Hola lovers,
Var ég nokkuð búin að segja ykkur frá því þegar ég næstum dó?
Nei? Ókei.
Þannig var að á Þorláksmessu fyrir fjórum árum var ég í matvörubúð að kaupa gæludýrafóður handa köttunum mínum. Ég hafði lokið jólainnkaupunum fyrir sjálfa mig deginum áður, en gleymt að kaupa eitthvað handa þessum elskum þannig að ég skrapp útí búð. Klukkan var að ganga níu og það var aldimmt úti en bjart inni í búðinni svo að ég sá spegilmynd mína greinilega í hurðinni þegar ég var í þann mund að ganga út.
Og sjónin sem blasti við mér var ekki falleg. Ég var kinnfiskasogin, með bauga undir augun, skítugt hár og krítarhvít í framan.
Ég vissi strax að ég yrði að skella mér í ljós, það væri sjálfsögð kurteisi við samferðarfólk mitt, því ekki gat ég boðið þeim uppá að hafa mig svona fyrir augunum. Svo eru ljós líka svo holl og góð fyrir húðina, hárið og augun. Maður verður strax frísklegri og geislarnir hafa í raun yngjandi áhrif og eyða hrukkum (ólíkt náttúrulegu (og lélegra) sólarljósi sem er einsog allir vita ótrúlega hrukkuvaldandi).
En sólbaðsstofan sem ég átti ljósakort í lokaði hálftíu. Ég ákvað þó í örvæntingu minni að bruna þangað, og jesúbarnið var greinilega með mér í anda því ég renndi í hlað rétt í tæka tíð og fékk tvöfaldan ljósatíma. Ég lagði innkaupin frá mér í eitt hornið á básnum, afklæddi mig, lagðist í ljósabekkinn og stakk æpodinum í eyrun.
Einsog þið vitið eflaust flest eru dagarnir fyrir jól afar stressandi tími. Ég hafði verið einsog útspýtt hundskinn dagana áður að klára jólainnkaupin og gera jólahreingerninguna sómasamlega (til að móðga ekki guð), þannig að það þarf engan að undra að ég sofnaði í bekknum. Ég veit ekki hvað það leið langur tími þangað til að ég vaknaði, en þegar ég opnaði augun voru öll ljós slökkt. Mér var ískalt og ég fann ekki fötin mín í myrkrinu, svo ég sveipaði mig handklæði og tiplaði á tánum fram á gang.
-Halló! kallaði ég, en fékk ekkert svar nema mitt eigið bergmál. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds og ég fikraði mig áfram eftir ganginum þangað til fingur mínir fundu ljósrofa.
Birtan skar mig í augun og staðfesti um leið grun minn; Allir starfsmennirnir voru farnir heim og ég var ein eftir á sólbaðsstofunni.
Ég hljóp inní básinn minn, fann töskuna mína og reif upp símann. Hann var batteríslaus. Ég klæddi mig fumandi höndum, hirti ekki einusinni um að þurrka af mér storknaðann svitann og hljóp aftur fram.
Útidyrahurðin var læst. Gangurinn fyrir utan hana var myrkur.
Hendur mínar titruðu þegar ég tók upp símann í afgreiðslunni og lagði tólið við eyrað, en það kom enginn sónn. Ég var komin með stóran hnút í magann þegar ég settist við skrifborðið og ræsti tölvuna. Hún malaði góða stund áður en mynd kom á skjáinn og bað mig um aðgangsorð.
Ég vissi ekki aðgangsorðið.
Þar sem ég var fastakúnni á sólbaðsstofunni hafði ég lagt opnunartíma þeirra um hátíðarnar á minnið og ég vissi að þeir opnuðu ekki aftur fyrren 26. desember, eftir þrjá heila daga. Ég hafði ekki sagt neinum frá því að ég ætlaði í ljós og því vissi enginn var ég var niðurkomin.
Og ég var ekki með neitt að borða, nema gæludýrafóðrið sem ég hafði keypt handa köttunum mínum.
Ég eyddi því jólunum á ljósastofunni, ein og yfirgefin og nærðist eingöngu á gæludýrafóðrinu og svolitlu af Aloe Vera After Sun áburði. Það voru engin teppi á allri stofunni, og því kveikti ég á ljósbekknum á næturna til að halda á mér hita. Ég vissi að ég þyrfti að híma þarna í þrjá daga og þarsem ég er jákvæð manneskja sem reynir ávallt að líta á björtu hliðarnar ákvað ég að nota tímann í eitthvað uppbyggilegt frekar en að sitja ein úti í horni, barma mér og gráta. Ég hóf því að þjálfa líkamann og hugleiða.
Sem betur fer er gæludýrafóður einstaklega næringarríkt og hollt, og ég held að vistin hafi gert mér gott. Eiginlega var þetta einsog detox-meðferð, nema miklu ódýrara. Ég slapp við allt jólasukkið, ræktaði bæði líkama og sál, fann mitt Nirvāna og hárið á mér lýstist meira að segja í ljósabekknum.
Ég missti raunar af jólunum en þegar starfsfólkið kom loksins og bjargaði mér úr prísundinni þá leit ég svona út:
Eftir þetta hef ég alltaf borðað gæludýrafóður á jólunum. Eiginlega er gæludýrafóður uppáhaldsmaturinn minn.
xoxo
-h
Ég grét þegar ég las þetta sögu, H. Gæti hreinlega ekki hugsað mér lífið án þín :'(
ReplyDeleteÆtla að prófa gæludýrafóðrið á jólunum. Má ekki alveg hita það í örbylgjuofni?
Ummmm gæludýrafóður er megrandi bæði fyrir kroppin og budduna.
ReplyDeleteJú auðvitað má hita það í örbylgjuofni, kæra Lillz.
ReplyDeleteSettu það bara á svona 2-3 mín. Og það er fínt að bera það fram með fitusnauðu rauðkáli eða rauðbeðum.
Kaupatakkinn virkar ekki. Hvaða gæludýrafóður var þetta, og hver getur maður keypt það.
ReplyDeleteAnnað, er það ekki alveg á hreinu að ef ég ét það þá breytist ég ekki í konu, heldur verð svona helmassaður og brúnn ÁN ÞESS AÐ BREYTAST Í KONU????
Mér finnst líka vanta í umfjöllunina hvort það sé í lagi að éta fóðrið utan skammdegis. Gæti maður nokkuð breyst í svertingja ef maður étur það á sumrin? Það vil ég nefnilega ALLS EKKI.
VÁ ótrúlegt....er þetta þurrmatur eða blautmatur??
ReplyDeleteÉg ætla að fá tvo poka.
ReplyDeleteÞarf kaupatakkinn að virka? Ég hélt það nægði að vera með slíkan til að fólk keypti sér varninginn. Ég hef greinilega eitthvað misskilið þetta.
ReplyDeleteOg í þessari færslu er það blautfóður sem um ræðir, þó þurrfóður sé einnig hin prýðilegasta neysluvara sem fjarlægir jafnframt tannstein.
Og það má borða fóðrið á hvaða tíma ársins sem er, og maður breytist ekki sjálfkrafa í konu við inntöku.