Fyrir ógeðslega löngu þá var ég beðin um að skrifa fegrunarpistil fyrir tímarit Hernaðarandstæðinga. Ég ætlaði að vera búin að birta hann fyrir löngu en gleymdi því.
En hér kemur hann núna. Afsakið biðina.
***
Ég er helsti sérfræðingur landsins í fegrunum, megrunum og tísku, og var því beðin um að leiðbeina ykkur um fallegt útlit og hvernig á að vera töff. Ég ákvað að taka þessari áskorun, þó ég telji að það séu afar litlar líkur á árangri (ég hef séð myndir af ykkur).
Rakaðu af þér skeggið. |
Því herir eru töff. Hermenn og -konur fá að vera í töff búningum með töff hárgreiðslu og þau fá að vera með töff byssur, þau fá að vita ýmis töff hernaðarleyndarmál á undan almúganum og herir skilja flestir homma og lesbíur útundan, sem er töff.
Það eru líka gerðar töff bíómyndir um hermenn og -konur þarsem þau bjarga litlum gyðingabörnum, vingast við flækingshunda í Írak og finna falleg lótusblóm í daunillum fenjum Víetnam.
Og ef hernaðarandstæðingar og her færu í slag þá held ég að við vitum öll hver myndi vinna.
Aukinheldur skemmdi það mannorð ykkar mikið þegar þið voruð á móti veru Bandaríkjahers hér á landi. Því það er ekkert minna í tísku í öllum heiminum en að vera á móti Bandaríkjunum, afþví að bandarísk þjóð er besta þjóð í heimi, afþví að Bandaríkjamenn fundu uppá Baconnaise.
Þannig að ef þið viljið vera töff er fyrsta ráðlegging mín til ykkar því að hætta að vera hernaðarandstæðingar.
Ef þið getið ekki hugsað ykkur að hætta því þá er það skásta í stöðunni að hætta að minnsta kosti að líta út einsog hernaðarandstæðingar og vona að enginn komist að þessari annarlegu hneigð ykkar.
Svona farið þið að því:
- Klippið af ykkur dreddana.
- Farið í bað.
- Notið sápu sem er ekki með umhverfisvottun og sem inniheldur mikið af lyktar- og litarefnum.
- Farið í hrein nærföt (ef þið eigið þau yfir höfuð til).
- Hendið öllu úr skápnum ykkar sem er úr hör eða hampi. Flíkur sem eru í karrígulum, heiðbláum, rústrauðum eða mosagrænum litum skal einnig henda. Heimasaumaðar flíkur skulu fara sömu leið.
- Hendið öllum flíkum sem á stendur Free Tibet.
- Hendið öllum flíkum sem eru með mynd af Che Guevara.
- Hendið varasalvanum ykkar.
- Klæðið ykkur í það sem þið finnið í skápnum sem líkist helst klæðnaði venjulegrar manneskju og farið í verslunarleiðangur í verslunarmiðstöð (það er bannað að fara á Laugaveg eða Skólavörðustíg).
Innkaupalistinn:
Snyrtivörur sem innihalda mikið paraben. Þetta er hið allra nauðsynlegasta sem allir þurfa að eiga: dagkrem, næturkrem, síðdegiskrem, augnkrem, svitaholukrem, meik, púður, hyljari, augnskuggi, augnblýantur, eyeliner, undirmaskari til að þykkja augnhár, maskari, sólarpúður, kinnalitur, varablýantur, varalitur og gloss. (Ath. að þessi listi er ekki tæmandi)
Leggingsbuxur með tígrisdýramynstri. (Eða leggings úr alvöru tígrisdýri, ef þið hafið efni á því (eða úr einhverju meira töff dýri sem er í enn meiri útrýmingarhættu, einsog ísbirni (eða górillu)))
Latexgalli með hönskum og hettu.
Sjampó með miklum aukaefnum og helst í bleikum eða fjólubláum umbúðum. Hárnæring, djúpnæring, hárkrem, hársprey og vax úr sömu línu.
Spegill.
Hárbursti.
Augnháraplokkari.
Rakvél.
PC-fartölva frá þýskum framleiðanda sem hagnaðist á dularfullan hátt á tímum seinni heimsstyrjaldar.
Kaffi sem er ekki Fair Trade.
Þrennar blúndunærbuxur.
Farið síðan í dýrustu búðina á svæðinu, bendið starfsmanni á eina gínu og segið: „Ég ætla að fá allt sem hún er í í minni stærð“.
Farið í aðra búð og endurtakið leikinn.
Farið í þriðju búðina og endurtakið leikinn.
Farðu í klippingu. |
Þegar heim er komið mæli ég með því að þið farið síðan á internetið í nýju tölvunni ykkar og skoðið myndbönd af því hvernig á að nota snyrtivörurnar sem þið keyptuð ykkur. Ef þið eigið þess kost skuluð þið einnig reyna að vingast við venjulega manneskju sem hefur töff skoðanir og fylgjast grannt með því hvernig hún klæðir sig, snyrtir og hegðar sér í daglegu lífi.
Þið skuluð einnig lesa daglega ráðleggingar mínar á Tískublogginu, tiskublogg.blogspot.com.
xoxo
-h
Alltaf sama helvítis kjaftæðið í þér! Ég er herstöðvaandstæðingur, raka mig í klofinu og nota bara Shiseido-vörur!
ReplyDeleteStígðu niður úr þessum djöfulsins fýlabeinsturni þínum og andaðu að þér venjulegu lofti!
Takk kærlega fyrir þennan pistil. Ég hef farið vandlega eftir leiðbeiningunum. Ég er meira að segja búin að láta sauma handa mér pels úr skinni af mongólskum villihesti. En eitt sem vefst fyrir mér er þetta með varasalvann. Af hverju á ég að henda honum? Eru þurrar varir fallegar?
ReplyDeleteKv. Ein ráðvillt.
U afþví að maður á að nota varalit í staðinn...
ReplyDeleteShisheido og venjulegt loft er bara fyrir japanskar konur og homma.
Oj, er einhver með hár í klofinu?!
ReplyDeleteMér finnst það bara ógeðsleg óvirðing við lesendur sína að væna þá um að vera homma!
ReplyDeleteþú hlýtur að vera að grínast, annars ertu bara afar fáfróð manneskja
ReplyDeleteParaben er risa stór valdur að brjóstakrabbameini, sniðug þú
ReplyDeleteHvaða heilvita kona er með ekta brjóst nú til dags?
ReplyDelete