Monday, March 21, 2011

fjármunir karlmanna og hjól atvinnulífsins

Hola lovers,

Einsog þið vitið þá er ekkert minna sexí en kona sem hefur áhuga á stjórnmálum. Ég er alltaf meðvituð um að hámarka kynþokka minn á öllum stundum (sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég sef alltaf í sokkaböndum og með varalit (hinar eru persónulegar og ég vil síður deila þeim á alnetinu)) og því reyni ég eftir fremsta megni að forðast fréttir og umræður um stjórnmál. En sum mál eru bara svo hávær að umræðan um þau smitast jafnvel inná lífstílssíður og tískublogg (sem er það eina sem ég les á netinu) og svo maður tali nú ekki um Facebook. Dæmi um pólitísk málefni sem maður tekur nánast upp með osmósu er þetta Icesave (sem ég hef gert mér far um að skilja ekki (sem er erfitt, því það er svo ógeðslega einfalt (og ég er svo gáfuð))).

Annað dæmi um pólitískt málefni sem mér hefur ekki tekist að forðast er niðurskurður hjá ríkinu, og sorrí lovers, en ég bara get ekki annað en haft skoðun á því. Ég geri mér grein fyrir því að með því að hafa skoðun á þessu máli þá er ég mögulega að traðka á brothættri sjálfsmynd einhverra karlmanna (með því að hafa skoðun) og ég mun líklega missa þónokkuð af kynþokka mínum í ykkar augum (get ég bætt ykkur þetta upp með því að birta mynd af kloflausu nærbuxunum mínum?), en ég get bara ekki á mér setið.

Nýverið voru birtar upplýsingar um að fækkað hafi verið um 540 stöðugildi hjá ríkinu í niðurskurði í kjölfar kreppunnar. Þar misstu 470 konur atvinnu sína og 70 karlar. Einnig er áformaður mikill niðurskurður í leik- og grunnskólum, en þar starfa að mestu konur.

Á sama tíma eru uppi áform um að ríkið fara út í dýrar framkvæmdir til að „koma hjólum atvinnulífsins í gang“ og búa til störf handa karlmönnum í byggingariðnaði.

Ég fagna þessari þróun ákaft. Því einsog og þið vitið er sjálfsmynd karlmanna ákaflega brothætt, og séu þeir mjög lengi án atvinnu verður sjálfsmynd þeirra afar löskuð og getur jafnvel orðið fyrir varanlegum skaða. Konur aftur á móti skilgreina sig ekki út frá starfi sínu, stöðu eða menntun, heldur er það útlit þeirra, hjúskaparstaða og þyngd sem mótar þeirra sjálfsmynd. Af framansögðu ætti því að vera dagljóst að störf karlmanna eru mikilvægari en störf kvenna, og það gleður mig að stjórnvöld skuli gera sér grein fyrir því.

Einhverjir hafa bent á að ríkið sé, með því að skera niður í heilbrigðiskerfi á sama tíma og dýrar framkvæmdir eru áformaðar, einungis að færa fé úr einum vasa í annan, en það er allsendis ósatt.

Það sem þarf að einblína á núna er að koma samfélaginu í gang aftur eftir hrunið. Til þess þarf að dæla peningum út í samfélagið með því að skapa atvinnu svo fólk fái laun, geti borgað af lánunum sínum og geti keypt vörur eða þjónustu, sem svo aftur skapar meiri atvinnu o.s.frv. Og það er löngu vitað að þeir peningar sem karlar fá greidda eru miklu betri en þeir peningar sem konur hafa á milli handanna. Peningar úr karlmannsveski eru miklu meira atvinnuskapandi en peningar úr kvenmannsveski, og fjármunir karlmanna koma hjólum atvinnulífsins fyrr og betur í gang en það fé sem kvenfólk aflar.

Þess vegna eru aðgerðir ríkistjórnarinnar nú hárréttar.

xoxo
-h

Og hér, svo ykkur finnist ég aftur sexí, fáið þið að sjá kloflausu nærbuxurnar mínar (myndin er tekin áður en ég klippti gatið).

4 comments:

  1. Heyr heyr! Þetta skilja femínistabeljurnar ekki.

    ReplyDelete
  2. Þær skilja heldur ekki að til þess að skapa tekjur handa ríkinu sem borgar svo konunum laun þarf að smíða alls kyns apparöt.

    En það er auðvitað smáatriði hvaðan tekjurnar koma í ríkiskassann.

    ReplyDelete
  3. Já, auðvitað er miklu mikilvægara að karlmenn smíði alls kyns apparöt og byggi mislæg gatnamót en að konur skeini gamalmennum og snýti grunnskólabörnum!

    ReplyDelete