Thursday, August 26, 2010

viltu losna við hrukkur? - 100% náttúrulegur avókadómaski

Hrukkur eru (næstum því) óhjákvæmileg afleiðing af því að eldast.

Eina fólkið í heiminum sem sleppur við þessar hörmungar eru asískar konur. En hvað eigum við hinar að taka til bragðs?

Tískubloggið lumar á nokkrum óbrigðulum ráðum:

1. Ekki fara út þegar sólin skín.

2. Ekki fara út þegar það er kalt.

3. Ekki fara út þegar það er vindur.

4. Kauptu alltaf dýrustu kremin í flottustu umbúðunum - þau eru best.

5. Slepptu allri andlitstjáningu. Ekki lyfta augabrúnum í spurn þegar þú ert hissa, ekki hrukka ennið þegar þú hefur áhyggjur eða skilur ekki eitthvað (enda telja karlmenn að undrun yfir að skilja ekki eitthvað sé hið eðlilega og náttúrulega ástand konunnar, svo það er í raun óþarfi að gefa þessar tilfinningar til kynna). Ekki brosa og hvað sem þú gerir skaltu alls ekki hlæja. Reyndu að finna einhverjar látlausari og minna hrukkuvaldandi leiðir til að tjá gleði þína og aðdáun, einsog að kreista ástúðlega upphandlegginn á viðmælanda þínum eða lúta höfði, líta svo upp og brosa með augunum (án þess þó að kipra þau, því það getur einnig valdið hrukkum).

Að auki vill tískubloggið deila með ykkur uppskrift að nærandi andlitsmaska sem kemur í veg fyrir hrukkumyndun.

Innihald:

Eitt avókadó.
Einn laukur.
Tvö ferskt chillí aldin.
Tvær matskeiðir gróft sjávarsalt.
Paprikuduft á hnífsoddi.
Þrjár teskeiðar af sítrónusafa.

Aðferð:

Saxið laukinn og chillí aldin afar smátt, stappið öllu saman og látið standa í kæli í 30 mínútur fyrir notkun.
Berið síðan maskann á andlitið og yfir augnlokin og bíðið í tvær klukkustundir. ATH að þið gætuð fundið fyrir örlítilli brunatilfinningu á augnlokunum, en það er bara chillíið að smjúga inní hrukkurnar og slétta þær innanfrá.

Ég mæli með því að þið notið þennan frábæra maska a.m.k. daglega.

xoxo
-h

1 comment:

  1. Mæli líka með botox.
    Um að gera að nýta sér það meðan það er enn í tísku!
    -St3rz

    ReplyDelete