Thursday, October 7, 2010

sambandsslitum afstýrt með aðstoð Landlæknis

Hola lovers,

Muniði þegar ég nefndi hér að allt benti til þess að ég og kærastinn minn þyrftum að hætta saman afþví að við vorum ekki í sama blóðflokki og ættum þessvegna ekki að borða sama matinn? Það þýddi að lífstíll okkar var algerlega ósamræmanlegur og við gátum varla hugsað okkur að búa saman.

Mér fannst þetta miður, því mér líkar býsna vel við hann og svo á hann líka svo mikið af fötum sem ég nota að ef hann myndi flytja út þá þyrfti ég algjörlega að endurnýja fataskápinn minn.

Ég ákvað því að taka málin í mínar hendur og hafði samband við Landlækni. Ég útskýrði aðstæður okkar fyrir honum og hann stakk uppá því að annað okkar myndi hreinlega fara í blóðskipti. Það þýðir að öllu blóðinu í líkamanum er skipt út fyrir blóð í öðrum blóðflokki (sjá skýringarmynd).

Yfirlitsmynd yfir blóðskipti. Smellið fyrir stærri útgáfu.
Þarsem ég var nýbúin í legnámi og hafði misst töluvert blóð í aðgerðinni þá hefði sjálfsagt verið einfaldast fyrir alla ef ég hefði farið í blóðskiptin og skipt yfir í hans blóðflokk, en okkur hugnaðist betur mataræðið sem hentar mínum blóðflokki og ákváðum þessvegna að hann skyldi skipta.
Það var ekki mjög geðslegt. Fullt af nálum og blóði, og hjúkkan sem sá um skiptin missti meiraðsegja einn pokann af blóðinu hans í gólfið og pokinn sprakk og það fór blóð útum allt. Hjúkkan rann næstum í pollinum og skildi svo eftir sig blóðug fótspor þegar hún fór fram að sækja einhvern til að þrífa þetta upp. Ég held að kærastinn hafi nú séð svolítið eftir blóðinu sem fór í gólfið, en ég sagði honum að því hefði hvorteðer bara verið hent og þá leið honum betur.

Nálarkittið sem notað var við blóðskiptin. Minnir svolítið á saumakitt, ekki satt?
Kærastinn þurfti svo að liggja inni í þrjá daga á meðan hann var að jafna sig og svo þurfti líka að fylgjast með því hvort ónæmiskerfi hans myndi hafna blóðinu og ráðast líffærin í kviðarholinu í kjölfarið, sem hefði nú verið svolítið alvarlegt mál. En sem betur fer gerðist það nú ekki, eflaust afþví að hann er kominn á ónæmisbælandi lyf sem hann þarf að taka það sem eftir er ævinnar.

En nú er ég búin að endurheimta hann frá spítalanum. Hann er svolítið fölur og máttlaus, en kettirnir voru glaðir að sjá hann og ég hef fyllt ísskápinn af mat sem við megum nú bæði borða.


Hér er hann nýkominn heim eftir blóðskiptin. Það sést greinilega hvað hann er slappur. Kærastinn er feiminn við internetið og þessvegna hef ég blörrað andlitið á honum.
Hann er í alvörunni ekki svona sviplaus.

xoxo
-h

2 comments:

  1. Nú ber hann nafnið Ugly með rentu.

    ReplyDelete
  2. Það hefur aldrei farið á milli mála hvor var Ugly í sambandinu.

    ReplyDelete