Það hafa illir andar blásið um Tískubloggið undanfarið.
Sérstaklega hefur einn einstaklingur ráðist gegn Tískublogginu af þvílíku offorsi, að ég verð að játa að mér flaug í hug að leggja upp laupana, bugta mig fyrir mótlætinu og hætta að blogga.
Því þessi einstaklingur virðist hafa það eina markmið að níða af mér skóinn og snúa lesendum mínum gegn mér. Ummæli hennar eru ekki eftir hafandi og því hlífi ég ykkur við að lesa þau, aðdáendur kærir.
Þessi rætni einstaklingur segist heita Hildur Knútsdóttir, og hún hefur undanfarið birst í tveimur fjölmiðlum og lýst því yfir að hún standi á bakvið Tískubloggið. Þetta eru náttúrulega fáránlegar og upplognar fréttir, því einsog þið vitið vel þá er það ég, h, sem hér skrifa.
Mér brá eðlilega töluvert þegar ég sá fréttirnar, en sem betur fer slógu vinkonur mínar á Pjattrófunum um mig skjaldborg og létu Hildi heyra það. Æðsta Pjattrófan (sem viðurkenndi nýverið aðdáun sína á mér og kallaði mig meira að segja krúsípúsí, sælla minninga) tileinkaði henni meira að segja heila færslu á sínu prívat bloggi, þar sem hún setti ofaní við hana af rökfestu og yfirvegun svo mannorð þessa pósers er nú rústir einar. Því má með sanni segja að Æðsta Pjattrófan hafi sýnt Hildi (og mömmu hennar) hvar Davíð keypti ölið.
Ég vil því nota tækifærið og þakka Pjattrófunni innilega fyrir færsluna. Það er sannarlega ómetanlegt að hún hafi tekið upp hanskann fyrir mig á þessum umbrotsömu tímum í lífi mínu þegar svo hart er að mér vegið úr óvæntri átt.
En einsog ég hef áður nefnt þá lærði ég á sjálfstyrkingarnámskeiði að maður á aldrei að taka árásum þegjandi, og því ákvað ég að hafa uppá þessari „Hildi“ og senda henni línu.
Frá: tiskublogg@gmail.com
Til: hildurk@gmail.com
Titill: Þú ert póser
Dagsetning: 30. nóvember 2010 12:58
Sæl „Hildur“ (ef það er í raun þitt rétta nafn).
Ég skrifa þér vegna þess að þú hefur ítrekað brotið gróflega gegn mér og Tískubloggi mínu. Ætli það sé tilviljun að um leið og ég er búin að finna (nær) gulltryggða leið til að lauma auglýsingum að lesendum mínum og eygi loks langþráðan möguleika á því að hagnast á síðunni, þá stígur þú fram og reynir að eigna þér heiðurinn af bloggi mínu? Það er greinilegt að það eina sem vakir fyrir þér er að sölsa undir þig þær ómældu auglýsingatekjur sem ég mun hafa af síðunni í framtíðinni.
En ég skal sko segja þér að það mun ekki takast, því það sjá allir í gegnum þig.
Það sér hver sem vill að við erum nákvæmlega ekkert líkar. Ég er miklu hávaxnari og mjórri en þú, og ég er líka með miklu stærri brjóst og með miklu síðara hár, sem auk þess glansar meira. Aukinheldur hefur þú ömurlegan fatasmekk og ég myndi ekki einusinni láta leggja mig til hinstu hvílu í þessu lörfum sem þú klæðist.
Ef þú hyggst ná miklum frama í bloggheimum líkt og ég, þá ráðlegg ég þér að vinna fyrir honum sjálf.
Virðingarfyllst,
-h
Sönnunargagn 1. Smellið til að stækka. |
Og það stóð ekki á svari frá glæpakvendinu.
Frá: hildurk@gmail.com
Til: tiskublogg@gmail.com
Titill: Re: Þú ert póser
Dagsetning: 30. nóvember 2010 15:31
Éttann sjálfur, asshól.
Sönnunargagn 2. Smellið til að stækka. |
Ég held, aðdáendur kærir, að við getum öll verið sammála um að þetta er ekki svaravert.
xoxo
-h