Sunday, June 26, 2011

daily bobsession! o.fl.

Hola lovers,

Einsog þið munið kannski þá var eitt af þeim hógværu markmiðum sem ég setti mér í upphafi að eignast a.m.k. 1.000 aðdáendur á Facebook á fyrsta ári Tískubloggsins. Og það er því sannarlega kominn tími til að tilkynna ykkur (og þó fyrr hefði verið) að Tískubloggið á nú loks hvorki meira né minna en 1.049 aðdáendur á Facebook.

Ég verð þó að játa að þið hafið valdið mér þónokkrum vonbrigðum, lovers, því Tískubloggið verður eins árs í næsta mánuði svo þið létuð mig næstum renna út á tíma með þetta.

En ég fyrirgef ykkur að sinni og treysti því að þið munið leggja meiri metnað í aðdáun ykkar á mér á öðru starfsári Tískubloggsins.

Og nú er komið að liðnum sem allir hafa beðið eftir með öndina í hálsinum; daily bobsession!

Sideshow Bob

P.s. framleiðendur ég er ekki búin að gleyma ykkur.

xoxo
-h

Thursday, June 23, 2011

af prinsessum og hárumhirðu átta ára stúlkubarna

Hola lovers,

Ekki skil ég hvað kvenrembur eru að kvarta yfir þessum blessaða Prinsessuskóla sem er markaðssettur fyrir átta ára stúlkubörn. Því ég hef áður nefnt að það sé aldrei of snemmt fyrir stúlkur að byrja að huga að útlitinu og velta fyrir sér hvernig þær geti hámarkað útlitsgæði sín (sjá t.d. hér og hér), því þetta er enda hárrétt hjá honum Gunnari Ingvarssyni sem skrifaði athugasemd við fréttina á DV, en hann ritar: „Eins lengi og sögu herma hafa konur notað ýmis ráð til að auka fegurð sína til að gana í augun á kalmönnum. Sumar konur eru reyndar þannig að engin meðul geta gert þær ásjálegar og þær verð feministar.“

Í rauninni finnst mér ekkert eðlilegra en að stúlkubörn langi til að verða prinsessur, enda hafa prinsessur löngum verið táknmynd um kvenlega auðmýkt, fegurð og lítillæti og þær eru í raun holdgervingar alls þess sem konur ættu að vera. Því þær voru sko alls ekki haldnar þessum ranghugmyndum um eigið ágæti sem einkennir því miður margar nútímakonur, enda gerðu þær sér í flestum tilvikum fulla grein fyrir því að þrátt fyrir að deila með þeim erfðaefni, þá væru þær að sjálfsögðu miklu minna hæfar til að að stýra þjóðríkjum en feður þeirra, bræður, frændar og synir, enda erfðust krúnur yfirleitt í beinan karllegg.

Þær gerðu sér heldur engar rómantískar grillur, því hefð var fyrir því að nota þær sem gjaldmiðil í milliríkjasamskiptum og þær voru iðulega seldar í hjónabönd í skiptum fyrir landsvæði og herafla, eða svo karlmennirnir í kringum þær gætu styrkt pólitískt samband ríkja sinna og tryggt sér völd. Þannig settu þær hagsmuni eiginmanna sinna, feðra og föðurlands framar sínum eigin metnaði fyrir lífshamingju, því þær voru hin kvenlega dyggð uppmáluð.

Og þó þær þjáðust oft og tíðum af ýmsum erfðakvillum vegna innræktunar og skyldraæxlunar innan konungsfjölskylda, þá báru þær harm sinn í hljóði, því þær vissu að það að halda völdunum hjá karlmönnunum í ættinni var mikilvægara en það að vera litningagallalaus.

Prinsessur nútímans þurfa heldur ekkert að bisa við að finna sér ævistarf, eða huga að einhverjum „frama“, því það að vera táknmynd kvenlegrar auðmýktar er fullt starf, sem sýnir sig best á því að þeim almúgakonum sem gifta sig inn í konungsfjölskyldur er yfirleitt gert að segja starfi sínu lausu um leið.

Af ofansögðu má sjá að betri fyrirmynd fyrir átta ára stúlkubörn er vandfundin, og ég get satt að segja ekki ímyndað mér neina aðra fyrirmynd sem þær ættu frekar að vilja líkjast.

Ég fagna því einnig innilega að ungum stúlkum sé nú kennd hand- og fótsnyrting, því annars gætu þær verið að nota þessa útlimi til þess að gera eitthvað ógeðslegt einsog að klifra í trjám, sulla í pollum, kasta boltum eða hlaupa. Mér hefur einnig lengi þótt að hárumhirðu átta ára stúlkubarna sé afar ábótavant og því fagna ég því ákaft að einhver ætli að taka að sér að aga þær almennilega og kenna þeim að greiða sér og litgreina jafnframt hvernig litar teygjur þær ættu helst að nota í hárið á sér.

Það eina sem ég setti spurningarmerki við í sambandi við þetta námskeið var að á heimasíðunni kemur fram að þær eigi að taka með sér „holt“ nesti. Í fyrstu hélt ég að þetta væri handvömm síðuhaldara og hún hafi ætlað að slá inn „hollt“ í staðinn, en svo áttaði ég mig á því að auðvitað er henni bara umhugað um að stúlkurnar á námskeiðinu fitni ekki óhóflega og því bendir hún foreldrum á að loftrými skuli vera í nesti þeirra, t.d. rúnstykki sem búið er að fjarlægja miðjuna úr svo skorpan ein er eftir.

Ég vildi næstum því óska þess núna að ég hefði ekki farið í legnám og að ég ætti dóttur til að senda í þennan skóla.

xoxo
-h

Hér er dæmi um konu sem kann að litgreina.

Wednesday, June 22, 2011

opið bréf til útvarpsstjóra

Hola lovers,

Ég var búin að segja ykkur á Facebook-síðu minni að Sokkabandið á Rás 2 er ógeðslegasti útvarpsþáttur í heimi. Ég bannaði ykkur jafnframt að hlusta á hann og ég ætla rétt að vona að þið hafið hlýtt mér í blindni.

Hann hóf göngu sína síðastliðinn mánudag og hann er skelfilegur, svo miklu, miklu skelfilegri en ég hafði getað ímyndað mér að útvarpsþáttur gæti verið.

Ég veit ekki betur en hann sé kominn til að vera í útvarpi allra landsmanna og því sé ég mér ekki annað fært en að taka tafarlaust í taumana og koma í veg fyrir að peningum skattpíndra aðdáenda Tískubloggsins sé eytt í þetta ógeð.

Ég skrifaði útvarpsstjóra því opið bréf.

***

Opið bréf til útvarpsstjóra

Útvarpsstjóri,

Þú ættir að skammast þín.

Sokkabandið, sem er nýr „útvarpsþáttur“, er almenningi ekki boðlegur og ég krefst þess að hann verði tafarlaust tekinn af dagskrá. Þessi þáttur gefur sig út fyrir að ræða við „framtakssamar“ stelpur, en í fyrsta þættinum var ekki rætt við eina einustu fegurðardrottningu og enginn af viðmælendunum hefur verið Séð & heyrt stúlka. Kallar þú þetta metnað, útvarpsstjóri?

Og það er ekki nóg með að þáttastjórnendurnir, Kristín og Þóra Tómasdætur, séu greinilega fullkomlega vanhæfar í vali á viðmælendum, heldur kusu þær að bjóða erkióvini mínum (sem ég kýs að nefna ekki á nafn af augljósum ástæðum) í þátt sinn og gleyptu bullið í henni hrátt. Hvað á það að þýða að bjóða lygara í drottningarviðtal og spyrja síðan bara þægilegra spurninga?

Þær hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum í þeirri grófu sögufölsun sem hefur átt sér stað í samfélaginu undanfarið, sem gengur út á það að grafa sannleikann um það hver það er sem raunverulega ritar Tískubloggið. Sokkabandið, útvarpsþáttur sem þú berð ábyrgð á, tekur þannig þátt í víðtæku samsæri spilltra íslenskra fjölmiðla.

Heldur útvarpsstjóri að það sé tilviljun að Kristín og Þóra Tómasdætur vegi svo gróflega að Tískublogginu nú örfáum mánuðum áður en lífstílsbók mín kemur út? Telur útvarpsstjóri það vera tilviljun að þær séu sjálfar að fara að gefa út einhverskonar stúlknafræðara, sem á víst að heita framhald á bleðlinum sem þær gáfu út fyrir síðustu jól og kölluðu bók, einsog fram kemur í þessari frétt? Getur það verið að þær óttist samkeppnina við bók mína sem kemur út um svipað leyti, því þær vita að þar mun kvenþjóðin fá svör við öllum mögulegum spurningum sínum og því muni enginn kaupa bókina þeirra og þær kjósi því þessa lúalegu aðferð til að níða af mér skóinn í veikri tilraun til að bola samkeppnisaðila sínum burt? Getur það verið að þær geri sér grein fyrir óvéfengjanlegum yfirburðum mínum og grípi því til örþrifaráða?

Útvarpsstjóri veit að Þóra Tómasdóttir hefur starfað á hinum ýmsu fjölmiðlum og hefur því ágæt tengsl við fjölmiðlaheiminn. Hún þekkir gagnrýnendur og hefur unnið með þeim. Ég leyfi mér því að fullyrða að ef lífstílsbók Tískubloggsins hlýtur slæma umfjöllun eða dóma þegar hún kemur út, þá mun það vera Þóru Tómasdóttur að kenna.

En hún getur togað í alla þá spotta sem hún vill.

Ég og þú vitum sannleikann, útvarpsstjóri.

Rektu þær núna.

xoxo
-h

Monday, June 20, 2011

er flugumaðurinn á Bleikt.is íslamskur terroristi og í hverju fólst menntun hans?

Hola lovers,

Nú virðist sem ég hafi ef til vill farið aðeins of geyst í túlkun minni á grein Klöru Egilson í síðustu færslu. Þar færði ég sannfærandi rök fyrir því að (fyrrverandi?) flugumaðurinn hefði nú sýnt sitt rétta andlit og hefði loks komið útúr skápnum sem femínisti (kvenremba).

En nú er komið annað hljóð í skrokkinn, enda tel ég líklegt að hún hafi annaðhvort áttað sig á því að hún hafi farið yfir strikið og séð að sér, eða ritstjóri vefritsins hefur tekið hana á teppið og útskýrt betur fyrir henni ritstjórnarstefnuna (sem felst í því að meina þeim konum sem þurfa að berjast fyrir réttindum sínum aðgang að síðunni).

Því í nýjustu grein sinni "Veena Malik er systir mín" (sjá hér) líkir hún norrænum femínistum réttilega við íslömsku klerkastéttina, enda eru þessi tvö öfl, femínistar (eða "hreintrúnaðarfemínistar" einsog Klara kallar þá (sem er hressandi og afar skemmtilegt nýyðri sem ég tel að hún hafi soðið saman í tilefni af þessari grein með því að blanda saman á óvæntan hátt orðunum "trúnaður", "hreinn" og "femínisti" til að sjokkera lesendur sína með því að draga fram andstæðurnar sem eru fólgnar í þessum mótsögnum. Því allir vita að "femínisti" er ljótt og skítugt orð á meðan "trúnaður" og "hreinn" eru orð sem hafa afar jákvæðar skírskotanir í okkar tungumáli (sbr. hrein mey). En með því að raða þessum þremur orðum saman á þennan frumlega og óvænta hátt þá myndast afar áhugaverður þríhyrningur andstæðra póla, þar sem orðið "femínisti" er hinni illi, oddhvassi og neikvæði endi sem reynir að draga hina staðföstu, karlmannlegu og jákvæðu hlið niður í svaðið með sér. Þannig sýnir Klara fram á það með einu einföldu orði sem lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn, hvað getur orðið um hreinleikann og trúnaðinn í okkar samfélagi ef broddur femínismans verður ekki slíðraður í snarhasti (sjá skýringarmynd 1))) og íslamska klerkastéttin þau öfl sem helst hafa barist fyrir því að frelsi kvenna í heiminum verði skert.

Skýringarmynd 1.
Hún bendir ennfremur á allt það illa sem fer fram í teboðum norænna femínista, en umræðurnar þar eru svo skelfilegar að ég mun hlífa ykkur við frekari upplýsingum um það að svo stöddu.

En þó Klara virðist nú þvertaka fyrir það að vera kvenremba (femínisti) þá kemur berlega fram í þessari grein að hún hefur sannarlega villt á sér heimildir. Því af myndinni af henni að dæma virðist hún vera dæmigerð íslensk kona, og hún ritar einnig þokkalega íslensku. En hún talar af sér í titli greinarinnar, því þar kemur fram að hún er engin önnur en systir hinnar pakistönsku og íslömsku fyrirsætu Veenu Malik. Og því getur vart annað komið til greina en að Klara sjálf sé bæði pakistönsk og íslömsk. Í greininni kemur jafnframt fram að Veena systir hennar sé sterkefnuð og hafi "skilað öllum systkinum sínum gegnum nám" og hlýtur Klara sjálf að vera þar meðtalin.

Mín spurning er því þessi: Hversvegna er pakistanskur og íslamskur flugumaður að villa á sér heimildir og skrifa undir dulnefni á íslenska megrunarsíðu, og í hverju fólst þessi dularfulla menntun sem íslamistinn systir hennar borgaði undir hana?

Ég veit að ég þarf ekkert að fjölyrða um hryðjuverkaógnina sem steðjar að hinum Vestræna heimi um þessar mundir. Þess vegna hef ég tekið mér það bessaleyfi að tilkynna pistlahöfundinn til bæði innanríkisráðuneytisins og ríkislögreglustjóra. Og ríkislögreglustjóri sjálfur fullvissaði mig persónulega um að ábendingar mínar væru teknar afar alvarlega.

Þið getið því sofið rólega í nótt, lovers, því Tískubloggið kom ykkur enn og aftur til bjargar í tæka tíð.

xoxo
-h

Friday, June 17, 2011

flugumaður reynir að fella bleika veldið innanfrá

Hola lovers,

Nú er ég alveg stúmm.

Því einsog þið vitið kannski, þá er Bleikt.is næstmestuppáhaldsheimasíðan mín í heiminum (á eftir Pjattrófusíðunni). Það er fyrst og fremst vegna þess að Bleikt.is er eitt af síðustu vígunum á Íslandi þar sem enn er barist ötullega gegn kvenrembum (femínistum) enda hefur síðan verið í fylkingarbrjósti þeirra sem reyna að kæfa í fæðingu það sem sannarlega má kalla fáránlega tilburði til "kvenfrelsis".


Því síðan hefur alla tíð köttað krappið og sagt konum sannleikann um hin ýmsu málefni. Sem dæmi mætti nefna þessa kröfu sem nú er uppi um að karlar eigi að taka þátt í að þrífa heimilið líka (sem er náttúrulega fáránleg) enda var það skýrt tekið fram á síðunni að ef svo ólíklega vill til að konur verði leiðar á þrifum þá óska þær sér "eiginkonu eða töfrabarnfóstru" (sjá umfjöllun mína um þann pistil hér).


Þær hafa einnig hamrað á viðteknum sannindum einsog þeim að konur séu konum verstar, "enda er ekkert konum eðlislægra en að finna kvenlega veikleika annarra kynsystra sinna og níðast á þeim", og þær hafa brýnt fyrir konum að gæta þess að vera aldrei sterkari en karlar því það geri bara lítið úr þeim. Þær fara heldur ekki dult með það að flestar konur þurfi að léttast og hafa jafnvel lagt sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum og síðan ber þannig beinlínis ábyrgð á því að þónokkur kíló hafi fokið! Enda er þetta kvenþjóðinni fyrir bestu, því einsog allir vita er ekkert dónalegra en kona sem byrjar með manni og vogar sér svo að bæta á sig og kaupa sér flíspeysu.

Þá hamra þær á þeim viðteknu sannindum að karlar geti ekki komið að barnauppeldi og að rauðsokkum finnist allir karlmenn vera aumingjar.

Ég gæti haldið lengi áfram að telja fram dæmi um það hvernig síðan hefur lagt sig fram við að koma í veg fyrir að konur ofmetnist og minna þær á þá hver þeirra skör sé í lífinu (hint: sú lægri), en ég held ég láti þetta nægja í bili.

Að ofansögðu skiljið þið þá væntanlega hversvegna ég hef haft síðuna í svo miklum metum, enda hafði mér skilist að þessi svokalla "kvennabarátta" kvenrembanna væri eitthvað sem samræmdist alls ekki þeirra ritstjórnarstefnu, enda sagði ritstjórinn þessi fleygu orð í eftirminnilegu viðtali sem birtist skömmu áður en vefurinn fór í loftið: "Við þurfum ekki að berjast fyrir réttindum kvenna, við erum konur með réttindi."


Þið getið því ímyndað ykkur hversu mikið mér brá þegar ég las þessa grein eftir Klöru Egilson. Þessi kona þykist vera hluti af ritstjórnarteymi Bleikt.is, en af grein hennar og viðtalinu við Hlín má sjá að Klara vinnur bersýnilega leynt og ljóst gegn þeirri ritstjórnarstefnu síðunnar sem mörkuð var í upphafi. Það er greinilegt að hún hefur laumað sér inná vefinn undir fölskum formerkjum og hún hefur smátt og smátt verið að herða snöruna að hálsi Hlínar. Og nú, sex mánuðum eftir að síðan var stofnuð, eru ítök hennar orðin nægilega mikil til að hún þori loks að sýna sitt rétta andlit.

Og það andlit er ekki fagurt lovers, því hún Klara er femínisti.

Já, ég trúði heldur ekki eigin augum, en hún segir það hreint út. Og það sem meira er þá sviptir hún hulunni af þeim skemmdarverkum sem hún hefur unnið á ritstjórnarstefnu síðunnar, því nú kemur í ljós að Klara hefur leynt og ljóst unnið að því að fjalla um konur sem hún telur þurfa að berjast fyrir réttindum sínum!


Hún talar um "baráttu ritstjórnar Bleikt fyrir rétti þeirra kvenna sem eru ekki af íslenskum uppruna" og "baráttu lesbískra mæðra".

Og allt þetta gerir hún blygðunarlaust, þrátt fyrir að ritstjórinn hafi sjálf komið fram og lýst því sérstaklega yfir að síðan væri ekki fyrir konur sem þyrftu að berjast fyrir réttindum sínum.

Ég er sannarlega í öngum mínum yfir þessu. Hún Hlín á betra skilið en að flugumaður laumi sér inní raðir hennar og knésetji veldi hennar innanfrá.

Hún hefði átt að þiggja krafta mína þegar ég bauð þá fram.

xoxo
-h

Monday, June 13, 2011

átfitt dagsins + aðsent átfitt frá aðdáanda Tískubloggsins

Hola lovers,

Hér kemur átfitt dagsins og það er mér einnig sönn ánægja að birta um leið aðsendar átfittmyndir frá eldheitum aðdáanda Tískubloggsins.

En byrjum á mér.


Bolur: Af kærasta.

Leggings: Kúkabrúnar.

Sokkar: Samstæðir.

Hár: Óþvegið.

Og vindum okkur þvínæst í átfittmyndirnar frá aðdáanda Tískubloggsins.




Úlpa: Erfðagripur sem hefur verið innan fjölskyldunnar í árafjöld.

Flugnanet: Útilíf.

Sixpensari: Gefins.

Leggings: Keyptar á útsölu.

Skór: Af kærasta.


Ég hvet aðra lesendur eindregið til að fylgja fordæminu og senda inn eigin átfittmyndir. Því þetta er ekki bara bloggsíða, heldur tískusamfélag meðvitaðra einstaklinga.

xoxo
-h

Monday, June 6, 2011

himnaríkið í símaskránni

Hola lovers,

Ég skil ekki þetta fjargviðri yfir saklausu fótósjoppi á símaskránni. Einsog útgefendur hennar hafa sagt þá var tilgangurinn með erótísku nektarmyndinni á kápunni einfaldlega sá að hvetja fólk til að stunda sjálfsfróun og líkamsrækt og borða hollan mat. Og auðvitað dugir þessvegna ekkert að hafa alvöru líkama framan á henni.

Nei, það þarf að vera eitthvað meira en líkami. Það þarf ofurlíkama, eitthvað ídealískt markmið sem allir eiga að stefna að en enginn hefur möguleika á að ná. Því þetta er einsog ef maður dinglar gulrót framan í asna. Hvað gerir hann? Hann eltir. En ef hann nær gulrótinni? Þá borðar hann hana, sest á rassgatið og fer ekki skrefinu lengra.

Eiginlega er líkaminn á myndinni framan á símaskránni einsog himnaríki; Blekking til að fá fólk til að hegða sér betur.

xoxo
-h


Sunday, June 5, 2011

daily bobsession! o.fl.

Hola lovers,

Ég var að fatta að það er alveg fáránlega ógeðslega langt síðan ég var síðast með liðinn daily bobsession! Ég veit satt að segja ekki hvað er að mér og biðst forláts.

En hér kemur s.s. bobsessionið sem allir hafa beðið svo ótrúlega lengi eftir.

Bob Sinclar.

Annars var ég, einsog kom fram á Facebook-síðu minni (aðdáendur mínir þar fá alltaf allar fréttir á undan ótíndum lesendum sem ekki eru aðdáendur), að leggja lokahönd á greiningu á Alien vs. Predator. Ég er að hugsa um að hafa greininguna sem bónusefni í lífstílsbók minni, því skilaboðin í kvikmyndinni eru að ég tel afar mikilvæg fyrir velferð samfélagsins. 

Ég gef sjálfri mér orðið og birti hér brot úr greiningu minni:

Alien vs. Predator er uppáhaldsbíómyndin mín. Það er ekki bara vegna þess að hún er svo ótrúlega, ótrúlega skemmtileg, heldur er það líka vegna þess að hún er okkur víti til varnaðar um það hvað getur gerst ef kvenrembur (femínistar) ná að sölsa undir sig heiminn. Því myndin er í raun ein stór allegoría fyrir sambandið á milli karla og kvenna, þar sem Predator er hinn fullkomni karlmaður og Alien er konan sem óhlýðnast honum.

Titill greiningarinnar er: Alien vs. Predator – Allegoría um afleiðingar uppgangs kvenrembu, og ef hún endar einhverra hluta vegna ekki í bókinni þá birti ég hana auðvitað hér í heild sinni. Svo er ég einnig að vinna í annarri essayu uppúr Alien-myndunum sem mun bera titilinn: Hvernig Alien og Jesúm komu í heiminn Tvær meyfæðingar án kynlífs. 


xoxo
-h