Sunday, July 25, 2010

Nýtt tískublogg

Á internetið vantar sárlega fleiri tískublogg; blogg þarsem höfundurinn skrifar um tísku/hönnun/frægt fólk/útsölur/skó sem hann langar í og hefur ekki efni á, og birtir myndir af fötum sem hann kaupir og velur saman sjálfur. Reynslan hefur líka sýnt að það getur gefið vel að halda úti slíku bloggi. Dæmi eru til þess að höfundar fái send ókeypis föt og töff dót og sé jafnvel boðið að sitja á fremsta bekk á tískusýningum, og mig hefur alltaf langað til að kaupa mér beyglu í NY.

Ég á nokkur föt, ég nota þau gjarnan og vel þau saman sjálf. Hrifnust er ég af fötum sem hægt er að sofa í, fara á fætur í, vera í heima allan daginn að hanga í tölvunni/lesa/skrifa/horfa á vídjó/borða hrökkbrauð, og fara að sofa í aftur um kvöldið.
Gott dæmi um þennan stíl er þetta átfitt (mynd tekin síðasta sumar):


Buxur: Náttbuxur sem tengdó gaf mér í jólagjöf. Þær eru of síðar, einusinni flækti ég mig í þeim og datt, en ég leysi það með því að girða þær ofaní gula sokka.

Kjóll: Náttkjóll sem mamma mín keypti sér á næturmarkaði í Taipei, en hann minnkaði svo mikið í þvotti að hún gaf mér hann.

Bolur: Keyptur á útsölu í Smáralind.

Sokkar: H&M.

Hár: Safnaði því sjálf.

Eiginlega hefði ég átt að byrja á þessu bloggi í vetur, því þá klæddist ég eingöngu slíkum fatnaði, og fór ekki útúr húsi nema u.þ.b. tvisvar í viku til að fá mér bjór og/eða mæta í skólann. En nú er ég því miður að vinna á virkum dögum og er því tilneydd að fara í önnur föt og yfirhafnir fimm daga vikunnar. Færslur gætu því einskorðast við helgar í nánustu framtíð, nema þið, kæru lesendur, hafið heppnina með ykkur og ég verði atvinnulaus í haust, og þá lofa ég bloggveislu.

En það eru ýmsar hliðar á inniklæðnaði, og í þessu bloggi kem ég til með að ræða klæðnað á kósíkvöldum, þynnkuföt, sófabuxur, ósamstæða sokka og margt, margt fleira.

xoxo

-h

No comments:

Post a Comment