Monday, March 7, 2011

brothætt sjálfsmynd karlmanna

Hola lovers,


Ég vona að þið afsakið bloggleysið, en sannleikurinn er sá að ég hef verið iðin við að skrifa lífstílsbókina sem kemur út í haust, og það er bara þannig að þegar maður hefur mikið að gera við að raka sig að neðan, blogga, skoða sig í spegli og skrifa bók þá verður bara eitthvað undan að láta og því miður var það bloggið (afþví ég kann að forgangsraða).

En í lífstílsbókinni fjalla ég einmitt töluvert um brothætta sjálfsmynd karlmanna og varð því glöð þegar ég rakst á þessa grein, því höfundur hennar er á svipuðum slóðum í hugvekju sinni og ég er í minni lífstílsbók.

Því þó karlmenn séu nær undantekningarlaust sterkari, gáfaðri og hæfileikaríkari en kvenfólk, þá eru engu að síður dæmi um það að sjálfsmynd þeirra sé í öfugu hlutfalli við atgervið.

Og þá kemur það í hlut kvenna að taka saman höndum og styrkja hana.

Hún Klara Egilson hittir nefnilega naglann á höfuðið í grein sinni þegar hún skrifar: „Þú mátt aldrei vera sterkari en hann. Það gerir bara lítið úr manninum.“

Eiginlega er það sárara en tárum taki að hún finni sig knúna til að leggja áherslu á þessa staðreynd sem ætti að vera viðtekin sannindi, en ætli það að hún telji þörf á því að taka þetta sérstaklega fram sýni ekki bara að enn er rík ástæða til að brýna þetta fyrir ungum og óreyndum konum sem hafa ekki fengið nægilega gott uppeldi (og við þurfum að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að því miður eru til stúlkubörn sem eru aldar upp af geðsjúkum einstaklingum sem innræta þeim annan og verri hugsunarhátt (en ég bið ykkur að hafa í huga að ekki er við stúlkurnar sjálfar að sakast, heldur foreldra þeirra (og að vissu leyti samfélagið (og þar með okkur sjálf, fyrir að láta þennan ósóma sem femínisminn er viðgangast (þannig að lítið í eigin barm, áður en þið dæmið))))).

En styrkur felst í ýmsu, s.s. ósérhlífni, hæfileikum, heiðarleika, hárri stöðu, gáfnafari, kímnigáfu og svo mætti lengi telja. Það er því óhætt að slá því föstu að í greininni hafi Klara ekki eingöngu átt við líkamlega yfirburði og því má heimfæra tilvitnunina í Klöru yfir á flest allt sem jákvætt má telja í fari manneskju.

Ég finn mig knúna til að leggjast á sveif með Klöru og brýna eftirfarandi fyrir kynsystrum mínum, og sérstaklega saklausum fórnarlömbum kvenrembunnar (femínismans):

Konur skulu ávallt gæta þess að vera ekki gáfaðri, hæfileikaríkari, heiðarlegri, fyndnari eða hærra settari en karlmenn í kringum þær, og fyrir alla muni skulu þær forðast að vera með hærri laun en þeir.

Því það gerir bara lítið úr manninum.

xoxo
-h

6 comments:

  1. ég segi bara eins og maðurinn minn um helgina "við verðum að líta í eigin garð" og stoppa þessa hegðun

    ReplyDelete
  2. Mikilvægast er samt að fara eftir því sem Anna Birgis skrifar (http://www.bleikt.is/lesa/egerkona/)

    „Verum sæt saman en ekki bara meðan veiðarnar standa yfir“

    Ást <3

    ReplyDelete
  3. Ég er snortin. Klökk. Kærar þakkir.

    ReplyDelete