Saturday, February 5, 2011

Greiningardeild Tískubloggsins greinir málin

Hola lovers,

Það er með miklu stolti sem ég kynni ykkur nýstofnaða Greiningardeild Tískubloggsins. Meðlimir hennar eru fjölmargir fræðimenn úr ýmsum áttum og gestapenninn að þessu sinni er hálfnaður með mastersnám í heimspeki og nemur jafnframt fyrirbærafræði samskipta, en lokaritgerð hans ber titilinn „Afstaða mín til „hennar" með vísun í atvikið sem átti sér stað í haust sem leið án þess að farið sé í grafgötur með það að sumarið þar áður særði hún tilfinningar mínar en hefur enn ekki séð ástæðu til að biðjast forláts."

Hann hlýtur jafnframt þann vafasama heiður að vera fyrsti karlkyns gestapenni Tískubloggsins.

xoxo
-h

***
Greiningardeild Tískubloggsins tók að sér að rýna í vísindalegar hugleiðingar Poetrixar, málsvara karlpeningsins á vefritinu Bleikt.is, en hann skrifar í nýlegri færslu um fimm atriði sem konur eru ófærar um, sjá hér. Eftir lesturinn er ljóst að óþarfi er að lesa á milli línanna, eins og pistlar á lífsstílavefjum krefjast oft á tíðum (annars sér lesandinn neysluhyggju, hlutgervingu minnihlutahópa eða markaðsvæðingu þar sem slíkt er ekki að finna), því allar hugleiðingar höfundar eru ítarlega rökstuddar.

Megintesa höfundar er eftirfarandi: Konur eru algjörlega ófærar um að læra einföldustu samskiptamynstur.

Þessu til rökstuðnings eru gefin fimm skýr og skorinort dæmi úr hversdagslífinu, sem sýna hvernig konur misskilja ætlun karla út í eitt. Helsti ljóður kvenna er að ætla karlinum eilíft aðra hugsun en einmitt það sem hann segir. Karlar eru nefnilega bókstafstrúar er kemur að samskiptum. Þeir mæla aldrei undir rós, og segja einatt það sem þeir meina. Ætla mætti að þeir hugsi beinlínis upphátt, og þegar maður veltir þessu fyrir sér þá er þetta auðvitað ómetanlegur kostur.

Áður en komið er að megintesunni, ófærni kvenna um að læra einföldustu samskiptamynstur, útskýrir höfundur hvað liggur raunverulega að baki þessara hugleiðinga. Nefnilega þversögn jafnréttisbaráttunnar af hálfu kvenna. Þær hafa í gegnum aldirnar barist fyrir margvíslegum réttindum en gleyma að láta þess getið að í krafti kyngervi síns njóti þær ýmissa forréttinda. Dæmi:

• Konur geta t.d. fengið hundruð fullnæginga á örfáum tímum, gegnum geirvörturnar, varirnar og jafnvel algjörlega án snertingar ef rétt er staðið að verki.

Fullnæging karla? Svona max 7-10 sekúndur ef [maður er] með 30 ára doktorsmenntun í tantrafræðum, oftast eftir svona klukkustundar vinnu. Launakjör sem jafnast á við barnaþrælkunarvinnutaxta. Þarna erum við komin með málsstað fyrir feministafélagið.(Það berst fyrir jafnrétti þó það sé með hlutdrægt nafn. Löng saga [eftir því sem Poetrix kemst næst]).

• Konur eru yfirhöfuð fallegri, lykta betur og [eru] skemmtilegri en karlar.

Raunar virðist höfundi konur vera svo mótsagnakenndar að þær viti í raun og veru ekki sjálfar hvað þær vilja út úr samskiptum sínum við karla (Greiningardeildin gefur sér að pistill Poetrixar sé ætlaður gagnkynhneigðum konum).

Hér gefur að líta rökfærsla greinarhöfundar fyrir tesunni:

A. Þú veist af því ef ég hef sagt þér það, annars er það ekki raunverulegt.

Þessi óorðaða hugsun höfundar (sem er lýst með dæmum, en ekki sögð beinum orðum) er mögnuð tilvísun í írska heimspekinginn George Berkeley sem á fyrri hluta 18. aldar hélt því fram að tilvist hluta fælist með dularfullum hætti í skynjun þeirra. Forsenda A sýnir hins vegar kankvíslega hvernig kveneðlið sjálft afhjúpar þessa röksemd Berkeleys sem mótsögn og, í framhaldinu, hversu auðveldlega megi leysa þessa mótsögn með því að snúa hugsuninni á bak við hana á hvolf og skoða hana í nýju ljósi (það var þá eftir öllu, konur sjá allt á haus!):

Ekki gera honum upp skoðun. Þetta reynist konum lífsins ómögulegt að skilja. Þær reyna alltaf að rangtúlka allt sem karlinn segir, helst þannig að hann sé að gera lítið úr eða hafna henni. Konur lifa í þeirri trú að þegar maður segi eitthvað, þá þýði það einhverra hluta vegna að maður meini eitthvað allt annað. En niðurstaðan af forsendu A, sem jafnframt er afbygging fullyrðingar Berkeleys „esse est percipi“ (að vera er að vera skynjaður), er:

Segi =Meina.

B. Ákvörðun≠Fall eða uppgangur jarðarkringlunnar.

Mýmörg dæmi eru um það, þó höfundur nefni aðeins nokkur, að konur virðast sjálfar ekki geta sagt hvað þær meina þegar karl og kona eru sest upp í bíl og ætla að bregða sér út að borða (á þessum tímapunkti sýnist Greiningardeildinni augljóst að þau hafi þegar tekið þá ákvörðun að snæða saman). En það er alltaf sama sagan, konan veit aldrei hvað hana langar í. Konur ættu alvarlega að taka þessi réttmætu gagnrýni til sín og koma sér að efninu þegar hann spyr hvað (eða hvar) hana langi til að borða.

Þetta er einmitt þekkt öngstræti margra hjónabanda (Poetrix gerir reyndar einungis að því skóna að í hans tilfelli eigi þetta við um kærustur, en Greiningardeildin getur staðfest að þessir örðugleikar hrjá einnig harðgift hjón) sem margur ratar í, dag hvern um kvöldmatarleytið.

Meginniðurstaða B er því tilvísun í A.

Ákvörðun=A.

C. Hrós≠Gjaldmiðill.

Konur líta á hrós sem gjaldmiðil, og þær umgangast hann eins og fíkill. Hefðu þær tekið til sín ábendingu A væri þeim hins vegar ljóst að hafi karlinn á annað borð hælt eða hrósað á konunni, þá stendur sú yfirlýsing þangað til annað kemur í ljós. Það er því einungis tilefni leiðinda og óþarfra endurtekninga að biðja um hrós á hrós ofan, þegar hann er löngu búinn að segja henni að hann kveiki á henni (og af hverju væri hann þá á annað borð að fara út að borða með henni?). Hann gæti til dæmis áður hafa nefnt að hún gerði hann graðan, o.s.frv., o.s.frv. Sjái hann hins vegar ástæðu til að tjá henni hug sinn í formi hróss á nýjan leik, þá verði hún auðvitað fyrst til að frétta af því. Hún á bara ekki að vera eins og fíkill að bíða eftir skammtinn sinn. Af því sem sagt hefur verið leiðir að: Ef A, þá C.

A→C.

D. Súpermanpælingin=A.

Fjórða röksemdin er snúin. Greiningardeildin viðurkennir það fúslega. Hjónin, eða parið, eru ekki lengur úti að borða, heldur eru þau stödd fyrir framan kvikmyndatjald eða sjónvarpsskjá (það kemur ekki fram hvort). Ef hana langar á þessari stundu að vita hvað hann sé að hugsa, þá er núna ekki rétta stundin til að vekja máls á því. Hann væri löngu búinn að því ef hugsunin væri nógu merkileg. Því eins og búið er að sýna fram á þá, í krafti A, er Segi =Meina. Þess vegna vitum við, án þess að það brjóti í bága við lögmál rökfræðinnar, að Segi ekki=Meina ekki.

Súpermanpælingin & A = ¬A.

E. Hint→¬Hugsunarlestur.

Það er oft sem kona þarfnast aðhlynningar en kann ekki að biðja um hjálp. Næstu helgi er Poetrix að horfa á leikinn, kominn fyrir framan sjónvarpið í uppáhaldsstólnum með fjarstýringarnar í annarri. Ef hún telur að núna sé stundin til þess að segja honum frá einhverju úr sínu lífi, að hún sé þreytt eða að henni verki í líkamanum, þá sjáum við í ljósi þess sem búið er að segja að best væri fyrir báða aðila að hún færi ekki eilíft eins og köttur í kringum heitan grautinn um alla skapaða hluti, heldur kæmi sér beint að efninu. Ef hún segist vera þreytt, þá gengur hann auðvitað út frá því að hún ætli að leggja sig, en ekki að eitthvað meira ami að. Hvenær gaf hann sig út fyrir að lesa hugsanir, og hvers vegna ætti hann að beita þeim ofurmennisskrafti einmitt þegar hann er að horfa á leikinn? Neitun ofangreindra punkta, A, B, eða C, jafngildir það sem Poetrix gefur því rökfræðilega heiti Hint, með skírskotun til enskrar merkingar þess orðs (vísbending). En téð yrðing jafngildir ekki hugsunarlestri og getur því ekki, í krafti áðurnefndra raka, gert kröfu til slíks.

¬A V ¬ C V ¬D = Hint

Það gefur því auga leið, og þarf ekki að útskýra frekar, að

(¬A V ¬ C V ¬D = Hint)→¬Hugsunarlestur.


Greiningardeildin vill því meina, og telur sig hafa sannað, að röksemd Poetrixar gengur fullkomlega upp og eftir stendur niðurstaðan sem náttúruleg afleiðsla gildrar rökfærslu.


(Segi=Meina) & (Ákvörðun=A) & A→C & (Súpermanpælingin & A = ¬A) & ([¬A V ¬C V ¬D = Hint] →¬Hugsunarlestur) = N

N. Konur eru algjörlega ófærar um að læra einföldustu samskiptamynstur.

4 comments:

  1. Núna fatta ég loksins þessa grein. Takk, Greiningardeild Tískubloggsins!

    ReplyDelete
  2. OMG! Hvernig fariði að því að skilja allar þessar jöfnur?

    ReplyDelete
  3. Úff ég skyl einlea ekki. Þetter mega ervitt. Geduru haft meiri myndir í blogginu þínu?

    ReplyDelete