Tuesday, December 14, 2010

konur, hamingjusamir menn og falleg heimili

Hola lovers,

Einsog þið eflaust vitið er komin nýr vefur í loftið sem þjónar hagsmunum og áhugasviði ykkar, nefnilega Bleikt.is - Vefur fyrir drottningar. (Þið munið kannski að ég stakk raunar uppá því við ritstjórann að hún nefndi vefinn frekar beislitað.is eða gratt.is, til að koma í veg fyrir að hann yrði bendlaður við kvenrembu (feminísma), en því miður tók hún þær ábendingar mínar ekki til greina, og ég efa ekki að vefurinn væri mun farsælli ef hún hefði gert það. En það þýðir ekki að gráta það, þarsem þetta er hennar missir, ekki minn, þó mér þyki þetta að sjálfsögu miður, aðdáendur kærir.)

Það er þó nokkuð mikið af efni inni á þessum vef og ég verð að játa að ég hef ekki getað kynnt mér það allt til hlítar, þar sem ég á svolítið erfitt með að lesa svona bleika heimasíðu (hugrenningatengslin við kvenremburnar, þið vitið) og að auki eru þau greinarkorn sem ég hef rekist á þarna svo meitluð, hárbeitt og þungmelt að ég á hreinlega í erfiðleikum með að krafsa mig í gegnum þau.

En þó eru tvær greinar sem ég las og líkaði vel.

Önnur þeirra er eftir hana Hlín mína og heitir „6 ráð handa þreyttum, útivinnandi konum“ og hin er viðtal við kvennaljómann Svein Andra.

Í báðum greinum er tæpt á konum og skyldu þeirra við heimilið og heimilisstörfin.

Hlín kemur með góðar ráðleggingar til giftra, útivinnandi mæðra, og bendir réttilega á að flestar þeirra eigi í erfiðleikum með að halda fullkomið heimili og vinna úti. Hún biður konur að gleyma ekki hvers vegna þær eru á annað borð útivinnandi:
„Rannsóknir sýna að konur fara til vinnu af sömu ástæðum og menn. Það snýst ekki bara um fjárhagslegt sjálfstæði eða að nauðsynlegt er að vera í launaðri vinnu til þess að geta sett mat á borðið. Konur fara til vinnu til þess að vera persónulega fullnægðar, það að vinna veldur því að þær finna til sjálfstæðis, auk þess sem það gefur þeim ákveðna stöðu í samfélaginu og tækifæri til þess að umgangast annað fólk. Konur finna tilgang, áskoranir og möguleika í að þróa starfsferill sinn veldur því að þeim líður vel með sjálfar sig.“

Hún nefnir einnig að flestar þeirra hafi óskað þess að eiga „eiginkonu, eða töfrabarnfóstru sem myndi taka til, ganga frá þvottinum, fá börnin til þess að hætta að rífast, versla í matinn, borga reikningana og undirbúa kvöldmat, allt án þess að blása úr nös.“
Og ég verð að viðurkenna að ég hef oft horft á kærastann og óhreyft uppvaskið í vaskinum og óskað þess að fjölkvæni væri löglegt á Íslandi, því þá væri líf mitt mikið auðveldara og skemmtilegra og ég gæti annaðhvort einbeitt mér að vinnunni eða þrifum.

Því gleður það mig að sjónarmið mitt og Pjattrófanna um að karlmönnum sé einfaldega ekki eðlislægt að þrífa, þvo þvott, elda matinn og sjá um börnin, fái nú frekari hljómgrunn á einni af vinsælustu síðum landsins, og rennir þessi pistill Hlínar enn frekari stoðum undir þá kenningu mína að allar mæður séu í raun einstæðar, því þegar kemur að því að halda heimili og ala upp börn eru karlmenn sannarlega verri en enginn. Ef skoðanir okkar hljóta nægilegan hljómgrunn, þá hlýtur það að vera tímaspursmál hvenær stjórnvöld átta sig á því að það er heillavænlegast fyrir alla að leyfa fjölkvæni hér á landi. Það yrðu allir hamingjusamari, og heimili landans hreinni.

Það er mikilvægt að halda heimili og hafa það fallegt og einsog Hlín segir: „Við vitum allar að dagur (sic) húsmóður er aldrei lokið“. Hlín biður konur þó að setja sig í spor eiginmanna sinna og gleyma ekki að sinna þeim, þó heimilisamstrið kalli, því „bæði börnin þín og maður myndu taka hamingjusama mömmu í óskipulögðu heimili fram yfir óánægða mömmu í heimili sem gæti ekki verið fullkomnara.“

Sveinn Andri tekur í sama streng og biður þrifa- og puntóðar konur vinsamlegast um að taka tillit til karlmanna. Hann segir: „Margt í fari kvenna getur verið bæði kostur og ókostur. Auðvitað er það kostur hversu umhugað þeim er að hafa heimilið fínt og börnin vel til höfð, en að sama skapi er það ókostur að þurfa alltaf að vera að blanda karlmanninum inn í þetta.“

Þannig að kæru konur, vinsamlegast sýnið mönnum ykkar þá tillitsemi að halda heimilinu hreinu án þess að vera alltaf að þrífa. Eða, ef þið ráðið hreinlega ekki við þrifnaðarþörfina þá skuluð þið sýna þeim þá lágmarkskurteisi að standa ekki í því þegar þeir sjá til. Þið getið gert það á nóttunni eða þegar karlmaðurinn bregður sér af bæ til að gera einhverja merkilegri hluti.

Að auki ættu allar konur/kærustur með sjálfsvirðingu að fara reglulega naktar með bjór og samloku til manna sinna til að tilkynna að leikurinn í enska boltanum sé byrjaður og spyrja þá hvað þá langar að gera í leikhléi.

Sveinn Andri veit hvað hann syngur. Það er engin tilviljun að hann er ógiftur og eftirsóttasti piparsveinn landsins.

xoxo
-h

11 comments:

  1. Ég skil ekki að hann skuli vera ólofaður. Myndi gjarnan vilja þrífa fyrir hann á milli þess sem ég færði honum samlokur og bjór, auðvitað kviknakin. Svo er þetta augljóslega rétt hjá honum að konur hafa minni þörf á að skemmta sér, enda eiga þær oftast engin áhugamál fyrir utan megranir og heimilishald....

    ReplyDelete
  2. Eftirsóttasti piparsveinn landsins er ekkert svo ósvipaður George Costanza...
    http://www.youtube.com/watch?v=LHchl4AxsE0

    ReplyDelete
  3. Takk fyrir þennan góða og lærdómsríka pistil, hann kennir mér margt og ég sé að ég þarf að taka á ýmsu í mínum málum. Kannski mun mér þá ganga betur að ná í einn svona mann í framtíðinni.

    ReplyDelete
  4. já, ég hnaut einmitt um þessa grein og brá heldur í brún þegar hann var titlaður eftirstóttur piparsveinn... datt ekki í hug að hann gæti verið einhleypur:)

    ReplyDelete
  5. Ég er farin heim að hætta með mínum ömurlega kærasta til að reyna að freista þess að ná í þennan! OMG! Hvílíkur fengur... Ég mundi sko ekki vera svona ógeðslega leiðinleg beygla sem leyfði honum ekki að leika sér við félagana en ég get ekki alveg lofað því að ég geti haldið rökhugsun og tilfinningum aðskildum... á svoldið erfitt með svoleiðis nebbla!

    ReplyDelete
  6. hahahahaaaa....hafiði séð prófíl myndina af títtnefndum Sveini Andra á Facebook?

    Hann er Súpermann, nema það vantar bara VISKUstykkið á herðarnir svo hann geti flogið!

    ReplyDelete
  7. geturðu bent hlín drottingu á að það bráðvantar "gera-bleikt-punktur-is-að-upphafssíðu-takka" á forsíðuna? eða gætirðu kannski sagt mér hvernig á að gera það handvirkt þar sem mér er ekki "eðlislægt" að mastera flókin tölvufix

    bísú

    ReplyDelete
  8. Ó mæ, mikið er ég glöð að hafa fundið þessa síðu. Ég einnig hef verið að gera allt vitlaust og þarf heldur betur að hugsa ráð mitt. Ég hef notið góðrar aðstoðar míns maka og barna á unglingsaldri við heimilisstörfin. Stundum leyfi ég mér meira að segja að bregða undir mig betri fætinum og skreppa í kaffi til vinkvenna og á meðan (bíræfnin í mér) þá eru maki minn og drengir jafnvel að þrífa! Ég skammast mín svo fyrir að játa hér syndir mínar en þar að auki hef ég vogað mér að afla mér menntunar, er meira að segja í fullu námi sem ég er að fara að skrá mig úr strax á morgun. En ég skil eiginlega ekki af hverju mæður þessa lands eru ekki allar heimavinnandi. Þá gætu þær alltaf verið vel til hafðar fyrir eiginmennina þegar þeir koma heim úr vinnu, börnin þyrftu ekki að skammast sín eins mikið fyrir þær og þær gætu jafnvel alltaf verið tilbúnar með nýbakað góðgæti fyrir börnin og mennina þegar þau koma frá því að sinna sínum hlutum. Takk kærlega fyrir allar þessar góðu ráðleggingar kæra H. Ég mun lesa þig áfram systir.

    ReplyDelete
  9. "klórbleikt.is" (með vísan í að klámmyndastjörnurnar klórbleikja víst á sér rassgatið)

    kv. Snjáka

    ReplyDelete
  10. Þú ert snillingur!!!

    ReplyDelete