Wednesday, October 13, 2010

lexía dagsins: málamiðlun

Hola lovers,

Margir lesendur hafa verið að velta fyrir sér hvernig samband mitt og kærastans gengur eiginlega upp þarsem við séum svo ólíkir einstaklingar. Og það er alveg rétt hjá ykkur, kæru lesendur. Ég og kærastinn erum mjög ólík.

Þar til nýverið vorum við í ólíkum blóðflokkum.
Ég er hávaxin og sterkbyggð á meðan hann er lítill og pervisinn.
Hann fílar Star Wars en ég fíla Star Trek.
Hann hélt með Alien en ég með Predator í Alien vs. Predator.
Hárið á honum er einsog hland á litinn á meðan mitt er svart og mjúkt einsog nóttin.
Ég fíla hveitibjór en hann vill frekar rauðvín.
Ég er einn af stofnfélögum Mensa á Íslandi á meðan kærastinn telst í besta falli meðalgáfaður.
O.s.frv.

En samt gengur samband okkar upp.
Og þið veltið fyrir ykkur, afhverju?

Svarið er málamiðlun.

Blóðskipti kærastans eru t.d. gott dæmi um málamiðlun í okkar sambandi. Við gátum ekki hugsað okkur að mega ekki borða sama matinn og þurfa jafnvel að vera í fjarbúð vegna ósamræmanlegra lífstíla svo við ákváðum að hann skyldi skipta yfir nýjan (og miklu, miklu betri) blóðflokk.
Og þegar við horfðum á Alien vs. Predator þá ákváðum við að hvorugt okkar mætti hvetja kappa sinn upphátt, heldur bara í hljóði. Við lofuðum hvort öðru líka að ræða myndina aldrei eftir að henni lauk.
Kærastinn fær ekki að koma með mér á fundi í Mensa, en hann fær að sitja fyrir utan og lesa Andrésblöð á meðan ég ræði við andlega jafningja mína.

En málamiðlanir eru ekki alltaf auðveldar. Oft er erfitt að finna lausnir sem báðir aðilar eru sáttir við, og því miður þá verður raunin stundum sú að annar aðili þarf að gefa meira eftir í samningaviðræðunum. (Og þegar annar samningsaðili er í Mensa en hinn rétt slefar uppí meðalgreind þá getið þið eflaust gert ykkur í hugarlund hver þarf oftar að láta í minni pokann. En ekki dirfast til að dæma mig. Ég lifi eftir kenningum Darwins, og mantran mín er raunar: „Hinn hæfasti mun sigra“. Það er vísindaleg staðreynd. (Og ég er viss um að þið eruð samstundis farin að sjá eftir því að hafa hætt ykkur útí rökræður við mig. Eruð þið félagar í Mensa? Hélt ekki. (En það er ég hinsvegar.))) En listin við málamiðlanir er að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við, þó allir séu ekki fullkomlega sáttir.

Þið munið eflaust öll eftir því þegar ég fór í legnám í sumar. Þegar ég viðraði hugmyndina fyrst við kærastann þá varð úr því svo stórt rifrildi að ég hélt við myndum ekki lifa það af sem kærustupar. Þessi litla uppástunga mín varð samlífi okkar næstum því banabiti.
Því við vorum algerlega ósammála.
Ég vildi fara í legnám afþví að ég gat ekki hugsað mér að þurfa að ganga með barn og gefa brjóst og mega ekki drekka kokteila í meira en ár. Og ég tala nú ekki um hvernig meðgangan myndi fara með hinn annars fullkomlega fullkomna líkamsvöxt minn. Kærastanum fannst vert að fórna honum til að koma nýju lífi inn í heiminn og tryggja framgang tegundarinnar (þarna náði hann mér næstum því, því hann veit að Darwinismi er mín trúarbrögð), en ég var fljót að hugsa og benti honum á að það væri miklu betra að ættleiða bara. Því það væri ekki eingöngu í tísku, heldur gætum við líka valið okkur barn og skilað því ef við fíluðum það ekki og hinn fullkomni líkamsvöxtur minn myndi ekki bera skaða af, við gætum bæði fengið okkur kokteila, allir yrðu sáttir og framgangur tegundarinnar jafnframt tryggður.

En þá játaði kærastinn raunverulega ástæðu þess að hann vildi ekki að ég færi í legnám. Hann gat nefnilega ekki hugsað sér að jafn háþróuð vera og ég myndi ekki fjölga sér. Honum fannst tilhugsunin um að genin mín myndu ekki fá að lifa áfram í einhverri mynd eftir minn dag óhugsandi. Og svo spilaði hann út trompinu: Hvort ég hefði leitt hugann að því hvað það að neita náttúrunni um genamengi mitt myndi vera stórt högg fyrir þróun okkar sem tegundar?

Hann Darwinaði mig og ég var orðlaus um stund.

Svo fann ég málamiðlun; Við frystum eggin mín og létum fjarlægja legið.

Þannig að annað hvort munum við fá staðgöngumóður til að ganga með barn mitt og einhvers ákjósanlegs sæðisgjafa (við kærastinn vorum bæði sammála um að hans gen stæðust einfaldlega ekki samanburð við mín og yrði hann líffræðilegur faðir afkvæma okkar væri ákveðin hætta á því að erfðaefni hans myndi „saurga“ mitt) eða við myndum einfaldlega klóna mig þegar tæknin yrði fyrir hendi.

Og þetta, lesendur kærir, kalla ég málamiðlun.

Verði ykkur að góðu.

xoxo
-h

7 comments:

 1. Ég hef einmitt verið að spá hvernig þú færir að því að hanga svona lengi með honum

  ReplyDelete
 2. Þú varst ekki sú eina sem var þjökuð af þeim vangaveltum, Þórdís mín.

  ReplyDelete
 3. Ég elska þig. Geturðu hugsað þér að skila kærastanum og málamiðlast með mér í staðinn?

  ReplyDelete
 4. Hahaha! Mér finnst það alveg agalegt að Darwina einhvern. Ég ætla að læra að Darwina fólk. Það hlýtur að slá manneskju út af laginu að átta sig á að þau hafa verið lymskulega Darwinuð :D

  ReplyDelete
 5. Ahh Lillz ég veit ekki alveg. Er búin að hafa svolítið mikið fyrir þessu sambandi við kærastann, margar málamiðlanir og svona.

  En ef þetta gengur svo ekki upp þá ert þú efst á lista hjá mér!

  ReplyDelete