Thursday, January 27, 2011

gestapóstur - hártíska ungbarna

Hola lovers,

Það er Tískublogginu mikill heiður að kynna til leiks nýjan og ferskan gestapenna, sem fær jafnframt þann mikla heiður að vera með fyrsta gestapóstinn á nýju ári.

Gestapenninn hefur verið aðdáandi Tískubloggsins frá upphafi, hún fjölgaði nýverið mannkyninu og hefur því tekið að sér að fræða lesendur um ungbarnatísku og harðan heim húsmóðurinnar.

Það er því með stolti sem ég kynni ykkur Húsmóður helvítis.

Njótið

***

Heil og sæl kæra Tískubloggsvinkona og lesendur Tískubloggsins.

Um leið og ég þakka fyrir allar þær frábæru upplýsingar sem hafa gert mig að framúrskarandi og velviljaðri tískudrós, vil ég segja að ég er upp með mér að fá að deila tískukunnáttu minni meðal lesenda Tískubloggsins. Það vita nú flestir með smá vit í kollinum að hingað sækja allra hörðustu og flottustu tískuspekúlantar – glöggir lesendur hafa væntanlega áttað sig á því að ég er auðvitað meðal þeirra.

Þó Tískubloggið hafi hlaupið um víðan tískuvöll og snert á flestu sem viðkemur tísku og fylgihlutum þá hefur einn fylgihluturinn orðið útundan, en það eru einmitt börnin okkar. Því hvað eru þau jú annað en fylgihlutir sem eiga að vera tískumannorði okkar til sóma? Illa hirtur krakki er eins og vel girtur rappari, eða með öðrum orðum algjörlega útúr kortinu og ekki neinum mjólkandi mæðrum sæmandi (ómjólkandi mæður fara í sama flokk og karlmenn). Það verður talað um þig á Barnalandi og í mömmuklúbbnum sértu ekki með töff krakka uppá arminn. Ef krakkinn er ljótur, feitur eða bólóttur þá skaltu ekki örvænta móðir góð. Því nú skal ég segja þér fréttir; Þú getur einfaldlega föndrað betra útlit á barnið.

Að þessu sinni verður hártíska ungbarna tekin fyrir en feitu bólóttu börnin verða að bíða að sinni enda er það allt önnur áfallahjálp og meðferð sem þarf við því.

Við vitum öll að hár okkar er stór hluti af útlitinu og það er alvitað að skalli er ekki kúl, hvort sem maður er ungabarn eða með sjúkdóm. Nauðasköllótt barn er álíka óaðlaðandi og skínandi hárlaus pungur á gömlum karli. Þetta vitum við fæðingarorlofsmömmur mæta vel en þorum kannski bara ekki alveg að tala um  í mömmuhittingunum þegar við erum að metast um útlit barnanna undir rós.
Hver kannast ekki við komment eins og: „Ji, það er aldeilis hár sem barnið hefur!“ Og blóta svo eftirá í hljóði yfir því að manns eigið afkvæmi hafi ekkert hár og fara svo heim og reyna að toga einhverjar lufsur úr hárrótum barnsins með tilheyrandi orgum og oftar en ekki skammyrðum frá föður barnsins sé hann sjáanlegur. (Þeir hafa ekki skilning á þessu, enda karlmenn retarðar þegar kemur að tísku og útliti) En þið vitið jafn vel og ég að þessar aðferðir virka ekkert og eftir situr mamman með grenjandi og hárlaust barn og trítilóðan pabbann sem fer oftar en ekki að haga sér eins og górilla í aðstæðum sem þessum.

Svo hvað gerir maður þá til að barnið tolli í tískunni ? Svarið er einfalt: Maður einfaldlega föndrar smá hárkollu úr lítilli og ljótri húfu sem maður hefur fengið í gjöf frá einhverri leiðinlegri og ljótri frænkunni og einfaldlega límir hárið á húfuna. Og hvaðan kemur hárið hljóta margir að spyrja? Jú þú fórnar smá af þínu hári í þetta verðuga útlitsverkefni. Þú missir það hvort eð er allt saman í brjóstagjöfinni svo þú hefur engu að tapa. Þú bara græðir fallegra barn og kannski meira sjálfsálit í leiðinni, því við vitum öll að börn eru framlenging af sjálfsmynd móðurinnar.




Þar hafið þið það. Maður á aldrei að deyja ráðalaus. En ef þið ætlið að hrökkva uppaf í guðanna bænum verið þá allavega töff í tískunni.

Með vinsemd og virðingu,

Húsmóðir helvítis

4 comments:

  1. Það mætti nú líka aðeins vinna í þessari skeifu á barninu, börn í fýlu eru ekki töff. Bara smá ábending. Annars er samt hárið stórt skref í rétta átt.

    ReplyDelete
  2. Þakka ábendinguna, en skeifan er ættgeng og á ábyrgð föður barnsins.

    Kveðja,

    Húsmóðir Helvítis

    ReplyDelete
  3. ótrúlega púkó að vera að föndra þetta sjálf - ég keypti svona fyrir dóttur mína: http://www.babybangsbabywigs.com

    þar geturðu fengið create a very comfortable, extremely natural-looking, fun and fashionable
    hair accessory/alternative for mothers with baby girls who have very little or no hair.

    ReplyDelete
  4. Vá, takk!

    Sköllótt ungbörn eru greinilega miklu víðtækara vandamál en mig óraði fyrir. Þetta þarf að fjalla betur um, og það verður gert.

    ReplyDelete