Ég mæli með því að þið hlustið öll á viðtalið við hana Tobbu hér. Þar bendir Tobba réttilega á að gagnrýni sem hún hefur fengið á fyrirhugaðan sjónvarpsþátt sinn frá meintum femínista falli kylliflöt um sjálfa sig, því sést hafi til meinta femínistans með varalit. En allir vita að femínistar eru ljótar, loðnar og leiðinlegar konur sem hugsa ekkert um útlitið og af því leiðir þá að konan getur ekki verið femínisti og gagnrýni hennar því með öllu ómarktæk.
Þetta er nokkuð sem ég hef lengi vitað; að snyrtivörur núlla út alla feminíska tilburði kvenna. Því allir vita að sætar konur þurfa ekki að vera teknar alvarlega, vera metnar að verðleikum, fá sanngjörn laun eða stjórnunarstöður. Aukinheldur benda rannsóknir til þess að konur eyði að meðaltali þremur árum lífs síns í að hugsa um útlitið, mála sig, klæða sig, greiða sér, raka á sér lappirnar, o.fl., og snyrtileg kona með varalit getur því varla haft tíma til að hafa áhyggjur af stöðu kvenna eða tíma til að mynda sér skoðanir sem mark er takandi á.
Tobba stærir sig af því að hafa fært réttindabaráttu kvenna aftur til ársins 1981 og heimtar einkennisbúning fyrir (ætti maður að líta á þetta sem áskorun, lovers? lógósamkeppnin sýndi svo sannarlega hversu liðtæk við erum í hönnun, einn einkennisbúningur ætti nú að vera lítið mál), en með því held ég að hún hljóti að vísa til þess hve mjög hún hefur lagt sitt af mörkum til þess að hefta útbreiðslu femínisma meðal kvenna – einmitt með því að halda að þeim sjónvarpsþáttum og bókum um varaliti.
Varalitur: Besta vopnið í baráttunni gegn femínisma. |
xoxo
-h