Nú er ég alveg stúmm.
Því einsog þið vitið kannski, þá er Bleikt.is næstmestuppáhaldsheimasíðan mín í heiminum (á eftir Pjattrófusíðunni). Það er fyrst og fremst vegna þess að Bleikt.is er eitt af síðustu vígunum á Íslandi þar sem enn er barist ötullega gegn kvenrembum (femínistum) enda hefur síðan verið í fylkingarbrjósti þeirra sem reyna að kæfa í fæðingu það sem sannarlega má kalla fáránlega tilburði til "kvenfrelsis".
Því síðan hefur alla tíð köttað krappið og sagt konum sannleikann um hin ýmsu málefni. Sem dæmi mætti nefna þessa kröfu sem nú er uppi um að karlar eigi að taka þátt í að þrífa heimilið líka (sem er náttúrulega fáránleg) enda var það skýrt tekið fram á síðunni að ef svo ólíklega vill til að konur verði leiðar á þrifum þá óska þær sér "eiginkonu eða töfrabarnfóstru" (sjá umfjöllun mína um þann pistil hér).
Þær hafa einnig hamrað á viðteknum sannindum einsog þeim að konur séu konum verstar, "enda er ekkert konum eðlislægra en að finna kvenlega veikleika annarra kynsystra sinna og níðast á þeim", og þær hafa brýnt fyrir konum að gæta þess að vera aldrei sterkari en karlar því það geri bara lítið úr þeim. Þær fara heldur ekki dult með það að flestar konur þurfi að léttast og hafa jafnvel lagt sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum og síðan ber þannig beinlínis ábyrgð á því að þónokkur kíló hafi fokið! Enda er þetta kvenþjóðinni fyrir bestu, því einsog allir vita er ekkert dónalegra en kona sem byrjar með manni og vogar sér svo að bæta á sig og kaupa sér flíspeysu.
Þá hamra þær á þeim viðteknu sannindum að karlar geti ekki komið að barnauppeldi og að rauðsokkum finnist allir karlmenn vera aumingjar.
Ég gæti haldið lengi áfram að telja fram dæmi um það hvernig síðan hefur lagt sig fram við að koma í veg fyrir að konur ofmetnist og minna þær á þá hver þeirra skör sé í lífinu (hint: sú lægri), en ég held ég láti þetta nægja í bili.
Að ofansögðu skiljið þið þá væntanlega hversvegna ég hef haft síðuna í svo miklum metum, enda hafði mér skilist að þessi svokalla "kvennabarátta" kvenrembanna væri eitthvað sem samræmdist alls ekki þeirra ritstjórnarstefnu, enda sagði ritstjórinn þessi fleygu orð í eftirminnilegu viðtali sem birtist skömmu áður en vefurinn fór í loftið: "Við þurfum ekki að berjast fyrir réttindum kvenna, við erum konur með réttindi."
Þið getið því ímyndað ykkur hversu mikið mér brá þegar ég las þessa grein eftir Klöru Egilson. Þessi kona þykist vera hluti af ritstjórnarteymi Bleikt.is, en af grein hennar og viðtalinu við Hlín má sjá að Klara vinnur bersýnilega leynt og ljóst gegn þeirri ritstjórnarstefnu síðunnar sem mörkuð var í upphafi. Það er greinilegt að hún hefur laumað sér inná vefinn undir fölskum formerkjum og hún hefur smátt og smátt verið að herða snöruna að hálsi Hlínar. Og nú, sex mánuðum eftir að síðan var stofnuð, eru ítök hennar orðin nægilega mikil til að hún þori loks að sýna sitt rétta andlit.
Og það andlit er ekki fagurt lovers, því hún Klara er femínisti.
Já, ég trúði heldur ekki eigin augum, en hún segir það hreint út. Og það sem meira er þá sviptir hún hulunni af þeim skemmdarverkum sem hún hefur unnið á ritstjórnarstefnu síðunnar, því nú kemur í ljós að Klara hefur leynt og ljóst unnið að því að fjalla um konur sem hún telur þurfa að berjast fyrir réttindum sínum!
Og allt þetta gerir hún blygðunarlaust, þrátt fyrir að ritstjórinn hafi sjálf komið fram og lýst því sérstaklega yfir að síðan væri ekki fyrir konur sem þyrftu að berjast fyrir réttindum sínum.
Ég er sannarlega í öngum mínum yfir þessu. Hún Hlín á betra skilið en að flugumaður laumi sér inní raðir hennar og knésetji veldi hennar innanfrá.
Hún hefði átt að þiggja krafta mína þegar ég bauð þá fram.
xoxo
-h
OMG! Kíktu á síðu 4 í feminístablaðinu (http://www.visir.is/ExternalData/pdf/serblod/SB110618.pdf). Flott og feminíst blogg my ass! Þetta er sko árás fyrir neðan belti!
ReplyDeleteHA?! Nei nú er ég sko brjáluð! Þessar loðnu kvenrembur eru greinilega að reyna að beita öfugri sálfræði til þess að blekkja lesendur mína og fá þá til að hætta að lesa síðuna, sem svo aftur á móti minnkar komandi auglýsingatekjur mínar.
ReplyDeleteEiginlega er þessi aðför þeirra að mér hlægilega barnaleg og vafalítið er hún dæmd til þess að mistakast.
Ég treysti því að þið látið ekki blekkjast, lovers, og að þið munið að það á aldrei að treysta loðinni konu.
xoxo
-h