Thursday, April 21, 2011

Biflía Tískubloggsins, eða hin nýuppgötvaða gullna regla ástarsambands á milli manns og konu

Hola lovers,

Ég er um þessar mundir að skrifa sambandskaflann* í lífstílsbók minni. (Og mér finnst notabene réttast að upplýsa ykkur um nýjan vinnutitil. Hann er ekki lengur Lífstíllinn: Megranir, tíska, Bob & beikon, heldur ákvað ég í samráði við útgefendur mína að vera ögn óræðari og mínímalískari (því það er í tísku) og núverandi vinnutitill er því einfaldlega Hola, lovers.)

Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að sambandskaflinn hafi beinlínis vafist fyrir mér, en flestir vita að sambönd eru flókin. En þau eru jafnframt lífsnauðsynleg öllum sem ætla að koma sér á framfæri og öðlast góða stöðu í lífinu.

Um þau gilda margar, flóknar og óskrifaðar reglur. Mér vitanlega hefur enginn reynt að festa þær niður á blað áður og því er ég sannarlega að vinna frumkvöðlaverk fyrir mannkynið einsog það leggur sig (að ógleymdum mannfræðingum framtíðarinnar (sem munu vafalaust þakka mér óeigingjarnt starf mitt og hafa nafn mitt í hávegum löngu eftir að daga mínir eru taldir (og ef ég verð heppin munu þeir jafnvel nefna gallabuxnategund í höfuðið á mér (einsog þeir gerðu fyrir annan (og síðri) mannfræðing)))) og raunar er það hin mesta hneisa að mér hafi ekki að fyrrabragði verið boðin ritlaun í síðustu úthlutun Launasjóðs íslenskra blogglistamanna.

En í sambandskaflanum fjalla ég einnig töluvert um ástarsambandið á milli manns og konu. Það er víðfemt efni og sannarlega af mörgu að taka. En þarsem ég er ekki að frumsemja efnið, heldur er ég, einsog ég nefndi hér að ofan, að rita niður áður óskrifaðar samfélagsreglur, þá vil ég síður líta á mig sem höfund þessa kafla. Hlutverk mitt er frekar í átt við loftnet sem fangar ósýnilegar bylgjur andrúmsloftsins (sem eru þrátt fyrir allt til staðar, þó þið auðnuleysingjarnir komið ekki auga á þær) og þýðir þær yfir í ómþýða tóna í útvarpstæki; yfir í eitthvað sem jafnvel almúgamaður eða -kona fær skilið.

Eiginlega mætti líta á kaflann sem Biflíuna sjálfa, og mig sem Móses (þó ég hefði aldrei klæðst svona ógeðslegum kufli ótilneydd), en hann fann einmitt steintöflurnar með guðs orði og færði þær niður af fjallinu, og til fólksins. Eða, svo ég noti aðra myndlíkingu (sem þið skiljið kannski betur); Ég er líktog hinn nafnlausi ritari sem festi guðs orð niður á bókfell, svo fólk gæti notið þess um aldir alda.

Það ætti því ekki að koma ykkur á óvart, lesendur kærir, að ég hafi komist að því að sambandskafli minn, líkt og Biflían sjálf, hverfist um eina setningu sem bæði súmmerar upp efni verksins í heild sinni en vísar jafnframt útfyrir sig um leið. Því Biflían, og jafnvel hið kristna siðferði einsog það leggur sig, kristallast í einni setningu; Gullnu reglunni, sjá nánar hér.

Í skrifum mínum hef ég nefnilega komist að því að sambandskafli lífstílsbókar minnar, og hið sambandslega ástarsiðferði á milli karls og konu, kristallast einnig í einni setningu**. Hún er:

Vertu undirgefin, annars verður þú yfirgefin.

xoxo
-h

*Sambandskaflinn er ætlaður konum til aflestrar. Karlmenn þurfa, eðli málsins samkvæmt, aldrei að sýna undirgefni.

**Konur, ekki halda að þessi setning nægi ykkur til að þóknast karlmanninum í lífi ykkar.
Til þess að tryggja farsælt ástarsamband við karlmann þurfið þið að kaupa bókina mína.

2 comments:

  1. http://2.bp.blogspot.com/-e21EHIOy89g/Ta7GlhRyjjI/AAAAAAAAIXs/qOUpUUJuS1s/s1600/design-fetish-bacon-roses.jpg

    ReplyDelete