Thursday, February 10, 2011

Einum kennt, öðrum bent: Svar Greiningardeildar Tískubloggsins við svari lesanda við greiningu Greiningardeildarinnar


Hola lovers,

Ritdeilan um hvernig á að túlka grein Poetrixar hefur heldur betur harðnað.

Hér að neðan má finna svar Greingardeildar Tískubloggsins við athugasemdir lesandans sem stendur ekki á sama við grein Greiningardeildar þarsem tilraun var gerð til að greina greinina.

Annar lesandi kommentaði nýverið og bað Tískubloggið vinsamlegast að birta fleiri myndir með þessum lærðu greinum, og verð ég að sjálfsögðu við þeim óskum.

xoxo
-h

*** 


Hlæðu að heimsku veraldar, þú munt iðrast þess; gráttu 
yfir henni, þú munt líka iðrast þess; hlæðu að heimsku
veraldar eða gráttu yfir henni, þú munt iðrast hvorstveggja, 
annað hvort hlærðu að heimsku veraldar eða þú grætur 
yfir henni, þú iðrast hvorstveggja.
 – Søren Kierkegaard

Lesandi Tískubloggsins sem stendur ekki á sama hefur skrifað Greiningardeildinni opið bréf.
Við fögnum athugasemdunum og förum hér ofan í saumana á þeim. Áður en við köfum ofan í hin djúpu rök er vel við hæfi að skjóta afstöðu lesandans, þ.e. afstöðu þinni sem þetta les, til viðfangsefnisins á frest og gaumgæfa afstöðu lesanda Tískubloggsins sem stendur ekki á sama. Því hann sýnir okkur hvernig hægt er að skoða sama hlutinn frá ólíkum sjónarhornum, en skoða syntesu hlutanna ekki sem niðurstöðu heldur sem (nauðsynleg) átök (og þannig forsendu alls frelsis). Dæmi um það er þegar lesandi Tískubloggsins sem stendur ekki á sama rýnir í grein Poetrixar um fimm atriði sem konur eru ófærar um, því þar vitnar hann óneitanlega í sjálfan sig sem lesanda en gaumgæfir um leið stöðu lesandans eins og sá væri einhver annar en hann sjálfur. Þannig vitnar hann bæði í sjálfan sig sem lesanda og jafnframt í lesandann sem annað sjálf. Við teljum að þessi afstaða sé einmitt nauðsynleg til þess að skilja hugleiðingar Poetrixar um samskipti kynjanna til fulls. Gefum lesanda Tískubloggsins sem stendur ekki á sama orðið:

Skrif Poetrix eru lifandi, á stöðugri hreyfingu, og því ber að nálgast þau sem lífræna heild. Vísindaleg/rökfræðileg smættun dugar skammt, því hver hluti þessa haganlega smíðaða þrekvirkis er borinn upp af öllu verkinu og öfugt. Heildræn hugsun er í öndvegi. Skrif hans eru á mörkum listar og heimspeki, er ætlað að skýra og fræða, en um leið að koma róti á tilfinningarnar. Sé þeim þrýst í rökfræðilegan búning á jafn galgopalegan hátt og Greiningardeild Tískubloggsins gerir sig seka um, er hætta á að kjarninn og inntakið í hugsun Poetrix glatist.

Við sjáum að það sem helst truflar lesanda Tískubloggsins sem stendur ekki á sama við greiningu Greiningardeildarinnar er hið einfalda umsagnarmál háttarökfræðinnar sem við beittum í síðustu grein til þess að skerpa á hugsun Poetrixar. Við tökum þó undir með þessum tilteknum lesanda að orð Poetrixar standa óhögguð og þurfa ekki frekari útskýringar við. Málið vandast þó þegar lesandi Tískubloggsins sem stendur ekki á sama hættir sér út á hálan ís existensialismans, en sýnir þó um leið hvers hann er megnugur og hvers vegna einmitt athugasemdir hans dýpka díalektík Poetrixar, með því að tefla fram andstöðum í hugleiðingum sínum í því skyni að leysa þær upp. Þannig biður hann um að menn greini „verk á sínum eigin forsendum, en reyni ekki að meta allt í gegn um sinn eigin þrönga sjóndeildarhring“. Þetta er auðvitað orðleysa. Því annað hvort á hann við að greina eigi verkin á forsendum verkanna en ekki þeim þrönga stakk sem sjónarhornunum er búinn, eða hann á við að greina eigi verkin á forsendum þess sem greinir þau en ekki í gegnum þröngan sjóndeildarhring þess sama athuganda (ath. stefið um sjálfið sem er meðvitað um eigið sjálf er leiðandi í hugleiðingum lesanda Tískubloggsins sem stendur ekki á sama, og í þessu er snilldin fólgin!). Sem sagt, annað hvort hindra sjónarhornin okkur í að sjá verkin og forsendur þeirra, en þá væri þetta ekki vandamál heldur spurning um sjónarhorn, eða fyrirfram mótaðar skoðanir greinandans standa forsendum hans fyrir þrifum (við gefum okkur þá að þeim sé ætlað að varpa ljósi á verkin) en þá sjáum við að fyrrnefnd afstaða sem felur í sér að sjá sjálfan sig sem maður sjálfur og á sama tíma sem annað sjálf leysir þann vanda án frekari orðlenginga.
En bíðum hæg. Áður en við dæmum lesanda Tískubloggsins sem stendur ekki á sama úr leik skulum við gefa því gaum sem hann reynir að klæða í búning hinnar lifandi, stöðugrar hreyfingar, og því sem nálgast ber í skrifum Poetrixar sem lífræna heild. Því það sem kristallast í þessari bón er örvænting sjálfsins sem einmitt er grunnstefið í afstöðu Poetrixar til samskiptamöguleika(leysis) kvenna. Þetta gerir lesandi Tískubloggsins sem stendur ekki á sama sér ljóst, en tekst jafnframt að miðla þeirri visku með því að virðast ekki vera meðvitaður um hana. Þetta teljum við bera vott um framsækna heimspeki, hvernig lesandinn á bak við lesandann beitir þessu magnaða bragði til að sýna nándina í fjarstæðu fáránleikans, þ.e. hvernig hún tekst á við hið almenna. Það er ekki öllum gefið að takast á við speki Poetrixar innan frá, því þar sem sjálfið örvæntir þar leynist jafnframt hættan. Þetta opinberast í nálgun Poetrixar á viðfangsefninu: Einum kennt, öðrum bent. Þetta sér þessi tiltekni lesandi í orðum Poetrixar, en hvorugur hefur haft orð á þessu. Þeir vita báðir að þar sem hættan leynist lifir snilldin ein.


Lesandi Tískubloggsins sem stendur ekki á sama nær að fanga kjarna hugsunar Poetrixar af slíkri nákvæmni að raunar er fáu hægt að bæta við. Greiningardeildinni þykir þó að lesandinn gangi ekki nógu langt í existensialískri túlkun sinni, til að hann geti með réttu talist hefja sig yfir hið þröngva sjónarsvið fyrirbærafræði samskipta sem Poetrix beitir úr mörgum ólíkum áttum, eins og lesandi Tískubloggsins sjálfur kemst að orði. Það sem lesandinn gerir svo snilldarlega er að setja sjálfan sig í spor þess sem veit út á hvað samskipti kynjanna ganga. Þetta er auðvitað grundvallarforsenda samræðna um þetta flókna fyrirbæri. Í þessu felst svokölluð óeiginleg örvænting.

Það er ekki fyrr en lesandinn hefur sig upp á næsta svið, og setur sig í spor þess sem setur sig í spor þess sem veit út á hvað samskipti kynjanna ganga, að hann getur skynjað hina eiginlegu örvæntingu sem Poetrix er að fást við. Maður sem veit af sér: Sjálf sem veit af eigin sjálfi. Þessi eiginlega örvænting, sem lesandinn kemst nærri því að tjá en hefur ekki reynt á eigin skinni, býður aðeins upp á tvo möguleika. Annað hvort örvæntir hann af því hann vill ekki vera það sjálf sem hann er, eða hann örvæntir af því hann vill vera það sjálf sem hann er en getur það ekki (þetta kallast grundvallarform örvæntingarinnar). Þetta veit Poetrix. Og með því að segja það ekki hefur hann sagt það. Lesandinn gerir þó virðingarverða tilraun til að læra eitthvað um eigin afstöðu til sjálfs sín, og því má segja að hann reyni að hefja sig yfir sjálfið sem allt of lengi hefur verið meðvitað um sjálft sig. Við sjáum hann eins og sjúkling sem rís upp við dogg og segist vera heill heilsu, en læknirinn beinir tali sínu til hans og biður hann blíðlega (en ákveðinn) að leggjast aftur. Þó að hann telji sig vera í góðu ásigkomulagi og sjái allt skýrt, þá er raunin önnur. Allt þetta skilur Poetrix, og hann hefur beint lesandanum á réttar slóðir með því að segja sem minnst um það.

Hér kemur nánari skýring, lesandanum - þ.e. þeim sem stendur utan við þröngt sjónarhorn sinna eigin forsenda - til glöggvunar, hvernig heimspeki Poetrixar hefur sig á flug án þess þó að taka á loft, hvernig hún rýkur áfram án þess þó að hreyfa sig úr stað. Það sem einum er kennt en öðrum bent er nefnilega ekki til þess fallið að læra sem utanbókarlærdóm, heldur reynir hér á að skynja form samskiptanna eins og þau birtast í sjálfinu, þ.e. eins og þau greina sjálfið frá öðrum sjálfum. Þetta lærir maður ekki, þetta verður maður. Því, ef
einum eða öðrum [virðist] að eitthvað sé til í því sem ég var að segja, þá sýnir hann ekki annað með því en að höfuð hans er ekki gert fyrir heimspeki. Ef honum virðist, að verið hafi hreyfing í orðum mínum, sýnir það hið sama. Fyrir þá […] sem megna að fylgja mér eftir þótt ég sé hreyfingarlaus, mun ég nú rekja hinn eilífa sannleika sem gerir þessari heimspeki kleift að vera ávallt hún sjálf og fallast ekki á neina æðri. Því ef ég gengi út frá frumsetningu minni, gæti ég aldrei hætt framar, því ef ég hætti ekki, mundi ég iðrast þess, og ef ég hætti, mundi ég iðrast þess og þar fram eftir götunum. Nú þegar ég á hinn bóginn geng aldrei út, get ég alltaf hætt, því eilíf útganga mín er að hætta til eilífðar. Reynslan hefur sýnt, að það er alls ekki mjög erfitt fyrir heimspekina að byrja. Öðru nær, því hún byrjar á engu og getur þess vegna byrjað hvenær sem er. Það sem veitist heimspekinni og heimspekingunum erfitt er að hætta. Ég hef líka sneitt hjá þessum erfiðleikum, því ef einhver skyldi halda að ég sé í raun og veru hættur, þegar ég nú hætti, þá sýnir hann að hann hefur ekki háspekilega skilningsgáfu. Því ég hætti ekki núna, heldur hætti ég þegar ég byrjaði (úr Jóni á Bægisá nr. 1, nóvember 1994, bls. 76).
Þetta veit Poetrix, og þetta sýnir hann okkur með því að vísa ekki til þessa. Rökfræðin er auðvitað bara notuð til einföldunar, en þessi glöggi lesandi býr yfir svo miklum þroska að örvæntingin hvetur hann til frekari samskipta. Greiningardeildin þakkar honum heilshugar fyrir góðan lestur og túlkun á annars vel ígrunduðum athugasemdum. 

--

Með góðri kveðju,

GT


6 comments:

  1. Mikið er nú ánægjulegt að sjá svona gefandi umræðu blómstra einhvers staðar.

    ReplyDelete
  2. Ehhhhh fyrirgefiði en ég er komin með hausverk! Gæti alveg þegið eins og t.d. ráð um það hverju ég á að klæðast þegar ég er með hausverk og kannski eins og eina uppskrift af hómópatískum-spámiðilsdrykk sem læknar hausverk!

    Ég er næstum farin að halda að þið séuð að gera grín að Poetrix en trúi því nú varla þar sem hann segir sannleikann og veit greinilega margt um hið rétta eðli kvenna.

    ReplyDelete
  3. Er Tískubloggið virkilega vettvangur fyrir ritdeilur frústreraðra heimspekinema? Hvar eru megrunarkúrarnir, lífsstílspistlarnir, samlífspistlarnir?

    Ég bara get ekki lesið pistla með orðum eins og glöggvun og sjóndeldarhringur ... ég fæ svima ...

    ReplyDelete
  4. Ég er líka með svima. Hvaða stelling er best í rúminu ef maður vill líta út fyrir að vera grennri og ekki með appelsínuhúð?

    ReplyDelete
  5. Enn mindirnar eru fínar :) Takk!

    ReplyDelete
  6. Ef þetta er of tormelt fyrir ykkur þá ættuð þið ekki að lesa síður einsog Tískubloggið og Bleikt.is.

    Sorrí fólk, en kannski eruð þið bara of vitlaus fyrir svona metnaðarfullar heimasíður.

    ReplyDelete