Ég á nokkur föt, ég nota þau gjarnan og vel þau saman sjálf. Hrifnust er ég af fötum sem hægt er að sofa í, fara á fætur í, vera í heima allan daginn að hanga í tölvunni/lesa/skrifa/horfa á vídjó/borða hrökkbrauð, og fara að sofa í aftur um kvöldið.
Gott dæmi um þennan stíl er þetta átfitt (mynd tekin síðasta sumar):

Buxur: Náttbuxur sem tengdó gaf mér í jólagjöf. Þær eru of síðar, einusinni flækti ég mig í þeim og datt, en ég leysi það með því að girða þær ofaní gula sokka.
Kjóll: Náttkjóll sem mamma mín keypti sér á næturmarkaði í Taipei, en hann minnkaði svo mikið í þvotti að hún gaf mér hann.
Bolur: Keyptur á útsölu í Smáralind.
Sokkar: H&M.
Hár: Safnaði því sjálf.
Eiginlega hefði ég átt að byrja á þessu bloggi í vetur, því þá klæddist ég eingöngu slíkum fatnaði, og fór ekki útúr húsi nema u.þ.b. tvisvar í viku til að fá mér bjór og/eða mæta í skólann. En nú er ég því miður að vinna á virkum dögum og er því tilneydd að fara í önnur föt og yfirhafnir fimm daga vikunnar. Færslur gætu því einskorðast við helgar í nánustu framtíð, nema þið, kæru lesendur, hafið heppnina með ykkur og ég verði atvinnulaus í haust, og þá lofa ég bloggveislu.
En það eru ýmsar hliðar á inniklæðnaði, og í þessu bloggi kem ég til með að ræða klæðnað á kósíkvöldum, þynnkuföt, sófabuxur, ósamstæða sokka og margt, margt fleira.
xoxo
-h
No comments:
Post a Comment