturday, November 27, 2010

átfitt dagsins

Hola lovers,

Hér er átfitt dagsins.



Ullarpeysa: Af kærasta.

Sokkabuxur: Keyptar á útsölu.

Ullarsokkar: Ósamstæðir. Af kærasta.

xoxo
-h

Thursday, November 25, 2010

Pjattrófurnar elska Tískubloggið!

Hola lovers,

Nú held ég það sé liðin alveg heil vika síðan Pjattrófurnar afblokkuðu mig í athugasemdakerfinu sínu.

Ég er svo ánægð með að geta lagt mitt lóð á vogarskálarnar í þeim líflegu umræðum sem þar myndast iðulega um fegurð, tísku og megranir, því ég er bara svo ógeðslega sammála þeim, þrátt fyrir að þær hafi ekki virt mig viðlits fram að þessu (fyrir utan Önnu Margréti, sem er uppáhaldspjattrófan mín!).

En ég get hreinlega ekki annað en lýst yfir einskærri ánægju minni með þessa færslu, en ég nýtti mér einmitt nýfenginn kommentarétt minn á hana, og hvað haldiði? Aðalpjattrófan sjálf kallaði mig "litla tískubloggkonu" og "krúsípúsí"!

Ég held þetta sé sönn ást! :*

xoxo
-h

þegar gæludýrafóður bjargaði jólunum, og mér

Hola lovers,

Var ég nokkuð búin að segja ykkur frá því þegar ég næstum dó?

Nei? Ókei.

Þannig var að á Þorláksmessu fyrir fjórum árum var ég í matvörubúð að kaupa gæludýrafóður handa köttunum mínum. Ég hafði lokið jólainnkaupunum fyrir sjálfa mig deginum áður, en gleymt að kaupa eitthvað handa þessum elskum þannig að ég skrapp útí búð. Klukkan var að ganga níu og það var aldimmt úti en bjart inni í búðinni svo að ég sá spegilmynd mína greinilega í hurðinni þegar ég var í þann mund að ganga út.

Og sjónin sem blasti við mér var ekki falleg. Ég var kinnfiskasogin, með bauga undir augun, skítugt hár og krítarhvít í framan.

Ég vissi strax að ég yrði að skella mér í ljós, það væri sjálfsögð kurteisi við samferðarfólk mitt, því ekki gat ég boðið þeim uppá að hafa mig svona fyrir augunum. Svo eru ljós líka svo holl og góð fyrir húðina, hárið og augun. Maður verður strax frísklegri og geislarnir hafa í raun yngjandi áhrif og eyða hrukkum (ólíkt náttúrulegu (og lélegra) sólarljósi sem er einsog allir vita ótrúlega hrukkuvaldandi).

En sólbaðsstofan sem ég átti ljósakort í lokaði hálftíu. Ég ákvað þó í örvæntingu minni að bruna þangað, og jesúbarnið var greinilega með mér í anda því ég renndi í hlað rétt í tæka tíð og fékk tvöfaldan ljósatíma. Ég lagði innkaupin frá mér í eitt hornið á básnum, afklæddi mig, lagðist í ljósabekkinn og stakk æpodinum í eyrun.

Einsog þið vitið eflaust flest eru dagarnir fyrir jól afar stressandi tími. Ég hafði verið einsog útspýtt hundskinn dagana áður að klára jólainnkaupin og gera jólahreingerninguna sómasamlega (til að móðga ekki guð), þannig að það þarf engan að undra að ég sofnaði í bekknum. Ég veit ekki hvað það leið langur tími þangað til að ég vaknaði, en þegar ég opnaði augun voru öll ljós slökkt. Mér var ískalt og ég fann ekki fötin mín í myrkrinu, svo ég sveipaði mig handklæði og tiplaði á tánum fram á gang.
-Halló! kallaði ég, en fékk ekkert svar nema mitt eigið bergmál. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds og ég fikraði mig áfram eftir ganginum þangað til fingur mínir fundu ljósrofa.

Birtan skar mig í augun og staðfesti um leið grun minn; Allir starfsmennirnir voru farnir heim og ég var ein eftir á sólbaðsstofunni.

Ég hljóp inní básinn minn, fann töskuna mína og reif upp símann. Hann var batteríslaus. Ég klæddi mig fumandi höndum, hirti ekki einusinni um að þurrka af mér storknaðann svitann og hljóp aftur fram.

Útidyrahurðin var læst. Gangurinn fyrir utan hana var myrkur.

Hendur mínar titruðu þegar ég tók upp símann í afgreiðslunni og lagði tólið við eyrað, en það kom enginn sónn. Ég var komin með stóran hnút í magann þegar ég settist við skrifborðið og ræsti tölvuna. Hún malaði góða stund áður en mynd kom á skjáinn og bað mig um aðgangsorð.

Ég vissi ekki aðgangsorðið.

Þar sem ég var fastakúnni á sólbaðsstofunni hafði ég lagt opnunartíma þeirra um hátíðarnar á minnið og ég vissi að þeir opnuðu ekki aftur fyrren 26. desember, eftir þrjá heila daga. Ég hafði ekki sagt neinum frá því að ég ætlaði í ljós og því vissi enginn var ég var niðurkomin.

Og ég var ekki með neitt að borða, nema gæludýrafóðrið sem ég hafði keypt handa köttunum mínum.

Ég eyddi því jólunum á ljósastofunni, ein og yfirgefin og nærðist eingöngu á gæludýrafóðrinu og svolitlu af Aloe Vera After Sun áburði. Það voru engin teppi á allri stofunni, og því kveikti ég á ljósbekknum á næturna til að halda á mér hita. Ég vissi að ég þyrfti að híma þarna í þrjá daga og þarsem ég er jákvæð manneskja sem reynir ávallt að líta á björtu hliðarnar ákvað ég að nota tímann í eitthvað uppbyggilegt frekar en að sitja ein úti í horni, barma mér og gráta. Ég hóf því að þjálfa líkamann og hugleiða.

Sem betur fer er gæludýrafóður einstaklega næringarríkt og hollt, og ég held að vistin hafi gert mér gott. Eiginlega var þetta einsog detox-meðferð, nema miklu ódýrara. Ég slapp við allt jólasukkið, ræktaði bæði líkama og sál, fann mitt Nirvāna og hárið á mér lýstist meira að segja í ljósabekknum.

Ég missti raunar af jólunum en þegar starfsfólkið kom loksins og bjargaði mér úr prísundinni þá leit ég svona út:

Eftir þetta hef ég alltaf borðað gæludýrafóður á jólunum. Eiginlega er gæludýrafóður uppáhaldsmaturinn minn.


xoxo
-h

Tuesday, November 23, 2010

svona græðir Tískubloggið peninga!

Hola lovers,

Þið vitið eflaust flest að Tobba Marínós var ein helsta fyrirmynd mín í lífinu og bloggið hennar var raunar ein af ástæðum þess að ég stofnaði mitt eigið. En eftir að ég komst að því að hún var að reyna að bregða fyrir Tískubloggið fæti þá hætti hún að vera ædolið mitt.

En þó ég fegin vildi hætta að lesa bloggið hennar geri ég það ekki, því það er mikilvægt að fylgjast með samkeppnisaðilum sínum og stela góðum hugmyndum frá þeim þegar maður getur.

Einsog alþjóð veit þá sagði Tobba starfi sínu á Séð & heyrt nýverið lausu og hefur hafið störf sem kynningarfulltrúi Skjás eins. Bloggið hennar endurspeglar þessa flutninga hennar í starfi því hún hefur hafið lúmska auglýsingaherferð á blogginu þarsem hún kynnir dagskrá vetrarins. Sem dæmi mætti nefna þessar færslur hér og hér.

Þó hún sé ekki lengur fyrirmynd mín í lífinu verð ég að játa að mér finnst þetta býsna góð hugmynd hjá henni. Ég er alltaf að leita leiða til að koma auglýsingum að á bloggi mínu svo ég geti loksins farið að græða peninga á þessum skrifum, og ég held að hér séu miklir möguleikar.

Ég bar þetta undir styrktaraðila síðunnar og honum leist prýðilega á hugmynd mína og samþykkti að borga mér með gæludýrafóðri að andvirði sautjánhundruð króna ef mér tækist að lauma auglýsingu að lesendum mínum án þess að þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir væru í raun að lesa auglýsingu.

Þar sem ég hef ekki reynt svo hárfín kænskubrögð í skrifum mínum áður ákvað ég að gefa styrktaraðila síðunnar afslátt, eða tvenn skrif fyrir ein.

Verði ykkur að góðu.

***
Nammi namm!

#1

Jahérna hér lovers! 

Þetta er ótrúlegt gæludýrafóður sem ég rakst á nýverið. Það er svo bragðmikið, stökkt og bráðnar í munni. 

Það er einsog humar fyrir ferfætlinga!

(Nema þeim finnst humar betri)

#2

Lovers,

Ég hef verið veik fyrir gæludýrafóðri síðan ég bjó í Stavanger og uppgötvaði hvursu dásamlegt það er í raun. Það er bragðmikið og ljúffengt án þess að þykjast vera eitthvað, svona svolítið einsog heimilisleg (og ódýr) kæfa. 

Þar sem ég er byrjuð að herða sultarólina fyrir jólin þá finnst mér óútskýranlega gott að kaupa gæludýrafóður. Það er einfaldlega miklu ódýrara en mannafæði og svo er það einstaklega umhverfisvænt líka, því í gæludýrafóðrinu er úrgangur dýraafurða sem annars yrði hent.

Verum góð við umhverfið og pyngjuna!

Borðum gæludýrafóður.

...jiiii hvernig ætli það sé?

***

xoxo
-h

Monday, November 22, 2010

ég get ekki beðið!

Hola lovers,

Ég er loksins, eftir mikið internetráp, búin að velja mér áramótaskó! Pantaði þá áðan og ég get ekki beðið eftir að fá þá!

Einsog þið sjáið eru þeir inspíreraðir af Alien, einu helsta meistarverki síðari kynslóða (þó persónulega sé ég hrifnari af Predator).


Eru þeir fab eða eru þeir fab?

En yfir í aðra sálma. Ég hef fengið þónokkra pósta eftir að ég birti myndina af átfitti gærdagsins og frekar en að svara hverjum fyrir sig þá ákvað ég að svara þeim bara hér á blogginu, því þeir báru allir meira og minna upp sömu spurninguna.

Já, ég ætla í brjóstastækkun.

Um leið og ég er farin að hafa tekjur af þessu Tískubloggi þá skelli ég mér undir hnífinn. Ég get bara ekki alveg ákveðið hvaða stærð ég á að fá mér.

En meira um það síðar.

xoxo
-h

Sunday, November 21, 2010

átfitt dagsins


Rauður latexsamfestingur: Af kærasta.

Hanskar: Gefins.

Sokkar: Engir.

xoxo
-h

hollir og ótrúlega megrandi hafraklattar - uppskrift

Hola lovers,

Ég er á póstlistanum hjá honum Dr. Peter D´Adamo og nýverið fékk ég þessa frábæru uppskrift að hafraklöttum. Hún er fljótleg og bragðgóð og hráefnið ódýrt, og svo er hún líka einstaklega kaloríusnauð. Ég hef verið að borða svona í a.m.k. þrjú mál á degi hverjum undanfarið og ég er búin að léttast um næstum því tvö kíló.

Hollir og ótrúlega megrandi hafraklattar Dr. Peter D´Adamo:

Hafraklattar:
3 bollar af erfðabreyttu haframjöli
0,5 teskeið kartöflumjöl
0,2 g af salti
2 og 1/5 rúsína, fínt saxaðar

Dressing:
7 ml léttmjólk
7 ml undanrenna
15 ml vatn

Aðferð:

Bleytið vel í haframjölinu og látið standa í ísskáp yfir nótt. Þerrið síðan og setjið í pott, bætið salti útí og sjóðið í 3 klst. Saxið rúsínur og blandið saman við ásamt kartöflumjöli. Hnoðið hráefnið í klatta og steikið uppúr vatni í 20 mín.

Ég mæli með að þið berið þá fram með dressingunni, en hvað sem þið gerið skuluð þið ekki nota smjör (nema það sé beikonsmjör).

xoxo
-h

Saturday, November 20, 2010

átfitt dagsins

Hola lovers,

Ég átti við tæknilega örðugleika að stríða þegar ég var að reyna að taka myndir. Fatlaði kötturinn er að færa sig uppá skaftið.

Bolur: Ég er búin að eiga hann svo lengi að ég man ekki hvar ég fékk hann.

Leggings: Of stórar, og ég hata þær.

Sokkar: Semí samstæðir.

Köttur: Tískumeðvitaður. Ég held hreinlega að það sé bara tímaspursmál hvenær hann fer að heimta sitt eigið tískublogg.











xoxo
-h

Thursday, November 18, 2010

Öppdeit!

Ég held að Pjattrófurnar séu búnar að afblokka mig!

xoxo
-h

spurðu Tískubloggið ráða!

Hola lovers,

Eigið þið við erfiðleika að stríða? Vantar ykkur ráðleggingar?

Þarsem neyðin er stærst er hjálp Tískubloggsins næst!

Hérna getið þið spurt Tískubloggið að hverju sem er.

xoxo
-h

þá er þetta komið á hreint, þakka ykkur fyrir

Hola lovers,

Mikið var ég ánægð að lesa þessa grein, því hún rennir enn frekari stoðum undir þá kenningu sem ég hef lengi haft um vináttusambönd temmilega aðlaðandi gagnkynhneigðra karla og kvenna; Þau eru ekki til!

Aldrei í veraldarsögunni hafa karl og kona geta verið vinir, nema annað (eða helst bæði) séu feit, náskyld, samkynhneigð eða eigi við einhverskonar fötlun að stríða. Greinarhöfundur vitnar í ekki ómerkara fólk en sálfræðinga- og geðlæknastéttirnar einsog þær leggja sig, og svo veitir hún hugsanlegum andmælendum sínum náðarhöggið með því að vitna í Sex and the City, biblíu okkar og komandi kynslóða.

En ástæðan fyrir því að karlar og konur geta ekki verið vinir eru einfaldlega sú að „strákurinn verður frústreraður yfir því að ná aldrei lengra, þora aldrei að segja neitt og þess vegna getið þið ekki verið “vinir” lengur.“

Greinarhöfundur bendir réttilega á að einu mögulegu afsakanirnar fyrir því að eiga vin af gagnstæðu kyni sé ef téður vinur er „ættingi, samkynhneigður eða með 50 aukakíló“. Ég myndi þó persónulega bæta „fötlun“ við listann.

En greinin útlistar annars af miklu listfengi ástæðuna fyrir því að ég hef alltaf krafist þess að þyngdar- og hæðarmæla persónulega allt kvenfólk sem kærastinn umgengst, og ef þær fá lægri BMI-stuðul en 30, þá set ég blátt bann við því að hann umgangist þær. Ef þær aftur á móti standast þyngdarkröfur mínar þá fletti ég þeim og kærastanum upp í Íslendingabók og geng úr skugga  um að þær séu skyldar honum í a.m.k. 4. ættlið. Auk þess bið ég þær að leggja fram nýlegt örorkumat sem sýnir að þær séu 30% öryrkjar hið minnsta.

Hið sama gildir um vinnufélaga af gagnstæðu kyni. Karlar og konur geta einfaldlega ekki unnið saman með góðu móti, nema þau stundi saman kynlíf í hjáverkum. Þið sjáið hvernig fór fyrir ABBA, um leið og þau urðu bara „vinir“.

Ykkur er  heillavænlegast að hafa þetta í huga, lesendur kærir, í lífsins ólgusjó.

xoxo
-h