Wednesday, December 29, 2010

áramóta-detox-drykkur Tískubloggsins

Hola lovers,

Nokkrir eldheitir aðdáendur Tískubloggsins hafa haft samband og sagt mér að þeir hafi fallið í freistni um jólin og ekki haldið sig við mataræðið sem ég mælti með, sem er náttúrulega fullkomlega óásættanlegt, en ég er skynsöm, fluggáfuð og yfirveguð mannvera, og ég veit að maður byrgir ekki brunninn eftir að barnið er fallið í hann. Neinei, þá þýðir ekkert annað en að setja á sig uppþvottahanskana, sækja prik með beittum króki á öðrum endanum og fiska krakkann uppúr.

Og þannig skuluð þið, sem skortir alla sjálfsstjórn og eruð með svarta samvisku (þið (og ég) vitið hver þið eruð), líta á þennan áramóta-detox-drykk sem uppþvottahanska sem þvær líkama ykkar af syndinni.

Áramóta-detox-drykkur Tískubloggsins

Innihald:

12 ml kalt vatn
11,5 ml hlandvolgt vatn
7,2 ml vatn við stofuhita
3 ferkantaðir ísmolar
4,7 g af skeljasandi
1,35 teskeið af kalkdufti
2 msk aspartam
3 msk grænn matarlitur

Aðferð:

Hellið kalda vatninu í blandara ásamt aspartami og matarlit og setjið kalkið útí og hrærið létt með pískara úr bronsi. Bætið hlandvolga vatninu og skeljasandinum samanvið og hrærið aðeins betur. Látið svo standa í 4 klst. á meðan þið leyfið blöndunni að jafna sig. Bætið þá vatninu við stofuhita við, ásamt ísmolum, blandið þangað til drykkurinn verður þykkur og mjúkur, berið fram í háu glasi, neytið og ég get lofað því að þið munuð bókstaflega finna líkamann hreinsast.

Ykkur er velkomið að setja svona grænt skraut á glasið einsog sést á meðfylgjandi mynd, en munið bara að þið megið ekki borða það, því samkvæmt megrunar- og lífstílsreglum Tískubloggsins er að sjálfsögðu allt sem er náttúrulega grænt harðbannað.

Ég mæli svo með því að þið takið ykkur litla stund í amstri dagsins og þakkið vísindunum í hljóði fyrir að hafa uppgötvað grænan gervimatarlit.

xoxo
-h

3 comments:

  1. Hvar fæst skeljasandur? Byko eða bara næstu fjöru? Má setja MSG til að auka bragðið?

    Takk by the way! Bjargar manni alveg.

    ReplyDelete
  2. Ég kaupi minn skeljasand í BM Vallá, en hann fæst áreiðanlega í Byko eða Blómavali. Í harðindum má svo fara niður í fjöru. Passaðu bara að enginn sjái þig, því það er ekki í tísku að vera fátækur, og þá enn síður að vera fátækur og flíka því.

    Og að sjálfsögðu má bæta MSG í blönduna til að laða betur fram bragðið af kalkinu. MSG hefur aldrei skaðað neina máltíð.

    Og verði ykkur að góðu.

    ReplyDelete