Tuesday, July 5, 2011

ástarbréf til Vefpressunnar ehf. - ekki fyrir viðkvæma

Hola lovers,

Ég held að Vefpressan ehf. sé uppáhaldsfyrirtækið mitt. Það er vegna þess að Vefpressan ehf. á flesta netmiðla á Íslandi (þ.m.t. Bleikt.is, sem er uppáhaldsheimasíðan mín) og fyrirtækið hefur unnið mjög markvisst að því að draga úr fréttaflutningi og einbeita sér frekar að því að ala upp íslenskt kvenfólk, móta skoðanir þeirra, segja þeim hvað þær eiga að kaupa (í netverslun sem Vefpressan ehf. á), segja þeim hvernig þær eigi að hegða sér á Facebook, segja þeim hvernig þær eigi að hegða sér í kringum karlmenn, segja þeim hvernig þær eigi að klæðast, verja feminískan rétt þeirra til að fá sér sílikon og ganga á háum hælum og síðast en ekki síst hefur Vefpressan ehf. innrætt konum þann algilda sannleika að það tekur enginn mark á því sem konur skrifa nema pistlinum fylgi mynd þarsem sést í a.m.k. 2/3 hluta af brjóstunum á þeim.

Og þá er að sjálfsögðu ónefnt þegar Vefpressan ehf. keypti vefritið Eyjuna og gerði sér lítið fyrir og mokaði út öllum konum þar, enda höfðu margir þær grunaðar um að vera kvenrembur (femínistar). Fyrir það löðurmannlega verk á Vefpressan góðar þakkir skildar, einsog ég fjallaði ítarlega um í þessari færslu.

Miðlar Vefpressunnar ehf. taka uppeldishlutverk sitt alvarlega og starfsfólkið er óþreytandi við að koma með ábendingar til kvenna um hvað þær eiga að elska (svar: töskur og skó), hvernig þær eiga að vilja vera í sumar (svar: sumarlegar og sætar) og hvernig þær eiga að borða til að léttast (svar: svona og svona og svona en ekki svona).

Vefpressunni ehf. er líka mjög umhugað um birtingarmynd kvenna á internetinu og fylgist greinilega grannt með því ef einhverjar óæskilegar konur birta myndir sem smætta kvenkynið einsog það leggur sig. Því auðvitað eiga konur sem uppfylla ekki þær ströngu útlitskröfur sem Vefpressan ehf. gerir til kvenna ekkert að vera að birta myndir af sér af netinu. Því það er einfaldlega „bara óhugnalegt“, svo ég vitni í grein sem birtist nýverið á Pressunni.

Og myndirnar af konunum sem fylgja eru sannarlega óhugnalegar og hljóta að fylla hvern þann sem skoðar ógeði.

Þar má sjá hvorki meira né minna en 10 myndir sem konur dirfðust að birta af sér á opinberum samskipta- og spjallvefum!

Bíræfnin í þessum konum gengur náttúrulega jafn mikið fram af mér og blaðamanni Pressunnar.

ATH AÐ VIÐKVÆMIR ERU VARAÐIR VIÐ ÞVÍ AÐ SKOÐA ÓHUGNAÐINN Í MYNDEFNINU SEM BIRTIST HÉR AÐ NEÐAN.

Í grein Pressunnar kemur fram að á internetinu finnist t.d. konur yfir kjörþyngd sem hika ekki við að birta myndir af sér þarsem þær eru léttklæddar:


Rauðhærð kona hefur sett sjálfmynd á netið og kært sig kollótta um þau áhrif sem þessi óhugnaður getur haft á góðborgara:


Og síðast en ekki síst þá má í greininni finna dæmi þess að jafnvel hafi gráhærð kona birt mynd af sér á brjóstahaldaranum einum fata:


Ég veit að þið eruð jafn sjokkeruð og ég, lovers.

En við getum þó alltént þakkað fyrir að starfsfólk Vefpressunnar ehf. sé sífellt á tánum og alltaf á vaktinni.

Við skulum bara vona að einhverjar konur yfir kjörþyngd, rauðhærðar konur og gráhærðar lesi þessa frétt og átti sig á óhugnaðinum sem útlit þeirra er og þær sjái í kjölfarið sóma sinn í því að hlífa öðru fólki við því að þurfa að horfa á þær.

xoxo
-h

4 comments:

  1. og sem betur fer passar pressan uppá að fjalla eingöngu um íþróttir kvenna útfrá klæðaburði þeirra og búningunum... konur sem spila fótbolta í bikiní er auðvitað miklu flottara en þessar brussur á HM í "kvenna" knattspyrnu.

    ReplyDelete
  2. Frábær pistill :-) takk!!

    ReplyDelete
  3. þetta ættu allar konur að taka til sín.

    ReplyDelete
  4. Ég byrja daginn alltaf á því að þakka Vefpressunni fyrir að leggja mér lífsreglurnar. Án þeirra hefði ég ekki hugmynd um hvernig ég á að haga mér sem kona!

    ReplyDelete