Tuesday, August 17, 2010

Gestapóstur - Mömmuföt

Hæ, ég heiti Lilja og ætla að skrifa hérna smá gestapóst um mjög umdeilt efni, nefnilega barneignir. Aðalhöfundur tískubloggsins (sem þorir vonandi að birta póstinn minn) hefur talað mikið um börn, ættleiðingar og svoleiðis undanfarið, og sjálf stigið hið ultimate skref í þeim efnum með legnáminu. Því langar mig að koma þessu að, sérstaklega fyrir lesendur bloggsins sem eru sjálfir að íhuga að taka skrefið.

Þessi á augljóslega engin börn
Hingað til hafa mömmuföt ekki átt upp á tískupallborðið og því standa nýbakaðar mæður gjarnan í þeirri meiningu að þær geti klæðst hverju sem er, t.d. lágskornum, þröngum buxum með skrautsteinum á rassvösunum, skræpóttum leggings, flegnum bolum og jafnvel ermalausum! Þetta höfum við, áhorfendur, þurft að horfa upp á og þjást í hljóði, en það er auðvitað algjörlega óviðeigandi fatastíll hjá mæðrum. Athugið samt að ekki er eingöngu við þær að sakast.
Þessar eru ánægðar með mömmubuxurnar
Ekki hefur mikið verið rætt um föt sem hæfa mömmum en nú er kominn tími til. Nei, ég er ekki að tala um meðgöngufatnað eða brjóstagjafaboli, heldur föt sem hæfa breyttum líkamsvexti. Ef nútímakonur hefðu vitneskju um það hvernig líkami þeirra breytist á meðgöngu er útséð um að engin þeirra hefði áhuga á barneignum. Slúðrað hefur verið um að til þess að mannkynið deyi ekki út hafi hönnuðir og saumakonur haft samantekin ráð um að hanna hvorki né sauma föt á mæður, heldur einblínt á ungar og oftast óspjallaðar meyjar.

Nú er hinsvegar vitundarvakning í hinum vestræna heimi um að mömmur séu líka fólk, þrátt fyrir flatan, breiðan og mögulega hrukkóttan rass. Ótrúlegustu hönnuðir og tískumerki, meðal annars Chanel, Dior, Gucci og Armani, hafa riðið á vaðið eftir að ei ómerkari fyrirsætur en Gisele Bündchen og Heidi Klum fóru að hlaða niður börnum, og eru farin að hanna og selja svokölluð mömmuföt.
Einhver þarf að benda henni á mömmuföt!

Það er auðvitað algjör della að mömmur geti ekki verið kynþokkafullar og því engin ástæða til þess að fela breiðu mjaðmirnar undir síðri peysu eða troða flata rassinum ofan í óþægilegar mjaðmabuxur sem búa til hið svokallaða muffins-útlit

Nú er mæðrum óhætt að fagna breytingum á líkama sínum og kaupa sér þægileg föt sem þær barnlausu öfundast út í! Áhersla er lögð á breitt mittið og með því að hafa t.d.buxur háar er augað dregið að mittinu, sem helst verður ekki fyrir eins miklum áhrifum af meðgöngu og mjaðmirnar. Mömmubuxurnar eru gjarnan hafðar rúmar að framan svo nóg pláss sé fyrir lafandi neðrimaga og fituforðann sem sest á utanverðar mjaðmirnar. Þannig getur t.d. nýbökuð móðir vel hreyft sig og hengt upp þvott þrátt fyrir keisaraskurð, gyllinæð eða grindargliðnun.
Sigin brjóst, gyllinæð og skökk mjaðmagrind? Ekker vandamál!

Það er óhætt að segja að eftir mörg ár af óvæginni gagnrýni fyrir lystarstols-lúkkið og heróín-sjík-stílinn stefni tískan nú í rétta átt. Heyrst hefur að fleiri hönnuðir séu búnir að taka við sér og ríkir mikil leynd yfir komandi vetrarlínum. Að sögn sérfræðinga og innanbúðarmanna verða mömmufötin áberandi á tískupöllunum og því góð ástæða fyrir þá sem eru í ættleiðingarhugleiðingum að bíða í nokkra mánuði!
Lífrænt ræktuð, fair-trade bómull á rassinn minn!

2 comments: