Tuesday, October 19, 2010

er ekki í tísku að senda Tískublogginu póst?

Hola lovers,

Það virðist hreinlega ekki vera í tísku að svara póstum frá Tískublogginu. Ég sendi Mörtu Maríu nýverið aðdáendabréf ásamt reynslusögu minni, en hún sendi mér ekki póst til baka. Hún hringdi að vísu í mig í dag og óskaði mér til hamingju með nýju vinnuna, en ég fékk ekki svar við því hvort hún ætlaði að birta reynslusögu mína, eða hvort hún hafi hugsað sér að taka rausnarlegu tilboði mínu.

Ég held að reynslusaga mín eigi mikið erindi við almenning og því sé ég því miður ekki annað í stöðunni en að birta hana sjálf.

Frá: tiskublogg@gmail.com
Til: martamaria@pressan.is
Titill: Saman getum við bjargað lífum - Reynslusaga mín
Dagsetning: 18. október 2010 14:31

Sæl Marta María,

Í ágústbyrjun skrifaðirðu pistilinn „Ertu með pólitískan fatasmekk?“ (http://www.pressan.is/pressupennar/LesaMortuMariu/ertu-med-politiskan-fatasmekk/) og í pistlinum var svolítið sem snart mig djúpt.
Það var setningin: „Það deyr bara eitthvað þegar kona fer á flatbotna skó“.

Þú ert kannski að velta fyrir þér afhverju ég sé að skrifa þér þennan póst svo löngu eftir að þú birtir pistilinn, og sannleikurinn er sá að ég hef allan þennan tíma verið að herða upp hugann að skrifa þér. Því reynsla mín er afar sársaukafull og það er svíður að ýfa upp gömul sár, en ég held að saga mín eigi erindi til kvenna um heim allan og gæti bókstaflega bjargað lífum, og hver er verðugri að koma henni á framfæri en einmitt þú?

„Það deyr bara eitthvað þegar kona fer á flatbotna skó“. 

Enginn þekkir sannleiksgildi þessara orða betur en ég. Og þetta er saga mín.

Þegar ég fermdist þá fékk ég að velja mér háhælaða skó í stíl við fermingarkjólinn. Þeir voru ljósbláir, með semelíusteinum yfir ristina sem glitruðu í vorsólinni. Hælarnir voru ekki mjög háir, en ég var ekki vön að ganga á þeim. Það fór því ekki betur en svo að á fermingardaginn sjálfan, þegar ég var að ganga upp að prestinum til að vígjast inn í guðsríki, þá skrikaði mér fótur, ég datt og hlaut opið ökklabrot. Seinna hljóp illt í sárið og ég þurfti í kjölfarið að dvelja langdvölum á spítala, sem varð til þess að ég missti svo mikið úr skóla að ég þurfti að endurtaka 8. bekkinn.

Ég var ung og óþreyjufull og sárnaði afar mikið að sjá á eftir vinum mínum upp í 9. bekkinn á meðan ég þurfti að endurtaka þann 8., og Marta María, í fávisku minni þá kenndi ég hælaskónum um ófarir mínar.
Ég sór þess eið að ganga aldrei aftur í hælaskóm. Uppfrá þessu skyldi ég sniðganga skótískuna sem hafði kostað mig heilt ár af lífi mínu og inngöngu í guðsríki (því enn í dag er ég ófermd). 

Svo leið og beið, ég eltist og komst til vits og ára, en aldrei datt mér í hug að endurskoða afstöðu mína til hárra hæla. Ég fór í menntaskóla, háskóla, útskrifaðist, fékk góða vinnu, keypti mér mína fyrstu íbúð og lítinn hund sem ég nefndi Hermann. Ég var var sæl og glöð á mínum flatbotna skóm og hafði ekki hinn minnsta grun um þann skelfilega atburð sem beið mín.

Íbúðin mín var á annarri hæð í fallegu steinhúsi á Seltjarnarnesinu. Í kjallara hússins var þvottahús sem var sameiginlegt fyrir alla íbúa hússins. Ég notaði hurð bakvið húsið til að komast inn í þvottahúsið, en þangað var einnig innangengt frá íbúðinni á fyrstu hæð. 

Ég átti gamla þvottavél sem ég hafði erft eftir ömmu mína (blessuð sé minning hennar), það kom stundum skrýtin lykt af þvottinum, en hún virkaði og ég hafði ekki efni á að kaupa mér nýja.

Parið sem bjó á fyrstu hæð hétu Katrín og Vignir, og þau urðu góðir vinir mínir. Þeim líkaði einstaklega vel við Hermann, og því fór það svo að þegar ég þurfti að bregða mér af bæ þá tóku þau hann oft niður til sín því honum þótti leiðinlegt að vera einn heima.

Svo var það eitt sinn að mér var boðið í leikhús. Ég bað Katrínu og Vigni að gæta Hermanns, og var það auðsótt mál. Hann fór niður til þeirra og ég fór í fínan kjól og lágbotna skó og pantaði mér leigubíl. En þegar leið á sýninguna þá fór ég að fá ónot í magann, þar til ég var orðin viðþolslaus, og ákvað að fara snemma heim, þó leikritið væri hin prýðilegasta skemmtun.
En þegar ég kom heim þá komst ég því að ég hafði gleymt lyklunum mínum inni og var læst úti. Ég hafði þó ekki þungar áhyggjur, vegna þess að ég geymdi aukalykil niðri hjá Katrínu og Vigni, og ég gæti sótt hann um leið og Hermann. 
Ég fór því niður til þeirra og bankaði. Það kom enginn til dyra. Ég bankaði aftur, en enginn kom. Ég bjóst við að heyra geltið í Hermanni, því hann þekkti bankið mitt, en ekkert gerðist.

Það var þá sem ég fann reykjarlyktina. Þetta var að haustlagi þannig að fyrst hélt ég að einhver nágranninn væri að brenna lauf, en svo sá ég reykjarslæðu læðast meðfram húsveggnum. Hjartað fór að hamast í brjósti mínu og ég tók á sprett. Ég hljóp fyrir hornið og sá að reykinn lagði meðfram falsinum á þvottahúsglugganum. Ég hljóp þangað og kastaði mér á hnén í blauta moldina fyrir framan gluggann, og það sem ég heyrði þá fékk hárin til að rísa á höfði mínu. 
Ég heyrði gelt innan úr reykjarkófinu.

„Hermann! Hermann!“ æpti ég, því ég hefði þekkt geltið í honum hvar sem væri. Hermann gelti örvinglaður á móti. Ég lagði andlitið að rúðunni og sá móta fyrir honum í gegnum reykinn. Hann stóð og horfði á mig og ýlfraði. Þvottahúslykilinn minn var læstur inni í íbúð, og það var ekki innangengt í þvottahúsið nema úr íbúð Katrínar og Vignis, og þau voru ekki heima. 
Ég byrjaði að berja á rúðuna með berum hnefunum. Augun mín fylltust af tárum, og einsog í gegnum móðu leit ég í kringum mig í leit að steini, eða einhverju hörðu til að brjóta rúðuna. Ég kom ekki auga á neitt slíkt, þannig að í örvæntingunni minni fór ég úr skónum og tók að berja þeim í glerið.

Ég hafði farið í lágbotna kínaskó með mjúkum gúmmísóla og ég barði þeim í gluggann með offorsi, en allt kom fyrir ekki. Ég hefði allt eins getað reynt að brjóta rúðuna með lófafylli af rósablöðum. Tárin runnu niður kinnar mínar á meðan þvottahúsið fylltist af reyk fyrir augum mínum og ég hlustaði á hvernig sífellt leið lengra og lengra á milli þess að Hermann gelti og ýlfrið í honum varð sífellt lægra, þangað til það þagnaði að lokum alveg og ég áttaði mig á því að Hermann væri dáinn. Ég horfði niður á blóðuga hnefa mína og kreisti kínaskóna sem voru ataðir blóði og mold, og svo lokaði ég augunum og öskur mitt klauf næturkyrrðina.

Aðeins ein glerrúða hafði skilið á milli lífs og dauða hjá Hermanni, en þarsem ég hafði verið í lágbotna, mjúkum skóm gat ég ekki bjargað honum.

„Það deyr bara eitthvað þegar kona fer á flatbotna skó.“ Og það var Hermann sem dó.

Ef ég hefði verið á háum, oddhvössum hælum þetta kvöld, þá hefði ég getað brotið rúðuna og bjargað Hermanni.
Aldrei aftur mun ég klæðast flatbotna skóm. Eftir að ég missti hann sór ég þess eið að ganga ætíð á háum hælum, því ég vil ekki hafa fleiri líf á samviskunni.

Saman getum við bjargað lífum.
Klæðumst hælaskóm og neitum að láta eitthvað deyja.

Virðingarfyllst,

-h

P.S. Hér meðfylgjandi er mynd af Hermanni. Ég vona að þú finnir honum stað í bænum þínum.

Og aftur:

Frá: tiskublogg@gmail.com
 Til: martamaria@pressan.is
Titill: Re: Saman getum við bjargað lífum - Reynslusaga mín
Dagsetning: 19. október 2010 09:41
Sæl Marta María,

Mér hefur enn ekki borist svar frá þér, og ég vildi gjarnan vita hvort þú hefur áhuga á að koma reynslusögu minni á framfæri við lesendur þína.
Svo er líka annað sem mig langar að ræða við þig. 
Þannig er að um mánaðarmótin mun ég taka við sem nýr ritstjóri vefritsins Eyjunnar. Mitt fyrsta verk mun verða að láta Pjattrófurnar taka pokann sinn. Upphaflega ætlaði ég mér sjálf að fylla í skarð þeirra, þarsem ég sérhæfi mig í að skrifa um megranir og tísku, rétt einsog Pjattrófurnar sjálfar (þó ég geri það að sjálfsögðu miklu, miklu betur). En ég hef verið að skoða vefritið Eyjuna og mér sýnist verkefnið sem bíður mín þegar ég tek við sem ritstjóri svo umfangsmikið að ég muni ekki komast yfir að halda úti tískubloggi líka, a.m.k. ekki til að byrja með.

Ég er mikill aðdáandi skrifa þinna, og því vildi ég bjóða þér að segja starfi þínu á Pressunni lausu og koma með mér yfir til Eyjunnar og halda þar uppi merkjum fegurðar og tísku fyrstu mánuðina á meðan ég einbeiti mér að ritstjórn og þjóðfélagsmálum.

Hvernig líst þér á?

Virðingarfyllst,

-h

 Þið afsakið vonandi að fyrri pósturinn komi á tveimur myndum. Hann var bara svo langur að hann rúmaðist ekki á einni. Smellið á sönnunargögnin til að stækka.

Og í lokin læt ég fylgja með uppáhalds myndina mína af Hermanni í kóngulóarbúningnum sem var honum svo kær.

xoxo
-h

3 comments:

  1. Það skyldi þó ekki vera: http://pjattrofur.eyjan.is/2010/10/20/flikur-og-skartgripir-ur-kjoti/, þær virðast hafa skoðað Tískubloggið!

    ReplyDelete
  2. Þetta er hreinn og klár RITSTULDUR!
    Ég set lögfræðing minn í málið, takk fyrir ábendinguna.

    ReplyDelete
  3. LOL

    Kveðja
    Gabríela

    ReplyDelete