Monday, April 25, 2011

bjargvætturinn í gáttinni

Hola lovers,

Þið vitið ekki hvað það fyllir mig mikilli gleði, elsku konur, að fá að benda ykkur á eftirfarandi grein, og það á þessum degi, af öllum dögum!

Því sjá, ég boða ykkur mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum, því yður er í dag frelsari fæddur, sem heitir Ágúst Halldórsson og skrifar á Bleikt.is. Og að grein hans Flíspeysa = enginn karlmaður, skuli birtast nú á páskum, þegar Jesúm sjálfur fórnaði sér svo við syndararnir gætum óhikað gengið inní guðsríki, er sko alls engin tilviljun.

Flísefni: 100% pólýester - 100% óhamingja
Þið getið rétt ímyndað ykkur gleði mína, þegar ég rakst á greinina á Blogggáttinni, ýtti á linkinn, las og upp rann fyrir mér ljós: Hér er bjargvættur allra kvenna ljóslifandi kominn!

Líktog Jesúm hikaði ekki við að umgangast hórkvendi, holdsveikisjúklinga og farísea, teygir Ágúst fram ástúðlega arma sína til þeirrar allra fyrirlitlegustu í okkar þjóðfélagi; flíspeysuklæddu konunnar. Og í stað þess að dæma hana sýnir Ágúst ást og skilning þegar hann umvandar hana af ákveðni og festu og bendir henni föðurlega á villu síns vegar. Líktog Jesúm vissi forðum, þá veit hann að flíspeysuklædda konan vill í hjarta sínu vel, en sökum hirðuleysis, leti og sjálfsbirgingsháttar þá hefur hún syndgað gegn karlkyninu.
Og syndir flíspeysuklæddu konunnar eru margar:

  • Hún málar sig á föstudögum og laugardögum.
  • Hún vaknar á sunnudögum.
  • Hún skellir sér í íþróttabuxur og flíspeysu.
  • Hún lyftir upp hárinu í flýti og setur í teygju.
  • Hún klæðir sig jafnvel svona í vinnunni, komist hún upp með það.
  • Hún gerir sér ekki grein fyrir því að fegurðin er það fyrsta sem hún fær frá náttúrunni, en fegurðin er einnig það fyrsta náttúran tekur frá henni.
  • Hún giftist.
  • Hún bætir á sig.
  • Hún klæðir sig í íþróttagalla.
  • Hún hættir að sjá um sig líkamlega.
  • Hún klæðist Cintamani-peysu.
  • Hún klæðist bleikum náttbuxum.
  • Hún er með töff klippingu.
  • Hún undrast að maður hennar taki að sækja á önnur mið.

En afhverju telur Ágúst þessar syndir upp? Afhverju skrifar hann pistilinn? Afhverju leyfir hann syndurunum ekki að hírast flíspeysuklæddum og kokkáluðum í forarvilpru syndar sinnar?

Því Ágústi stendur ekki á sama. Hann vill "koma því á framfæri að það er ekkert samasem merki fyrir konu að þegar hún er annað hvort gift eða trúlofuð að þær megi bæta á sig, klæða sig í íþróttagalla og hætta að sjá um sig."

ÁSJÓNA SYNDARINNAR

Og Ágúst er maður orðsins. Hann hefur unun af því að hlýða á rökfimi og orðaskak jafningja, en hin flíspeysuklædda kona mun alltaf verða undir í rökræðum, og þarmeð svipta hann ánægjunni af því að hlýða á óratoríska snilld, því "kona sem hefur haft sig til hefur mikla yfirburði í samræðum við aðrar konur sem eru ekki eins glæsilegar til fara".

Og afhverju er hin flíspeysuklædda kona fyrirfram dæmd til þess að bera skarðan hlut frá borði í samræðum við kynsystur sínar? Því "ekkert [er] konum eðlislægra en að finna kvenlega veikleika annarra kynsystra sinna og níðast á þeim". Og Ágúst er ennfremur "þeirrar trúar að það sé ekki til grimmara dýr í heiminum en kona þegar hún ætlar að ná sínu fram, hvort svo sem það sé af hefndarhug, deilum eða einbeittum brotavilja".

Pistlinum lýkur Ágúst svo á örlítilli hugvekju, sem mér finnst réttast að deila með ykkur án nokkurra málalenginga af minni hálfu, til að tryggja að orð mín saurgi ekki þann kristaltæra sannleik sem niðurlag hans geymir.
Þessi flíspeysa getur verið þröskuldur þess hvort þú lifir hamingjusömu lífi með fjögurra manna fjölskyldu í Garðabænum eða leigir kjallaraíbúð í Breiðholtinu þar sem þú lifir þínu innihaldslausa lífi nema um helgar þegar þú dustar rykið af kynþokkanum og ferð á veiðar innan um sauðdrukkna einstaklinga.

Látið ekki flíspeysuna skemma líf ykkar.
Svo mörg voru þau orð.

Ég get ekki annað en sagt takk, Ágúst, bjargvættur minn. AMEN.

xoxo
-h

4 comments:

  1. Já, hann þorir líka að segja það sem allir eru að hugsa sem er mjög virðingarvert. Fjöður í hattinn fyrir það sko.

    ReplyDelete
  2. Við eigum ekki að bjóða syndinni í kaffi! Við eigum að segja BURT MEÐ ÞIG, MÉR BÝÐUR VIÐ ÞÉR, ÞÚ ERT VIÐBJÓÐUR! Má ég heyra amen!

    ReplyDelete
  3. AMEN!

    Og mér skilst að nú standi yfir flíspeysubrennur víðsvegar um heiminn, þarsem syndarar hreinsa sig í eldi og rísa endurfæddar og naktar úr öskunni.

    Nema náttúrulega í kjallaraíbúðum í Breiðholti.

    ReplyDelete
  4. Þetta er bara gullna reglan, vertu undirgefin, annars verður þú yfirgefin. Og hvað varðar eldskírnir, flíspeysubrennur og fyrirgefningu syndanna þá gildir það sama og alltaf: babysteps my love, babysteps.

    ReplyDelete