Tuesday, July 27, 2010

Náttfitt dagsins

Það er varla til neitt verra en óþægilegar náttbuxur. Eiginlega hljóta þær að stríða gegn einhverju náttúrulögmáli (og því ættu bæði eðlis- og guðfræðingar að vera uggandi yfir því að óþægilegar náttbuxur séu þrátt fyrir allt, ekki bara til, heldur algengar).

Því finnst mér, kæru tískuunnendur, betra að hafa þær vel við vöxt, og þær mega alls ekki vera þröngar í mittið.

En leiður fylgikvilli víðra náttbuxa er óhófleg sídd. Einsog ég nefndi hér í öðru bloggi má hæglega girða þær ofaní sokka, og það hentar vel á útmánuðum. En á sumrin vill maður stundum vera berfættur heima hjá sér og þá vandast málið. Ég er ekki ennþá búin að leysa þetta svo viðunandi sé, en í bili hef ég fyrir sið að stinga höndum í báða vasa og hífa þær upp þegar ég þarf að komast ferða minna.

En vindum okkur að kjarna málsins, átfitti dagsins, en þar koma of síðar náttbuxur einmitt nokkuð við sögu.


Bolur: Grænn karlmannsbolur með hvítu tré sem keyptur var á markaði í Bangkok og hljóp talsvert í þvotti. Það er skrýtin lykt af honum sem hverfur ekki þrátt fyrir ítrekaða þvotta. Ég ræð lesendum þó frá því að draga af því ályktanir um annaðhvort Bangkok eða þvottavélina mína.

Buxur: Flónelsnáttbuxur sem kærastinn fékk í jólagjöf frá tengdó. Þær eru mjög stórar, og þar af leiðandi ákjósanlegur klæðnaður. Einsog sést er síddin töluverð.

xoxo
-h

6 comments:

  1. Ég á Hello Kitty náttbuxur sem eru í kvartsídd. Mér finnst þær mega þægilegar og pirra aldrei tásurnar! Frábært blogg btw. :D

    ReplyDelete
  2. Oh ég þoli samt ekki kvartbuxur afþví að þá þarf maður að vera búinn að raka á sér lappirnar.

    ReplyDelete
  3. Ég á náttbuxur sem hægt er að þrengja og binda neðst. Þá fara þær aldrei of langt niður. En annars mæli ég með því að stytta þær bara aðeins. Það þarf ekki mikla saumahæfileika til þess (gætir jafnvel sett spotta inn í faldinn til að hægt sé að þrengja þær að vild)!
    -St3rz

    ReplyDelete
  4. Því miður hef ég ekki örðu af saumahæfileikum. Og ég myndi ekki treysta mér til þess að setja spotta inní faldinn hjálparlaust.
    Ég var meira svona að velta fyrir mér límbandi, heftara eða teiknibólum...

    ReplyDelete
  5. málið er að skella hárteyjum utan um buxurnar við ökkla og þannig má á auðvelfan hátt hafa hemil á síddinni : )
    takk fyrir skemmtilega lesningu!
    María

    ReplyDelete
  6. oooog María fær verðlaun fyrir besta húsráð vikunnar!
    VERÐI ÞÉR AÐ GÓÐU OG TAKK!

    ReplyDelete