Saturday, December 18, 2010

lesið á milli línanna

Hola lovers,

Það kennir ýmissa grasa á vefritinu Bleikt.is, en einsog ég nefndi hér í fyrri færslu þá eru greinakornin þar svo djúphugsuð og tyrfin að ég hef átt erfitt með að lesa mig í gegnum þau. Ég las grein sem heitir "Ég veit hvað þið eruð að hugsa" eftir Sævar Poetrix nú fyrr í vikunni, og þar er ekkert léttmeti á ferð. Ég hef verið að melta greinina í nokkra daga og mér varð ekki mikið ágengt, því höfundur virðist oft vera í mikilli mótsögn við sjálfan sig. Hann kemur með ýmsar fullyrðingar og neitar þeim svo í næstu andrá. Ég mátaði ýmis textafræðileg tæki við hana, einsog nýrýni, afbyggingu og freudískan lestur, en það var ekki fyrren ég prófaði díalektískan lestur í anda Hegels að merking greinarinnar varð mér ljós.

Í díalektík sinni reynir Hegel að skilja og útskýra hvernig hugmyndir (og jafnvel menning) þróast. Viðtekin venja eða tesa, er ríkjandi. Svo kemur fram gagnrýni á tesuna, sem er í beinni mótsögn við hana og kallast antitesa. Tesa og antitesa eru ósamrýmanlegar og af þeim sprettur einhver millivegur, eða niðurstaða, kölluð syntesa. Syntesa verður svo að viðtekinni venju, eða tesu, þangað til ný antitesa kemur fram, og ferlið endurtekur sig.

Skýringarmynd 1.

Sævar nýtir sér greinilega þessa hugmyndafræði Hegels og setur fram bæði tesur og antitesur, en það kemur í hlut lesandans að lesa á milli línanna og finna syntesuna.

Með Hegel að vopni gerði ég því aðra atlögu að grein Sævars og hér á eftir fer díalektískur lestur minn á henni.

Tesa: Konur eru með hlutfall á milli mjaðma og mittis sem hríðlækkar greindarvísitölu karla.
Antitesa: Konur vilja láta 25 ára svarta, myndarlega rappara refsa sér fyrir að vera óþekkar.
Syntesa: Á Íslandi eru fáir 25 ára svartir, myndarlegir rapparar með lága greindarvísitölu og því komast margar íslenskar konur upp með óþekkt án refsinga, sem getur varla verið þjóðhagslega hagkvæmt.

Tesa: Höfundur leggst ekki svo lágt að hlutgera konur með því að gefa þeim einkunn.
Antitesa: Höfundur gefur öllum konum sem hann hefur verið með einkunnina 8,5-10.
Syntesa: Höfundur uppgötvaði tilgang lífsins þegar fagrar konur gengu inní herbergi og brostu einsog þær væru ekki næstum því jafn dramatískar og þær í raun eru. Tilgangur lífsins sýnist mér vera að gefa konum einkunn byggða á líkamsvexti.

Tesa: Höfundur hefur einungis verið með konum sem fá einkunnina 8,5-10.
Antitesa: Höfundur hefur raunar verið með þremur konum sem myndu ekki fá einkunnina 8,5-10.
Syntesa: Höfundur er ekki hræddur við tilraunastarfsemi. Hann er óhræddur við að fara nýjar leiðir, og því hafinn yfir alhæfingar.

Tesa: Höfundi finnst konur sem eru yfir 55 kg að þyngd vera ofbeldi og sjónmengun. (Kemur raunar ekki fram í grein, en ég sá þetta haft eftir honum á öðrum vettvangi)
Antitesa: Höfundur elskar konur af öllum stærðum og gerðum fyrir það sem þær eru því hann er alinn upp ásamt fjórum systrum af öllum (fjórum) gerðum.
Syntesa: Konur sem eru yfir 55 kg geta farið í megrun.

Tesa: Þú þarft að semja ræðu fyrir augnablikið þegar að þú tekur á móti verðlaununum fyrir bestu frammistöðu í sjálfsvorkunn innanhúss á árshátíð kynsveltra, einmana og biturra einhleypinga.
Antitesa: Þú þarft ekki að kaupa klósettpappír næsta árið.
Syntesa: Verðlaunin fyrir bestu frammistöðuna í sjálfsvorkunn innanhúss á árshátíð kynsveltra, einmana og biturra einhleypinga eru ársbirgðir af klósettpappír.

Tesa: Það er ekki nógu mikið pláss á internetinu.
Antitesa: Afmæli stúlkna eru fuglabjörg.
Syntesa: Það er ekki pláss fyrir fuglabjörg á internetinu.

Tesa: Konur fá kosningarétt.
Antitesa: Gufusoðinn kúrbítur er borinn fram á jólunum.
Syntesa: Bókin He´s Just Not That Into You kemur út.

Tesa: Sannleikurinn liggur sjálfdauður í vegakanti.
Antitesa: Það er fátækt í heiminum.
Syntesa: Einhver með algjöran skort á hæfileikum þarf að skammast sín.

Tesa: Þennan með algjöran skort á hæfileikum vantar aukapening.
Antitesa: Þú munt klúðra málunum næst.
Syntesa: Babysteps, my  love, babysteps.

Verði ykkur að góðu.

xoxo
-h

17 comments:

 1. haha, afhverju tekurðu setningar úr samhengi til að reyna vera fyndin?

  Gerir ekkert rosalega mikið fyrir þinn málsstað að bulla. Þar að segja gagnrýnin er í raun og veru engin og segir eiginlega að þú hafir ekki neitt til að gagnrýna, sem skilur hans málsstað eftir sterkari en áður en þú gagnrýndir. Svipað og gagnrýna bíómynd en tala ekkert um myndina sjálfa, heldur allt annað en reyna samt að segja að myndin sé slöpp. Gerir þig ómarktæka og auðvelt að hunsa það sem þú segir á þeim grundvelli.

  Ég fíla þetta viðhorf hans ekki, en þú ert bara að bulla og mér hefði fundist frábært ef þú hefðir komið með eitthvað málefnalegt til að rökstyðja skoðun þína, sem ég er sammála.

  ReplyDelete
 2. Minn málstað? Ég hef engan málstað, nema að vera brautryðjandi fegurðar, megrana og tísku á Íslandi.

  Og ég er alls ekki að reyna að gagnrýna málstað greinahöfundar. Ég átti raunar erfitt með að koma auga á hans málstað, meiningu og viðhorf í greininni og var að hreinlega reyna að nota einhver tæki til að finna merkingu orða hans.

  ReplyDelete
 3. Vá! Takk fyrir að setja þetta svona upp...nú skil ég...held ég.

  You make my day :)

  Kv. Ingz

  ReplyDelete
 4. Allar konurnar í lífi mínu fá 10. Enda hafa þær allar verið undir 55 kílóum.

  ReplyDelete
 5. Konur þurfa að vera svo smávaxnar til að vera undir 55 kílóum. Ellefu ára dóttir mín er ekki undir 55 kílóum, en samt hleypur hún hraðar og stekkur hærra en nokkur í árgangnum.

  ReplyDelete
 6. Sjitt
  Ég var komin upp í 57 kg. síðast þegar ég gáði, bara tvennt í stöðunni, laxerandi eða gubbupest. Ekki get ég boðið fólki upp á sjónmengandi ásjónu mína.....

  ReplyDelete
 7. Ég var alveg að bíða eftir því að 25 ára, myndarlegur svartur rappari hæfi fjölmiðlaferil sinn sem pistlahöfundur á bleikt.is. Tími til kominn segi ég! Enda hefur hann ótal margt til málanna að leggja! Þvílíkur demantur.

  ReplyDelete
 8. Við comment nr 2: Greinin hans er svo mikið bull og hrottalega illa skrifuð að það er ekki hægt að svara henni. Nema einhvern veginn svona.
  Glæsileg greining samt h, bara eins og að vera mættur í strauma og stefnur aftur.

  ReplyDelete
 9. babysteps, my love, babysteps!
  ég grét yfir þessum pistli!

  ReplyDelete
 10. þessi rappari hefur kannski bara verið með dvergum. ég held að dvergar séu yfirleitt léttari en 55 kg.

  ReplyDelete
 11. Myndi hiklaust gefa tískublogginu 10.5 í einkunn ef ég gæfi einkunn fyrir pistla. En ég geri það ekki. Enda er ég sjónmengun og yfir dvergamörkum.

  ReplyDelete
 12. Þetta er besta útskýring á díalektík Hegels sem ég hef nokkurn tímann séð. Ætti að vera skyldulesning í Heimspeki 101 í HÍ.

  ReplyDelete
 13. Ég er orðlaus af fræðilegri aðdáun. Þú hlýtur að geta fengið þetta gefið út hjá Hugvísindastofnun HÍ!

  ReplyDelete
 14. takk fyrir að halda þessu bloggi úti!! algjör snilld!

  ReplyDelete
 15. Alveg frábær grein. kv. Tyrfingur

  ReplyDelete