Monday, October 11, 2010

tískubloggið sniðgengið - framhald

Hola lovers,

Einsog ég skrifaði um í síðustu viku þá hafa Pjattrófurnar, sem eru einmitt helstu átrúnaðargoð mín og fyrirmyndir, sniðgengið Tískubloggið gróflega undanfarnar vikur með því að eyða athugasemdum mínum við færslur á síðunni umsvifalaust um leið og þær bárust. Eðlilega sárnaði mér nokkuð við þessa framkomu, einsog ég fjallaði ítarlega um í þessari færslu.

Ég er ekki ein af þeim sem tekur móðgunum þegjandi, enda lærði ég á sjálfstyrkingarnámskeiði Jónínu Ben að ef manni sárnar eitthvað þá á maður að segja þeim sem særði mann til syndanna, frekar en að sitja eftir með sárt ennið og bölva í hljóði.

Ég sendi þeim því eftirfarandi póst:

Til: pjattrofur@eyjan.is
Frá: tiskublogg@gmail.com
Fyrirsögn: Afhverju má ég ekki vera með?
Dagsetning: 7. október 2010 13:46

Sælar Pjattrófur,
Foucault skrifaði að „sá sem hefur stjórn á orðræðunni mótar skoðanir og upplifun almennings á viðfangi hennar“.
Pjattrófubloggið er metnaðarfyllsta tísku- og megrunarbloggið á Íslandi í dag. Í athugasemdakerfi síðunnar myndast oft líflegar umræður og því má með sanni segja að síðan og höfundar hennar hafi mótað nútímahugmyndir um fegurð og kvenleika. Ég les hana oft á dag, en þorði ekki að taka þátt fyrr en eftir að ég stofnaði mitt eigið tískublogg síðla sumars. Þá fannst mér ég loks gjaldgeng í umræðunni og var tilbúin að taka þátt í að móta skoðanir almennings. 
Ég skildi því eftir athugasemd við færslu um hvernig ætti að losna við hrukkur. Athugasemdinni var eytt. Ég skildi því eftir aðra athugasemd þarsem ég gerði athugasemd við að athugasemd minni hefði verið eytt. Þeirri athugasemd var einnig eytt. Ég íhugaði að skrifa athugasemd þarsem ég gerði athugasemd við að athugasemd minni um að athugasemd minni hefði verið eytt hefði verið eytt, en fannst það of flókið í framkvæmd svo ég ákvað að skrifa ykkur póst í staðinn. 
Því spyr ég: Afhverju var athugasemdum mínum eytt og afhverju má ég ekki vera meðstjórnandi að orðræðunni?
Virðingarfyllst,
-h

Þær hafa enn ekki svarað.
Þær halda sniðgöngu sinni við Tískubloggið áfram.
Það eru þeirra mannréttindi, en þetta er engu að síður ómanneskjuleg framkoma í garð minn og lesenda Tískubloggsins.

Þær kalla sig Pjattrófur og leggja mikið uppúr því að vera dömur. Þær eru meira að segja með greinaflokk á síðunni sem þær kalla „Samskipti“ þar sem þær benda konum á hvernig þær eigi að hegða sér á sem kurteislegastan, grennstan og mest aðlaðandi máta.

Því spyr ég; Kæru Pjattrófur, hvar er það talið dömulegt að hunsa kollega sína?

Svar óskast.P.S. Til að gæta sanngirni verð ég að nefna að skömmu eftir að ég skrifaði þeim póst þá kommentaði ég einnig á þennan afar fræðandi pistil á Pjattrófublogginu. Ég var alveg viss um að þær myndu eyða því og þessvegna tók ég skjáskot af því til að eiga sem sönnunargagn. En mér til mikillar furðu þá fékk það komment að standa. Það þýðir kannski að þær hafi lesið póstinn frá mér, litið í eigin barm og ákveðið að endurskoða afstöðu sína til Tískubloggsins, en ekki nægilega mikið þó til að svara póstinum mínum. En þarsem ég á sönnunargagnið þá finnst mér synd að nota það ekki, og því fær skjáskotið að fylgja hér með.

Sönnunargagn A. Smellið til að stækka.

Og þarsem ég hef oft horft á CSI Miami og veit hvursu mikilvæg sönnunargögn eru, þá tók ég líka skjáskot af ímeilinu sem ég sendi þeim og sendi tveimur aðilum sem ég treysti, svo sönnunargögnin myndu ekki glatast ef eitthvað skyldi koma fyrir mig.

Sönnunargagn B. Smellið til að stækka.P.P.S. Og til að allri sanngirni sé örugglega gætt (karma, þið vitið) þá varð hunsun Pjattrófanna mér til nokkurs góðs, þó afar sársaukafull hafi verið. Því sniðganga þeirra varð til þess að ég skilgreindi óendanleika fyrst allra og er nú að huga að frama á sviði heimspeðlisfræði ef Tískubloggið slær ekki í gegn.P.P.P.S. Þetta sýnir okkur hvernig lífið getur stöðugt komið manni á óvart, og kennir manni jafnframt að stundum gerast hræðilegir hlutir ekki að ástæðulausu.P.P.P.P.S. Pjattrófur, nýfundinn frami minn sem heimspeðlisfræðingur þýðir samt ekki að ég fyrirgefi ykkur.xoxo
-h


2 comments:

  1. Ég vistaði sönnunargögnin á tölvuna mína og minnislykil sem ég faldi heima hjá mér. Just in case.

    ReplyDelete
  2. Ég vissi að þér væri treystandi Lillý.

    P.P.P.P.P.S. Ekki segja NEINUM hvar þú átt heima.

    Just in case.

    ReplyDelete