Thursday, June 23, 2011

af prinsessum og hárumhirðu átta ára stúlkubarna

Hola lovers,

Ekki skil ég hvað kvenrembur eru að kvarta yfir þessum blessaða Prinsessuskóla sem er markaðssettur fyrir átta ára stúlkubörn. Því ég hef áður nefnt að það sé aldrei of snemmt fyrir stúlkur að byrja að huga að útlitinu og velta fyrir sér hvernig þær geti hámarkað útlitsgæði sín (sjá t.d. hér og hér), því þetta er enda hárrétt hjá honum Gunnari Ingvarssyni sem skrifaði athugasemd við fréttina á DV, en hann ritar: „Eins lengi og sögu herma hafa konur notað ýmis ráð til að auka fegurð sína til að gana í augun á kalmönnum. Sumar konur eru reyndar þannig að engin meðul geta gert þær ásjálegar og þær verð feministar.“

Í rauninni finnst mér ekkert eðlilegra en að stúlkubörn langi til að verða prinsessur, enda hafa prinsessur löngum verið táknmynd um kvenlega auðmýkt, fegurð og lítillæti og þær eru í raun holdgervingar alls þess sem konur ættu að vera. Því þær voru sko alls ekki haldnar þessum ranghugmyndum um eigið ágæti sem einkennir því miður margar nútímakonur, enda gerðu þær sér í flestum tilvikum fulla grein fyrir því að þrátt fyrir að deila með þeim erfðaefni, þá væru þær að sjálfsögðu miklu minna hæfar til að að stýra þjóðríkjum en feður þeirra, bræður, frændar og synir, enda erfðust krúnur yfirleitt í beinan karllegg.

Þær gerðu sér heldur engar rómantískar grillur, því hefð var fyrir því að nota þær sem gjaldmiðil í milliríkjasamskiptum og þær voru iðulega seldar í hjónabönd í skiptum fyrir landsvæði og herafla, eða svo karlmennirnir í kringum þær gætu styrkt pólitískt samband ríkja sinna og tryggt sér völd. Þannig settu þær hagsmuni eiginmanna sinna, feðra og föðurlands framar sínum eigin metnaði fyrir lífshamingju, því þær voru hin kvenlega dyggð uppmáluð.

Og þó þær þjáðust oft og tíðum af ýmsum erfðakvillum vegna innræktunar og skyldraæxlunar innan konungsfjölskylda, þá báru þær harm sinn í hljóði, því þær vissu að það að halda völdunum hjá karlmönnunum í ættinni var mikilvægara en það að vera litningagallalaus.

Prinsessur nútímans þurfa heldur ekkert að bisa við að finna sér ævistarf, eða huga að einhverjum „frama“, því það að vera táknmynd kvenlegrar auðmýktar er fullt starf, sem sýnir sig best á því að þeim almúgakonum sem gifta sig inn í konungsfjölskyldur er yfirleitt gert að segja starfi sínu lausu um leið.

Af ofansögðu má sjá að betri fyrirmynd fyrir átta ára stúlkubörn er vandfundin, og ég get satt að segja ekki ímyndað mér neina aðra fyrirmynd sem þær ættu frekar að vilja líkjast.

Ég fagna því einnig innilega að ungum stúlkum sé nú kennd hand- og fótsnyrting, því annars gætu þær verið að nota þessa útlimi til þess að gera eitthvað ógeðslegt einsog að klifra í trjám, sulla í pollum, kasta boltum eða hlaupa. Mér hefur einnig lengi þótt að hárumhirðu átta ára stúlkubarna sé afar ábótavant og því fagna ég því ákaft að einhver ætli að taka að sér að aga þær almennilega og kenna þeim að greiða sér og litgreina jafnframt hvernig litar teygjur þær ættu helst að nota í hárið á sér.

Það eina sem ég setti spurningarmerki við í sambandi við þetta námskeið var að á heimasíðunni kemur fram að þær eigi að taka með sér „holt“ nesti. Í fyrstu hélt ég að þetta væri handvömm síðuhaldara og hún hafi ætlað að slá inn „hollt“ í staðinn, en svo áttaði ég mig á því að auðvitað er henni bara umhugað um að stúlkurnar á námskeiðinu fitni ekki óhóflega og því bendir hún foreldrum á að loftrými skuli vera í nesti þeirra, t.d. rúnstykki sem búið er að fjarlægja miðjuna úr svo skorpan ein er eftir.

Ég vildi næstum því óska þess núna að ég hefði ekki farið í legnám og að ég ætti dóttur til að senda í þennan skóla.

xoxo
-h

Hér er dæmi um konu sem kann að litgreina.

10 comments:

  1. Minni mitt flöktir nú til þess hryllilega atburðar þegar ég fékk prinsessunáttföt í afmælisgjöf þegar ég var 5 ára. Um kveldið þegar átti að koma mér í gerviefnafötin með trúðslegum kraga á hálsi og ermum, fundust þau klippt í ræmur sem lágu skömmustulegar undir rúmi. Á sænginni biðu gömlu góðu Línu langsokksnáttfötin, þvæld og slitin og í þau fór sátt stúlkukorn sem hafði yfir sér mæðulegt viprubros móður sinnar. "Gvuði sé lof" sagði mamman og stúlkan áratugum seinna!

    ReplyDelete
  2. Málið er að sjálfsögðu að það er enginn neyddur til að fara í svona skóla, eða það ætla ég að vona ekki. Hins vegar er það hluti af frelsi íslendinga að svona skóli skuli vera til boða fyrir þá sem hafa áhuga. Þeir sem vilja hafa vit fyrir hinum og banna svona skóla eru líklega samskonar fólk og vildi ekki að konur fengju kosningarétt á sínum tíma.

    ReplyDelete
  3. Það er enginn að segja að banna eigi skólann, en það má alveg vekja athygli á að önnur sjónarhorn eru til. Þessi prinsessusýn er ansi lífsseig, eins og sýnin um hörkugæjann. Það þarf að rugga þessum víðteknu skoðunum og alhæfingum að stelpur hugsi bara um útlitið og geti ekki hugsað á eigin forsendum og að strákar gráti ekki.

    ReplyDelete
  4. Það vilja því miður fá stúlkubörn viðurkenna að þær séu ekki prinsessur...í þessum skóla er þetta eins og þegar nornin vélaði sársvöng og umhyggjulaus Hans og Grétu, nema þarna færðu viðurkenningu á því að það sé nauðsyn að plokka sig og lita, labba á palli og sitja prúð til borðs. Það er nauðsyn að vera viðurkenndur og vera saddur og það er nauðsyn að vera smart eins og maður sjálf/ur býr sér það til, en ekki eftir markaðsgróðahugmyndum Önnu útlits. Það þarf engan skóla til að leyfa stúlkubörnum að fá útrás fyrir einhverja Garðabrúðuímynd, hún rjátlast ansi fljótt af mörgum en þær fá bara tóm til að hugsa. Hinar eru þrælar aðdáunarsýki og hégóma, sem jaðrar við sinnusýki eða fíkn-og það vill enginn þróa með börnunum sínum eða hvað? Hvað segir Andsetinn við því?

    ReplyDelete
  5. Guð minn góður. Ég er orðlaus.

    Dæmi um það sem tekið
    er fyrir á námskeiðinu:


    Yngri hópur (8-12 ára):
    Litafræði
    Hárgreiðsla/umhirða
    Handsnyrting/fótsnyrting
    Snyrtimennska
    Ganga/líkamsburður
    Danskennsla/vals
    Borðsiðir

    ReplyDelete
  6. Lifi valfrelsið. Enginn er neyddur til að senda dætur sínar á prinsessunámskeið. Hvað er að því kenna þeim að leika sér með liti...sbr. litafræði, eða að höndla sitt hár sjálfar, hvað er að því að fá tilsögn hvað varðar snyrtimennsku, ganga beinn í baki sbr. líkamlega réttstöðu. Hvað er slæmt við að læra almenna borðsiði eða að dansa (holl hreyfing).
    Get ekki séð nema þetta sé bara jákvætt og það að sjá eitthvað brenglað eða að þetta sé á kynþokkafullum nótum lýsir ekki öðru en þröngsýni og brenglun viðkomandi. Leyfið börnunum að vera til ...valfrelsi fyrir börn eykur líka þeirra víðsýni.

    ReplyDelete
  7. Anonymous:

    Orð þín væru í raun sérdeilis skynsamleg ef þetta væri ekki kynskipt fyrirbæri. Gerum nákvæmlega það sama fyrir drengi, sem eflaust hefðu margir gott af því að læra að ganga beinir í baki og tileinka sér góða borðsiði svo nokkuð sé nefnt - og málið er dautt.

    ReplyDelete
  8. Hvað er spurningarmerki?

    ReplyDelete
  9. Ég el dóttur mína upp eins og prinsessu og þjálfa hana í reiðmennsku og skylmingum. Ein helsta fyrirmyndin er Brunhilda af Austrasiu, vestgotnesk prinsessa sem var gefin ung í hjónaband til Sigeberts I, konungs Austrasiu (Austur-Frakkland, Vestur-Þýskaland og Niðurlönd) af ætt Meróvinga, en varð fljótt ekkja og réð síðan ríkjum gegnum syni sína og sonarsyni með harðri hendi þar til Clotaire I lét taka hana af lífi 95 ára gamla með því að láta ótemjur slíta hana sundur í veikri von um að það myndi veikja pólitískt vald hennar.

    ReplyDelete