Friday, June 8, 2012

Sokkar Dorritar stela senunni - Gætu ráðið úrslitum í baráttunni um Bessastaði - Tískubloggið gætir jafnræðis

Hola lovers,

Enn heldur Smartlandið áfram að upplýsa þjóðina um það sem skiptir mestu máli í lýðræðislegri kosningabaráttu; útlit frambjóðenda og maka þeirra.

Í fréttinni Dorrit mætti í bleikum sokkum kemur fram að eiginkona sitjandi forseta hafi, þótt ótrúlegt megi virðast, klæðst (samstæðum!) sokkum þegar þau heimsóttu nýverið veitingastað á landsbyggðinni.

Og hvernig haldiði að þeir hafi verið á litinn? Bleikir.

Það er ljóst að þetta sokkapar mun hafa afgerandi áhrif á úrslit komandi kosninga.

Tískublogginu er sem fyrr umhugað um að allrar sanngirni sé gætt í umfjöllun um forsetaframbjóðendur og því býður það lesendum sínum umfjöllun um sokka Hrafns Malmquist, en hann er maki Andreu Ólafsdóttur, meðframbjóðanda Ólafs Ragnars Grímssonar.

***

HRAFN MÆTTI Í GRÆNUM SOKKUM

Hrafn Malmquist og Andrea Ólafsdóttir mættu nýverið í myndatöku fyrir DV. Þótt hjónin séu í kosningabaráttu sló Hrafn ekkert af þegar kom að folagangi.

Hann klæddist jakkafötum og grárri, röndóttri skyrtu og var ekki með stór sólgleraugu. Það sem toppaði hinsvegar allt voru grænu sokkarnir sem hann klæddist í myndatökunni. 

Íslenskir folar mættu alveg leika þetta eftir og splæsa á sig grænum sokkum til þess að vera örlítið sumarlegri.


Vinsamlegast athugið að sokkarnir sjást ekki á meðfylgjandi mynd.

xoxo
-h

Wednesday, May 30, 2012

Átti hann barn fyrir 37 árum? MYNDIR

Hola lovers,

Þið vitið auðvitað að ekkert er minna sexí en að fylgjast með þjóðfélagsumræðu og hafa skoðanir á málefnum sem varða hagsmuni þjóðarinnar á einhvern hátt. Ég veit að lesendum mínum er öllum afar umhugað um að vera eins sexí og mögulegt er og þessvegna vitið þið væntanlega ekki að það verður kosið um næsta forseta lýðveldisins í næsta mánuði. (Ég fylgist með þessu með öðru (og minna sexí) auganu, svo þið þurfið þess ekki, lovers (þið megið þakka mér seinna)).

En hingað til hefur nákvæmlega ekkert markvert átt sér stað í umræðunni sem kemur okkur tískumeðvitaða fólkinu við, fyrr en nú!

Því núna hefur kollegi minn hún Marta María á Smartlandinu LOKSINS komið með vinkil sem vantaði tilfinnanlega í umræðuna: Dóm um útlit og líkamsvöxt forsetaframbjóðanda. Hún skrifaði greinina Átti hún barn fyrir 10 dögum?, birtir þar mynd af Þóru Arnórsdóttur í kjól sem hún kallar "alveg aðsniðinn, sýndi vel línurnar", og kunnum við henni góðar þakkir fyrir innleggið.

Mörgum forsetaframbjóðendum hefur verið mikið í mun að fjölmiðlar gæti sanngirni í umfjöllun um þá í aðdraganda kosninganna og séu vakandi fyrir því að einn frambjóðandi fái ekki meiri umfjöllun en aðrir. Ég skil það vel og hef samúð með því sjónarmiði og því vildi ég rétta hlut sitjandi forseta (og helsta keppinautar Þóru) í umræðunni.


***

ÁTTI HANN BARN FYRIR 37 ÁRUM?


Ólafur Ragnar Grímsson opnaði nýverið kosningaskrifstofu sína að viðstöddu fjölmenni. Það vakti athygli að það mátti ekki með nokkru móti sjá að Ólafur hefði eignast tvíbura fyrir aðeins 37 árum, eða árið 1975.

Ólafur klæddist gráum jakkafötum, ljósblárri skyrtu og var með gult bindi. Jakkafötin, sem voru alveg aðsniðin, sýndu vel línurnar.

Af myndunum að dæma má sjá að Ólafur Ragnar slær stjörnum á borð við Rod Stewart og David Bowie við, því þær voru mun lengur að ná fyrra formi eftir barneignir.

xoxo
-h

Thursday, March 22, 2012

sögur af andláti mínu eru stórlega ýktar

Hola lovers,

Ég ætla ekki að biðja ykkur afsökunar á fjarveru minni, en ég skal útskýra hana.

Eftir allt fjölmiðlafárið sem fylgdi útkomu lífstílsbókar minnar þá var ég orðin fullkomlega úrvinda. Þið getið auðvitað ekki ímyndað ykkar hvað það er slítandi að fara í viðtöl í öllum helstu fjölmiðlum álfunnar, fá tonn af aðdáendabréfum, mæta á endalausa upplestra, árita þúsundir (ef ekki milljónir) eintaka, heiðra aðdáendur með nærveru minni og líta jafnframt óaðfinnanlega út.

Í janúar ákvað ég því að nota brotabrot af ágóða sölu bókarinnar og fara í tveggja mánaða dítox-spa-búðir við strendur Dauðahafsins.

Dauðahafið.
Það var endurnærandi að komast í annað umhverfi þar sem enginn vissi hver ég var. Engir ljósmyndarar eltu mig á röndum, enginn vildi fá mig til að árita neinar bækur og engir blaðamenn að hringja til að biðja mig að koma í viðtöl (ég skildi símann eftir heima).

Í dítox-spa-búðunum var notalegt og gott andrúmsloft. Þarna var andlega þenkjandi og fallegt fólk á borð við mig sjálfa. Það var sérstaklega einn sem ég náði góðu sambandi við, soldán nokkur að nafni Said. Ég tók strax eftir honum fyrsta daginn. Hann er með hunangslita húð og svo hvítar tennur að þær lýsa upp andlitið á honum þegar hann brosir. Indverskur fakír elti hann á röndum og það var ekki fyrr en undir lok dvalar minnar sem ég komst að því að fakírinn er í raun lífvörður hans. Og Said er jórdanskur olíufursti og einn af ríkustu mönnum veraldar.

Einhvernveginn æxluðust hlutirnir þannig að ég og Said vorum í flestum meðferðum á sama tíma og á milli okkar mynduðust fljótt órjúfanleg bönd. Það er ef til vill erfitt fyrir ófríða að ímynda sér hversu náið samband myndast á milli tveggja einstaklinga sem dítoxa saman, fasta og skola út. Og hvernig maður deilir ósjálfrátt innstu leyndarmálum sínum, löngunum og þrám þegar maður liggur í grænni vin í skugga frá eyðimerkursólinni og bíður eftir því að andlitsmaskinn þorni og hreinsi um leið svitaholurnar á t-svæðinu.

Said hefur sjálfur lýst sambandi okkar sem stokkhóms-syndrómi, en ég sagði honum að ekkert skandinavískt orð gæti fyllilega lýst hita þeirra tilfinninga sem kviknuðu á milli okkar þarna í eyðimörkinni.

Þegar dítox-búðunum lauk bauð hann mér að fylgja honum í höll sína. Ég þáði auðvitað boðið og þar er ég nú. Lífið er ljúft, ég er búin að missa heil 8 kíló, svitaholur mínar eru hreinari en þær hafa nokkurntímann verið og ég hef fengið fullt af innblástri fyrir næstu lífstílsbók. Og það allra besta er að hinar konurnar í höllinni eru huldar frá toppi til táar, og því er ég óumdeilanlega fallegasta konan á svæðinu, því samkeppnin er engin.

Því miður get ég hvorki sýnt ykkur myndir af Said né höllinni eða einhverjum af fjölmörgum lystigörðum hennar, því fakírinn (sem er víst ekki bara lífvörður heldur yfirmaður allrar öryggisgæslu í höllinni) bannar mér að taka myndir og hann braut meira að segja myndavélina mína þegar ég var að taka átfittpóst fyrir þessa færslu.

P.S. kærasti, ef þú ert að lesa þetta, þá segi ég þér upp.

xoxo
-h