Tuesday, October 19, 2010

megrunarráð Tískubloggsins fara um netheima einsog eldur í sinu

Hola lovers,

Styrktaraðili síðunnar er sko aldeilis ánægður með mig núna. Því talsverð umferð hefur verið um síðuna í gær og í dag, og það kemur eflaust engum á óvart að megrunarráð Tískubloggsins „14 leiðir til grennast“ er vinsælasti viðkomustaður lesenda.
Það ætti engan að undra, enda eru þetta pottþétt megrunarráð, og mér segir svo hugur að þessi lífstílsuppskrift mín eigi jafnvel eftir að lifa mig.

Tískubloggið hefur þó legið talsvert undir ámæli í kommentum á þessa færslu. Ég er þar sökuð um ýkjur og lygar og um að hafa slæm áhrif á óharðnaða æsku landsins. Og svo kom athugasemd sem mér sárnaði mjög, því einn lesandi dregur í efa að ég hafi sjálf farið eftir eigin ráðleggingum.

Ég vil því að gefnu tilefni taka það skýrt fram að ég hefði aldrei farið að setja eitthvað á internetið sem ég hef ekki trú á sjálf, og ég myndi ALDREI skrifa neinar ráðleggingar á þessa síðu sem ég fylgi ekki sjálf í hvívetna.

Því ég geri mér fulla grein fyrir því að internetið er sko alls enginn staður til að hafa hluti í flimtingum. Saman höfum við byggt upp samfélag þar sem allir koma fram af heiðarleika og heilindum og ég myndi aldrei grafa undan því trausti sem myndast hefur í netsamfélögum um heim allan, með því að skrifa þvert um hug mér á heimasíðu minni, enda er mannorð mitt þar lagt að veði.
Ég veit vel að æska landsins hefur alist upp við það að trúa öllu sem hún les, og fæstir hafa dómgreind til að vega og meta sannleiksgildi þess sem þeir lesa sjálfir, og því myndi mér aldrei koma til hugar að skrifa eitthvað sem ég er ekki 100% viss um að muni nýtast lesendum og stuðla og meiri lífsgæðum og aukinni lífshamingju aðdáenda minna.

Tískublogginu hefur líka borist fjöldinn allur af þakkarbréfum og aðdáendapóstum þar sem lesendur lýsa yfir þakklæti sínu, því með ráðleggingum mínum tókst þeim loksins að grennast og verða aðlaðandi og þóknast þannig karlmönnum og ná sér í kærasta.

Því get ég fullyrt, kæru lesendur, að mér var ekki hlátur í huga þegar ég skrifaði ofangreind megrunarráð.
Ég stend við orð mín, enda fór ég sjálf eftir ráðleggingum mínum í meira en fimm mánuði áður en ég birti þær hér á síðunni, og með góðum árangri.

Þó viðurkenni ég að ég svindlaði einstaka sinnum á mataræðinu þó reglurnar banni það, því enginn er fullkominn kæru lesendur. Ekki einusinni ég.
Sannleikurinn er einfaldlega sá að ég er mjög svag fyrir beikoni, og það kom fyrir að ég fékk mér flís fyrir svefninn og fór því ekki alltaf svöng að sofa, en annars fór ég algjörlega eftir lífstílsreglunum 14.


En það geri ég hinsvegar ekki lengur.

Þeir sem fylgst hafa með blogginu frá upphafi vita að eftir að ég uppgvötaði kenningar Dr. Peter D´Adamo þá skipti ég yfir í mataræði sem hann telur henta mínum blóðflokki.

Báðar lífstílsaðferðirnar eru góðar.
Ég mæli með að fólk prófi báðar og ákveði síðan hvor þeim finnst henta betur.

Og ég get lofað því að þið verðið mjórri, fallegri og hamingjusamari fyrir vikið.

Verði ykkur að góðu.

xoxo
-h

6 comments:

 1. Ég treysti þér, enda hef ég reynt öll ráð sem þú kemur með á síðunni og veit því af eigin raun að þú munt ekki leiða okkur á refilstigu.

  ReplyDelete
 2. Spurning um að kíkja við á Hvíta Bandið og leita sér hjálpar?

  ReplyDelete
 3. þetta var fynndið þegar ég hélt að þetta væri djók enn þú fullyrðir að þú sért 100% geðveik nema þú sér með svona fáránlegan húmor

  ReplyDelete
 4. Haha vá hvað er að fólki sem er að commenta bæði á þessa færslu og hina um megrunarráðin! Þetta er augljós kaldhæðni og ádeila á megrun.
  Efa líka að fólk reyni að fara eftir þessu, sérstaklega þegar það áttar sig á því að hún bannar alla næringarflokkana...

  ReplyDelete