Monday, February 7, 2011

lesendabréf - svar við greiningu Greiningardeildar Tískubloggsins

Hola lovers,

Ekki voru allir á eitt sáttir við greiningu Greiningardeildar Tískubloggsins á grein Poetrix sem birtist hér nýverið.

Einum lesanda sárnaði svo túlkun Greiningardeildar að hann sendi inn sína eigin.

Tískubloggið fagnar að sjálfsögðu öllum málefnalegum skoðanaskiptum um skrif Bleikt.is, og það er von ritstjórnar að innsenda greinin muni auka enn frekar skilning ykkar á efni greinarinnar.

Höfundur lesendabréfsins stundar einnig mastersnám.

xoxo
-h

***

Tískubloggið, höfuðstöðvar
Stigahöfði 3
102 Reykjavík
Afrit sent til: Greiningardeildar Tískubloggsins


Til þeirra sem málið varðar,

Ég skrifa vegna nýbirtar skýrslu Greiningardeildar Tískubloggins um skrif Poetrix á Bleikt.is. Mér er gjörsamlega ofboðið, og hér á eftir fylgja alvarlegar athugasemdir við skýrsluna. Ég vona að málinu verði beint í réttan farveg í framhaldinu og vona að finna megi viðunandi lausn á því.

Aðferðin sem deildin beitir er vægast sagt fráleit. Og ekki aðeins er aðferðafræðinni ábótavant, heldur reynir skýrsluhöfundur að meta skrif Poetrix sem eitthvað sem þau eru alls ekki. Skrif Poetrix eru lifandi, á stöðugri hreyfingu, og því ber að nálgast þau sem lífræna heild. Vísindaleg/rökfræðileg smættun dugar skammt, því hver hluti þessa haganlega smíðaða þrekvirkis er borinn upp af öllu verkinu og öfugt. Heildræn hugsun er í öndvegi. Skrif hans eru á mörkum listar og heimspeki, er ætlað að skýra og fræða, en um leið að koma róti á tilfinningarnar. Sé þeim þrýst í rökfræðilegan búning á jafn galgopalegan hátt og Greiningardeild Tískubloggsins gerir sig seka um, er hætta á að kjarninn og inntakið í hugsun Poetrix glatist.

Niðurstaða hans er vissulega sú að konur séu ófærar um að læra einföldustu samskiptamynstur, en hann nálgast þá niðurstöðu úr mörgum ólíkum áttum. Hann slær henni því sitt á hvað fram sem spurningu og sem staðhæfingu. Hann blandar sínum eigin reynsluheimi saman við uppgang jarðkringlunnar, Albert Einstein og James Bond myndir. Að ætla að niðurnjörva textann með verkfærum rökfræðinnar er þannig til einskis, og í raun vanvirðing við höfundinn. Verkið er eins og fljótandi sápa sem rennur í gegn um rifur rökfræðibúrsins sem Greiningardeildin reynir að smíða því. Rökfræði hefur alltaf verið og verður alltaf fullkomlega vanmáttug gagnvart andlegri snilld í sínu tærasta formi.

Poetrix leikur sér að auki með formið. Eins og ekkert væri eðlilegra stekkur hann iðulega úr hversdagslegu ávarpi þar sem í raun aldrei er fullkomlega ljóst hver viðmælandinn er, („Ég sagði þér í síðustu viku ég elskaði þig...“) yfir í existensialíska einræðu þar sem fáránleiki hins innra sjálfs tekur öll völd („Eftir að hafa grafið djúpt í hugarfylgsnin, því ég veit ekkert hvað ég var að hugsa, þá fatta ég að ég var að hugsa um hvaða ofurkraft ég myndi velja ef ég mætti velja einn.“). Á meðan á lestrinum stendur verður lesandi ringlaður, og oft á tíðum byrjar lesandi jafnvel að draga eigin vitsmuni í efa. Hvað er þessi maður að segja? Um hvað er hann að tala? Veit hann kannski meira en hann vill láta í ljós? Liggur vandinn kannski hjá mér? Þetta eru tilfinningar og hugsanir sem rökgreining nær einfaldlega ekki utan um.

Sem einhverskonar rökfærsla, sem eitthvað vitrænt innlegg í tilveruna kolfellur greinin að sjálfsögðu, og háðið sem starfsmaður Greiningadeildar beitir í greiningu sinni („röksemd Poetrixar gengur fullkomlega upp“) er með öllu óþörf, og þeim tiltekna starfsmanni til minnkunar. Ég er auk þess viss um að Poetrix er fullkomlega meðvitaður um þetta sjálfur. Styrkleiki hans sem pistlahöfundur er ekki ísköld rökvísi eða djúpt samfélagslegt innsæi. Né heldur er það næmni fyrir samskiptum kynjana. Það er eitthvað allt annað. Hvað það er verður lesandinn að átta sig á sjálfur.

Ég krefst því þess að Tískubloggið beini þeim tilmælum til starfsmanna Greiningardeildarinnar að þeir þekki takmörk sín, að þeir greini framvegis verk á sínum eigin forsendum, en reyni ekki að meta allt í gegn um sinn eigin þrönga sjóndeildarhring.

Bestu kveðjur,
Lesandi sem stendur ekki á sama.

2 comments:

  1. Mykið er ég sammála. Þeta er rosa skemmtileg grein og mikið til í heni. Var bara eikkvað rugluð á að lesa allar jöfnunnar hérna að neðan.

    ReplyDelete
  2. Hmm. Þetta var gnostísk opinberun. Ég er einu skrefi nær því að skilja aflið sem er Poetrix.

    ReplyDelete