Tuesday, May 31, 2011

litið um öxl/opið bréf til framleiðenda og sjónvarpsstöðvaeigenda*

Hola lovers,

Þið trúið því kannski ekki, en eftir tæpa tvo mánuði verður liðið ár síðan ég stofnaði Tískubloggið.

Ég setti mér nokkur hógvær markmið í upphafi, og ég get með stolti sagt að ég hafi náð flestum þeirra.

Þau voru:
 1. Verða besta tískublogg á Íslandi.
 2. Taka sæti á stjórnlagaþingi og koma koma tísku inn í íslenska stjórnarskrá.
 3. Verða besta megrunar- og lífstílssíða á vesturhveli jarðar.
 4. Verða ritstjóri eins af stærstu vefmiðlum á Íslandi.
 5. Fá ógeðslega mikið af auglýsingatekjum af síðunni og verða rík.
 6. Fá Pjattrófu til að viðurkenna yfirburði mína.
 7. Fá útgáfusamning.
 8. Fá boð á hundatískusýningar í New York.
 9. Fá senda kórónu frá SÍT (Sambandi íslenskra tískubloggara).
 10. Verða mér úti um styrktaraðila á síðunni og fá sent ókeypis gæludýrafóður.
 11. Eignast 1.000 aðdáendur á Facebook.
 12. Verða vinsælasta íslenska heimasíðan.
 13. Verða sameiningartákn allra íslenskra kvenna.
 14. Fá minn eigin sjónvarpsþátt.
 15. Eignast flott lógó.
 16. Skilgreina óendanleika á mannamáli, fyrst allra.
 17. Miðla af viskubrunni mínum.
 18. Koma kvenþjóðinni til bjargar.
Eins og þið sjáið hafa flest þeirra ræst.

Því miður er orðið um seinan að ná kjöri á stjórnlagaþing, en markmiðið að ná 1.000 aðdáendum á Facebook er innan seilingar og raunar mjög raunhæft að ég nái því fyrir júlí. Mig vantar bara 60 aðdáendur til að ná uppí þúsund og þið sem eruð ekki orðin aðdáendur skuluð skammast ykkar og ýta síðan hér og bæta snarlega úr því (og þá fyrirgef ég ykkur þetta kannski). Einnig er ég afar vongóð um að vera boðið á hundatískusýningu bráðlega og hef verið í sambandi við þónokkra áhrifamikla aðila í þeim geira undanfarna mánuði og nokkrir af þessum aðilum hafa lýst yfir áhuga á því að kaupa hjá mér auglýsingar fyrir afar háar fjárhæðir.

Eftir stendur einungis eitt markmið: Að fá minn eigin sjónvarpsþátt.

Það er hreint út sagt til skammar að framleiðendur og sjónvarpsstöðvar hafi ekki ennþá séð sóma sinn í því að hafa samband við mig og bjóða mér frjálsar hendur, ótakmarkað fjármagn og besta sýningartímann. Ég stend nær ráðþrota gagnvart þessu vandamáli og sé sannast sagna ekki annað í stöðunni en að skrifa þeim opið bréf og birta hér á síðunni.


OPIÐ BRÉF TÍSKUBLOGGSINS TIL FRAMLEIÐENDA OG SJÓNVARPSSTÖÐVAEIGENDA.

Kæru framleiðendur og sjónvarpsstöðvaeigendur,

Hvað haldið þið eiginlega að þið séuð? Vitið þið ekki hver ég er? Vitið þið ekki af hverju þið eruð að missa? Viljið þið ekki vera með hágæðasjónvarpsefni á besta tíma á sjónvarpsstöðvum ykkar? Viljið þið ekki velja íslenskt?

Nú hafið þið haft u.þ.b. tíu mánuði til að hafa samband við mig.

En hafið þið látið í ykkur heyra? Nei.

Hafið þið haft samband? Nei.
Hafið þið hringt í mig? Nei.

Hafið þið sent mér póst? Nei.

Hafið þið kommentað á bloggið? Nei.
Hafið þið pókað mig á Facebook? Nei.
Eruð þið aðdáendur mínir á Facebook? Nei.

Hafið þið viðskiptavit? Nei.
Gætuð þið ekki séð sóma ykkar í því að bjóða mér að minnsta kosti að vera með minn eigin þátt á mbl.is sjónvarpinu?

Netfangið mitt er tiskublogg@gmail.com.

Þið hafið þangað til kl. 16.40 þann 25. júlí 2011.
Fyrstur kemur, fyrstur fær, asshóls.
xoxo
-h
 
 *Þetta er fyrsta færslan á Tískublogginu sem inniheldur ekki neinar myndir. Það er með vilja gert, svo bara gáfað fólk lesi hana.

Sunday, May 29, 2011

átfitt dagsins


Bolur: Hjálpræðisherinn.

Leggó: Keyptar á meginlandi Evrópu.

Sokkar: Engir.

xoxo
-h

Thursday, May 26, 2011

betra er seint en aldrei - fegrunarpistill fyrir Hernaðarandstæðinga

Hola lovers,

Fyrir ógeðslega löngu þá var ég beðin um að skrifa fegrunarpistil fyrir tímarit Hernaðarandstæðinga. Ég ætlaði að vera búin að birta hann fyrir löngu en gleymdi því.

En hér kemur hann núna. Afsakið biðina.

***


Hola lovers,

Ég er helsti sérfræðingur landsins í fegrunum, megrunum og tísku, og var því beðin um að leiðbeina ykkur um fallegt útlit og hvernig á að vera töff. Ég ákvað að taka þessari áskorun, þó ég telji að það séu afar litlar líkur á árangri (ég hef séð myndir af ykkur).

Rakaðu af þér skeggið.
Ég vil byrja á því að hreinsa loftið og segja ykkur sannleikann; Það er ekki í tísku að vera hernaðarandstæðingur.
Því herir eru töff. Hermenn og -konur fá að vera í töff búningum með töff hárgreiðslu og þau fá að vera með töff byssur, þau fá að vita ýmis töff hernaðarleyndarmál á undan almúganum og herir skilja flestir homma og lesbíur útundan, sem er töff.

Það eru líka gerðar töff bíómyndir um hermenn og -konur þarsem þau bjarga litlum gyðingabörnum, vingast við flækingshunda í Írak og finna falleg lótusblóm í daunillum fenjum Víetnam.

Og ef hernaðarandstæðingar og her færu í slag þá held ég að við vitum öll hver myndi vinna.
Aukinheldur skemmdi það mannorð ykkar mikið þegar þið voruð á móti veru Bandaríkjahers hér á landi. Því það er ekkert minna í tísku í öllum heiminum en að vera á móti Bandaríkjunum, afþví að bandarísk þjóð er besta þjóð í heimi, afþví að Bandaríkjamenn fundu uppá Baconnaise.

Þannig að ef þið viljið vera töff er fyrsta ráðlegging mín til ykkar því að hætta að vera hernaðarandstæðingar.

Ef þið getið ekki hugsað ykkur að hætta því þá er það skásta í stöðunni að hætta að minnsta kosti að líta út einsog hernaðarandstæðingar og vona að enginn komist að þessari annarlegu hneigð ykkar.

Svona farið þið að því:

 • Klippið af ykkur dreddana.
 • Farið í bað.
 • Notið sápu sem er ekki með umhverfisvottun og sem inniheldur mikið af lyktar- og litarefnum.
 • Farið í hrein nærföt (ef þið eigið þau yfir höfuð til).
 • Hendið öllu úr skápnum ykkar sem er úr hör eða hampi. Flíkur sem eru í karrígulum, heiðbláum, rústrauðum eða mosagrænum litum skal einnig henda. Heimasaumaðar flíkur skulu fara sömu leið.
 • Hendið öllum flíkum sem á stendur Free Tibet.
 • Hendið öllum flíkum sem eru með mynd af Che Guevara.
 • Hendið varasalvanum ykkar.
 • Klæðið ykkur í það sem þið finnið í skápnum sem líkist helst klæðnaði venjulegrar manneskju og farið í verslunarleiðangur í verslunarmiðstöð (það er bannað að fara á Laugaveg eða Skólavörðustíg).


Innkaupalistinn:

Snyrtivörur sem innihalda mikið paraben. Þetta er hið allra nauðsynlegasta sem allir þurfa að eiga: dagkrem, næturkrem, síðdegiskrem, augnkrem, svitaholukrem, meik, púður, hyljari, augnskuggi, augnblýantur, eyeliner, undirmaskari til að þykkja augnhár, maskari, sólarpúður, kinnalitur, varablýantur, varalitur og gloss. (Ath. að þessi listi er ekki tæmandi)

Leggingsbuxur með tígrisdýramynstri. (Eða leggings úr alvöru tígrisdýri, ef þið hafið efni á því (eða úr einhverju meira töff dýri sem er í enn meiri útrýmingarhættu, einsog ísbirni (eða górillu)))

Latexgalli með hönskum og hettu.

Sjampó með miklum aukaefnum og helst í bleikum eða fjólubláum umbúðum. Hárnæring, djúpnæring, hárkrem, hársprey og vax úr sömu línu.

Spegill.

Hárbursti.

Augnháraplokkari.

Rakvél.

PC-fartölva frá þýskum framleiðanda sem hagnaðist á dularfullan hátt á tímum seinni heimsstyrjaldar.

Kaffi sem er ekki Fair Trade.

Þrennar blúndunærbuxur.

Farið síðan í dýrustu búðina á svæðinu, bendið starfsmanni á eina gínu og segið: „Ég ætla að fá allt sem hún er í í minni stærð“.

Farið í aðra búð og endurtakið leikinn.

Farið í þriðju búðina og endurtakið leikinn.


Farðu í klippingu.
Þessi aðferð er ykkur nauðsynleg, því þið kunnið ekki að klæða ykkur einsog venjulegt fólk. Svona getið þið feikað það. Munið bara að taka mynd af gínunni (eða rissa hana upp, því ég efa að þið eigið farsíma með myndavél) svo þið vitið hvernig þið eigið að raða flíkunum saman þegar heim er komið. Ég ráðlegg ykkur einnig að biðja afgreiðslufólkið í búðinni að númera fyrir ykkur flíkurnar svo þið vitið í hvaða röð þið eigið að fara í þær.

Þegar heim er komið mæli ég með því að þið farið síðan á internetið í nýju tölvunni ykkar og skoðið myndbönd af því hvernig á að nota snyrtivörurnar sem þið keyptuð ykkur. Ef þið eigið þess kost skuluð þið einnig reyna að vingast við venjulega manneskju sem hefur töff skoðanir og fylgjast grannt með því hvernig hún klæðir sig, snyrtir og hegðar sér í daglegu lífi.

Þið skuluð einnig lesa daglega ráðleggingar mínar á Tískublogginu, tiskublogg.blogspot.com.

xoxo
-h

Wednesday, May 18, 2011

samskiptavandræði kvenna

Hola lovers,

Stundum kemst ég ekki hjá því að heyra fréttir, þó ég reyni yfirleitt að forðast þær. Og ég komst ekki hjá því að heyra af franska ólívubóndanum sem var handtekinn í New York um daginn. Ennfremur las ég á einhverju femínistabloggi (sem ég les afþví maður þarf að þekkja óvininn) að fólk talar um að hann hafi nauðgað, eða reynt að nauðga, konu.

Ég vil fá að leiðrétta þennan misskilning.

Það er ekki hægt að nauðga konu, einfaldlega afþví að það er ekki til neitt sem heitir nauðgun. Því þótt það séu viðtekin sannindi að karlmenn eigi að hafa óheftan aðgang að líkömum kvenna öllum stundum og það sé ekkert í heiminum verra en að neita karlmanni um kynlíf, þá hefur þetta orð með einhverjum óskiljanlegum hætti ratað inn í mál okkar (ég hef femínistana grunaða) án þess þó að sá verknaður sem það á að lýsa eigi sér stoð í raunveruleikanum. Orðið nauðgun skipar sér því á bekk með orðum einsog einhyrningur, dreki, hafmeyja og kentár, sem öll eru orð yfir ímynduð fyrirbæri, en hafa þó skotið svo sterkum rótum í menningu okkar í gegnum skáldskap, að flestir telja sig geta borið kennsl á fyrirbærið sem orðið á að lýsa yrði það einhverntímann á vegi þeirra, þó að í raunveruleikanum sé slíka veru hvergi að finna.

Raunveruleikinn.

Túlkun einmana sjómanna á raunveruleikanum.

Ég held nefnilega að fólk rugli saman nauðgun og meintri nauðgun, rétt einsog sjómenn forðum sáu svamlandi sækýr en einmanaleikinn villti þeim sýn svo þeir þóttust sjá limafagra snót stinga sér í gegnum öldurnar og kölluðu hafmeyju. En meint nauðgun er þegar kona misskilur meiningar karlmanns eða meinar honum aðgang að líkama sínum að ósekju. Dæmi um meinta nauðgun er t.d. þegar karl ætlar einfaldlega að hrósa konu svolítið fyrir fagran líkamsvöxt með því að fletta hana klæðum til að skoða hann betur, eða með því að stinga svolítið í hana typpinu, og hún bregst ókvæða við og ætlar að honum hafi gengið eitthvað illt til.

En spyr maður um leyfi áður en maður hrósar fólki? Nei.

Konan misskilur einfaldlega meiningar mannsins og ætlar honum einhvern annan vilja en hið saklausa athæfi lýsir. Konan gerist þannig sek um ætlanarökvillu (e. intentional fallacy) og meinar manninum aðgang að líkama sínum og gerir honum einnig upp ímyndaðar meiningar, og þannig er um meinta nauðgun að ræða.
Þetta er einföld orðsifjafræði, lovers.

En þessar meintu nauðganir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir menn, og ferla þeirra, einsog nýleg dæmi hafa sýnt. Og það er í raun sárara en tárum taki að vandaðir menn skuli geta lent í því að einstæð móðir í Bronx geti tekið það upp hjá sjálfri sér að eyðileggja blómlegan feril þeirra, einfaldlega afþví að hún þjáist af ætlanarökvillu, þannig að einföld samskiptavandræði þeirra eru blásin upp í fjölmiðlum.

Ég tel það sé afar einföld skýring á þessu tiltekna dæmi. Hann er franskur, hún er bandarísk. Þau tala ekki sama tungumálið = samskiptavandræði.

[Og þið sem viljið meina að það sé í alvörunni til eitthvað sem heitir nauðgun; Ég mæli með því að þið prófið að skoða fjölmiðla og athugið hvort þar sé oftar rætt um nauðganir eða meintar nauðganir. Og munið svo að fjölmiðlar endurspegla heiminn einsog hann raunverulega er, en ekki einsog þið viljið að hann sé.]

xoxo
-h

Sunday, May 15, 2011

inspirational kvót dagsins

"Chelsea Charmes er gríðarlega hláturmild kona - en það sem hún á meira af en hlátri er barmurinn."

-Ritstjórn Menn.is, úr greininni Brjóst og stór snjór (eða öfugt) - Myndband.

inspiration dagsins

xoxo
-h

Thursday, May 12, 2011

lengi má gott bæta með beikoni

Hola lovers,

Vincent Van Gogh var góður listamaður. En lengi má gott bæta, og einsog þið vitið fullvel þá versnar ekkert við beikon.

Upprunalega myndin.

Myndin einsog hún ætti að hafa verið í upphafi.

Tískubloggið þakkar Lindu Björk kærlega fyrir að benda ritstjórn á þetta mikilfenglega listaverk og útnefnir hana um leið AÐDÁANDA VIKUNNAR!

TIL HAMINGJU LINDA BJÖRK!


xoxo
-h

Tuesday, May 10, 2011

inspirational kvót dagsins

„Ætli maður verði ekki að hugsa um sjálfan sig. Þannig brjóstin yrðu fyrir valinu.“

-Steinunn Laufey, í viðtali í greininni Gella vikunnar á Menn.is.

Monday, May 9, 2011

kynslóðabil, konur og gullhamrar

Hola lovers,

Ég vil taka hjartanlega undir með Snorra Bjarnvini, en í nýlegri grein þá syrgir hann ákaft þá tíma þegar það þótti sjálfsagt og eðlilegt að karlmenn slægju konum líkamlega gullhamra með því að þukla á þeim líkamsparti þeirra sem vakti sérlega aðdáun þeirra þá stundina.

Þetta var, einsog Snorri segir, áður en konur breyttu mönnum í konur og menn fengu enn að vera menn.

Það er í raun með ólíkindum að það hafi ekki fleiri en Snorri veitt þessari þróun einhverja andspyrnu. Það er einnig ótrúlegt hvernig samfélag okkar hefur flotið sofandi að feigðarósi. En ég tel að það sé orðið of seint að snúa þessari þróun við úr þessu og því stöndum við nú skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að menn eru flestir orðnir að konum og munum brátt tilheyra heilum kynstofni kvenna.

Faðir Snorra er af þeirri kynslóð þegar menn voru ennþá menn. Snorri er af kynslóð karla sem kvenfólk hefur breytt í konur.

Og ef hann er samkvæmur sjálfum sér þá treysti ég því að honum muni því líka þeir gullhamrar sem honum verða slegnir á afturendann í framtíðinni af kynslóð föður síns.

xoxo
-h

Þessir hamrar eru ekki gylltir.

Monday, May 2, 2011

viðvörun til lesenda Tískubloggsins

Hola lovers,

Muniði um daginn þegar rætinn einstaklingur sem ég vil ekki nefna á nafn (enda hef ég löngum talið að það nafn sem hún gaf upp forðum sé ekki hennar eigið) kom fram í tveimur fjölmiðlum og reyndi þar að eigna sér heiðurinn af þessari síðu? Ég fjallaði stuttlega um það í þessari færslu hér, og leiddi líkum að því að hún væri að reyna að sölsa undir sig Tískubloggið til að hafa af mér þær miklu auglýsingatekjur sem ég mun fara að hafa af síðunni hvað og hverju.

Henni varð sko aldeilis ekki kápan úr því klæðinu, enda sendi ég henni umsvifalaust harðort bréf og sýndi henni svo ekki verður um villst hvar Davíð keypti ölið.

Ég hafði vonast til þess að þarmeð lyki viðskiptum okkar og hún léti sig hverfa með skottið á milli lappanna, en kom svo ekki í ljós að hún er að fara að gefa út "bók".

Ég hef það frá áreiðanlegum heimildum að hún hafi ekki skrifað þessa meintu "bók" sjálf, enda er hún ekkert nema ógeðsleg, loðin og ófrumleg hæðnisrotta.

Ég vildi því vara ykkur við þessum póser, kæru aðdáendur.

Hvað sem þið gerið skuluð þið ekki kaupa bókina hennar.

xoxo
-h


P.S. Hérna er mynd sem ég fann af henni og hinni meintu "bók" hennar á alnetinu. Sjáið bara hvað hún er ógeðsleg. Hún er með yfirvaraskegg og bringuhár og hún slefar pissi.

Sunday, May 1, 2011

inspirational kvót dagsins - eða enn frekari sönnun þess allar mæður heimsins eru í raun einstæðar

"Þær mæður sem hafa of mikið að gera þurfa aðstoð frá leikskólum, ömmum, barnapíum, ræstitækni o.s.frv. til að geta hvílst, endurnærst og komið jafnvægi á líf sitt."

-Melkorka Kristinsdóttir, í greinni Ofhjálparar á Bleikt.is.


[Kvót dagsins rennir annars enn frekari stoðum undir þá kenningu mína sem ég hef viðrað áður hér á blogginu, um að allar mæður heimsins séu í raun einstæðar, því þegar kemur að því að halda heimili og ala upp börn eru karlmenn sannarlega verri en enginn.]

xoxo
-h