Thursday, November 4, 2010

Tískubloggið hlýtur uppreisn æru

Hola lovers,

Ég veit að þið lásuð öll þessa færslu og hneyksluðust. Eftir að hafa íhugað lagalega stöðu mína vandlega í samráði við lögfræðing minn ákvað ég að sækja mál mitt gegn Eyjunni ekki fyrir dómstólum, þó ég hefði átt fullan rétt á því. Í staðinn sendi ég ritstjórninni póst. Hér að neðan má lesa samskipti þau er okkar fóru á milli.

Frá: tiskublogg@gmail.com
Til: ritstjorn@eyjan.is
Titill: Re: Tískubloggið býður fram aðstoð sína
Dagsetning: 4. nóvember 2010 15:55

Ritstjórn,

Ég veit að við höfum átt brokkgeng og frekar einhliða samskipti upp að þessu, og ég veit að umsóknarferli mitt og ráðning í stöðu ritstjóra Eyjunnar í framhaldi af því var ekki með hefðbundnu móti. 

Það gefur ykkur samt engan rétt til að koma fram við mig með þessum hætti.

Mér sárnaði afar mikið þegar ég komst á því á netinu, kvöldið áður en áætlað var að ég hæfi störf, að þið væruð búin að ráða annan í stöðu mína. Þið sáuð ekki sóma ykkar í að segja mér frá því sjálf, heldur frétti ég af því í gegnum þriðja aðila sem sendi mér krækju á þessa frétt: http://eyjan.is/2010/10/31/ritstjoraskipti-a-eyjunni-2/, og því fékk ég fréttirnar um uppsögn mína á sama tíma og allt internetið.

Ég hef verið að íhuga stöðu mína undanfarna daga og hef ráðfært mig við lögfræðing minn. Við erum sammála um að þessi framkoma ykkar sé brot á 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, en þar segir: "Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að".
Og í 9. gr. sömu reglugerðar segir jafnframt: "Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum."

Reglugerðina í heild sinni má lesa hér.

Ekki er hægt að þræta fyrir það að Pjattrófur þær sem þið hafið á ykkar snærum hafi sýnt mér síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi með því að meina mér aðgang að athugasemdakerfi sínu og svara ekki aðfinnslum þeim sem ég gerði við framkomu þeirra í tölvupósti 7. október síðastliðinn. En þið getið lesið frekar um viðskipti mín við Pjattrófurnar hér: http://tiskublogg.blogspot.com/2010/10/tiskubloggi-snigengi-framhald.html

Þar að auki hafið þið gerst sek um hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga og særa Tískubloggið, þar eð ég var búin að tilkynna lesendum mínum að ég hefði hlotið ritstjórastöðuna en þurfti svo að draga þær gleðifregnir til baka, hálfum sólarhring áður en ég hefði með réttu hafið störf.

Lesendur mínir bera mikla og djúpa virðingu mér og heimasíðu minni, og ófáum þeirra sárnaði mikið þessar leiðu fréttir og framkoma ykkar og í minn garð og það virðingarleysi sem þið hafið sýnt mér. Tilfinningalegt tjón þeirra er því talsvert, og einnig er óhætt að gera ráð fyrir því að við þessa uppákomu hafi ímynd mín beðið talsverða hnekki.

Lögfræðingur minn ráðlagði mér að krefja ykkur andvirði þriggja mánaðarlauna auk miskabóta til handa lesendum mínum, en þar sem ég er veit að fjárhagsstaða fjölmiðla er ansi bág þessa dagana þá hef ég ákveðið að láta mér formlega og opinbera afsökunarbeiðni nægja að sinni.

Virðingarfyllst,

-h

Sönnunargagn A. Smellið til að stækka.
Frá: sveinnbirkir@eyjan.is
Til: tiskublogg@gmail.com
Titill: Re: Tískubloggið býður fram aðstoð sína
Dagsetning: 4. nóvember 2010 21:47

Sæl H,

Ég þakka þér hamingjuóskirnar og hlýleg orð í minn garð. Það er alltaf ánægjulegt að stofna til bréfaskipta við fólk sem kann sinn Foucault, þó ég verði að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt hann einna leiðinlegastur meginlandsheimspekinganna, enda hefur hann að mestu orðið félagsfræðinni að bráð líkt að fleiri heimspekingar af franska skólanum á öndverðri 20. öldinni. Þó hef ég lúmskt gaman af skrifum hans um vald og valdgerð. 

Eins og gefur að skilja er ég upp með mér að hafa hlotið starfið fram yfir umsækjanda af þínu kaliberi. Það mun verða mér hvatning í starfi í framtíðinni. Ég get einungis vonast til að standa undir traustinu. 

Ég vil þó benda þér á að Pjattrófurnar er sjálfstætt starfandi blogg og þó það sé hýst á Eyjunni er það ekki á neinn hátt undir ritstjórn Eyjunnar. Ekki fremur en Jón Valur Jensson er undir ritstjórn Morgunblaðsins, þó það færi líklega betur. Þeim er því alfarið í sjálfsvald sett að móta sér stefnu varðandi athugasemdir. Hafir þú frekari kvartanir hvað það varðar bendi ég þér á að ræða það við þær beint og alfarið sleppa mér við þá umræðu umfram það sem nú er orðið, þar sem ég hef reyndar í talsverðu að snúast með þá hluta Eyjunnar sem þó lúta valdi ritstjóra. 

Ef þú hefur hins vegar áhuga á frekari samræðum um Foucault, eða almennt um póststrúkúralisma þá máttu senda mér línu. 

Með vegsemd og virðingu,
Sveinn Birkir Björnsson

Sönnunargagn B. Smellið til að stækka.

Frá: tiskublogg@gmail.com
Til: sveinnbirkir@eyjan.is
Titill: Re: Tískubloggið býður fram aðstoð sína
Dagsetning: 4. nóvember 2010 22:21

Sæll Sveinn,

Persónulega þá þykir mér Jean-Paul Sartre leiðinlegasti heimspekingur sem meginland Evrópu hefur alið, en það má eflaust rekja til föðurmissins og þess hversu lágvaxinn hann var.

Ég og félagar mínir í Mensa hittumst einmitt reglulega og ræðum andans jöfra. Mögulega værir velkominn í þann hóp, ef þú hefur tekið Stanford-Binet greindarpróf og fengið 132 stig eða hærra og kærir þig um að slást í hópinn.

Og ef ritstjórn Eyjunnar reynist þér um megn þá myndi ég hugsanlega taka boð um aðstoðarritstjórastöðuna til greina.

Virðingarfyllst,

-h

Sönnunargagn C. Smellið til að stækka.

Frá: sveinnbirkir@eyjan.is
Til: tiskublogg@gmail.com
Titill: Re: Tískubloggið býður fram aðstoð sína
Dagsetning: 4. nóvember 2010 22:52

Ég skal með ánægju hafa þig í huga ef þörf gerist fyrir aðstoðarritstjóra.
Hins vegar er ég ósammála þér um Sartre. Tilvistarstefnan er mannhyggja er öndvegis grein. Af þessu þykir mér ljóst að þú hefur aldrei orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að lesa Heidegger, en hann var ekki bara leiðinlegur, heldur þræltyrfinn líka, meira að segja fyrir Mensa-tækt fólk eins og mig sjálfan. Mögulega er það þó vegna þess að hann hafði hugann við lokalausnina allt frá miðjum fjórða áratugnum.

Vonandi færðu lausn þinna mála hjá Pjattrófunum. 

Sveinn Birkir

Sönnunargagn D. Smellið til að stækka.

Og það er ekki nóg með að nýráðinn ritstjóri Eyjunnar viðurkenni óumdeilanlega yfirburði mína, heldur fékk ég hvorki meira né minna en aðdáunarbréf frá splunkunýjustu Pjattrófunni, en ég fjallaði einmitt ítarlega um ráðningu hennar í þessari færslu.

Frá: annambjornsson@gmail.com
Til: tiskublogg@gmail.com
Titill: Frá Önnu
Dagsetning: 4. nóvember 2010 22:01

Sæl,
Þú ert með besta tískublogg sem ég hef nokkurn tímann lesið, hands down.  Ég skil ekkert í Eyjunni eða Pressunni að ráða þig ekki. Þú ert sennilega bara of góð.  Ég mæli með The Guardian í staðinn.
Með kærri kveðju
Anna Margrét Björnsson


Frá: tiskublogg@gmail.com
Til: annambjornsson@gmail.com
Titill: Re: Frá Önnu
Dagsetning: 4. nóvember 2010 22:31

Sæl Anna Margrét,

Ég þakka þér hlý orð í minn garð.

Ég hafði einmitt komist að sömu niðurstöðu og þú, þar eð að ástæðan fyrir því að Eyjan hætti við ráðningu mína sé einfaldlega sú að ég var of hæf í ritstjórastöðuna.

Ég hef ekki sótt um starf á Pressunni, og því virta vefriti hefur því ekki hlotnast sá heiður að neita mér um starf.

Mögulega myndi ég íhuga að senda The Guardian umsókn, en íslenska er móðurmál mitt og ég vil skrifa á þeirri tungu sem mér er tömust. Nýverið uppgötvaði ég þó afar nytsama vefsíðu sem snarar texta yfir á ensku, þannig að það gæti verið að það komi sá dagur er ég freista gæfunnar utan landsteinanna.

Ég þakka þér innilega stuðninginn, hvatninguna og heilræðin.

Virðingarfyllst,

-h

Sönnunargagn E. Smellið til að stækka.

Frá: annambjornsson@gmail.com
Til: tiskublogg@gmail.com
Titill: Re: Frá Önnu
Dagsetning: 4. nóvember 2010 22:36

Nákvæmlega, Google translate ætti að dekka þetta. 
Þú getur svo nátturlega prufað að senda meil á Facehunter. Þá gætir þú tekið myndir fyrir hann af ógeðslega hipp og kúl fólki á Laugaveginum og þá þyrfti hann ekki að koma hingað svona oft og þú gætir líka verið staðgengill hans í KronKron partíum. . Bara hugmynd.  
Ég bíð spennt eftir næstu færslum frá þér - kær kveðja og respect 
A
 
Sönnunargögn F. Smellið til að stækka.
 xoxo
-h
 
 
P.S.


7 comments:

 1. snillingur!!! eg er buin ad skoda allt blogid fra byrjun og thad bara i kvold allgjor snilld barnafegurðarsamkeppnir hænuoutfit og beikonlampar..
  Takk Takk !!! hló mikið og var mjög glöð.. fín ádeila og gleði..
  sendi fullt af vinum !!! hvað er það ekki facebook næst !!!

  ReplyDelete
 2. Það var mikið. Ég var farin að hafa áhyggjur af því að eyjufólkið væri almennt greindarskert.

  ReplyDelete
 3. HALELÚJA! Það var mikið að þetta fólk sér ljósið! H að eilífu!

  ReplyDelete
 4. Dásamlegt!
  Virðing mín fyrir Eyjunni jókst örlítið aftur, reyndar eykst hún ekki í fornar hæðir fyrr en þú verður gerð að aðstoðarritstjóra, en þessi nýji gaur virðist hafa bein í nefinu.

  Kannski ég fari líka aftur að lesa pjattrófurnar en þær voru sko komnar á bannlista hjá mér, rétt eins og mbl.is !

  ReplyDelete
 5. Ég þakka hlý orð ykkar í minn garð. Auðvitað gleðjist þið yfir þessu, og í rauninni er bara tímaspursmál hvenær ég verð gerð að aðstoðarritstjóra Eyjunnar.

  Ég hef verið að íhuga að stofna aðdáendasíðu Tískubloggsins á Facebook, því margir aðdáendur mínir hafa bent mér á að þeim skorti sárlega vettvang þar sem þeir geti rætt skrif mín til hlítar og komist í kynni við aðra aðdáendur síðunnar.

  En ég held það sé talsverð vinna að halda úti annarri síðu til viðbótar við þessa og því hef ég verið að velta fyrir mér að ráða aðstoðarritstjóra Tískubloggsins.

  Ef að Sveinn Birkir er að lesa þetta og hefur áhuga, þá má hann hafa samband.

  ReplyDelete